Arnar Már Friðriksson, BS frá Viðskiptafræðideild
Stöðug þróun samfélagsmiðla kallar á skilvirkari markaðsaðgerðir, er niðurstaða BS-ritgerðar Arnars Más Friðrikssonar sem ber yfirskriftina „Markaðssetning alþjóðlegra tónlistarhátíða á Íslandi“. Þar rannsakaði Arnar upplifun forsvarsmanna markaðsstarfs fyrir alþjóðlegar tónlistarhátíðir á samfélagsmiðlum.
Tæknibreytingar eru örar og þeir aðilar sem koma að markaðssetningu þurfa sífellt að vera á tánum gagnvart síbreytilegu umhverfi samfélagsmiðla. Arnar, sem útskrifaðist með BS-próf í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti og leggur nú stund á MS-nám í nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands, er sjálfstætt starfandi tónlistarmaður með reynslu af markaðssetningu og viðburðastjórnun. Hann segist hafa brennandi áhuga á hlutverki samfélagsmiðla í markaðssetningu.
Arnar skoðaði hvaða leiðir væru skilvirkastar og hvað bæri að varast varðandi auglýsingar tónlistarhátíða á samfélagsmiðlum. „Markaðssetning á samfélagsmiðlum á að snúast um að fanga athygli fólks, vekja áhuga á upplifun í stað þess að auglýsa verð. Markaðssetning alþjóðlegra íslenskra tónlistarhátíða á samfélagsmiðlum snýst enn fremur um að koma þeim skilaboðum til væntanlegra tónleikagesta að tónlistarhátíðin verði einstök upplifun. Skilaboðin eru sett fram á litríkan, myndrænan og aðlaðandi hátt og tengjast sérkennum hátíðarinnar. Fegurð Íslands er notuð fyrir erlenda markhópa,“ segir hann.
Arnar Már Friðriksson
„Markaðssetning á samfélagsmiðlum á að snúast um að fanga athygli fólks, vekja áhuga á upplifun í stað þess að auglýsa verð.“

Reynsla Arnars af markaðssetningu viðburða var kveikjan að rannsókninni. Hann vildi læra af mistökum sínum og átta sig á afli samfélagsmiðlanna. „Það kom mér á óvart hversu fín lína er milli góðrar markaðssetningar og þess að neytendur upplifi áreiti. Innihald skilaboða þarf að vera áhugavert og skýrt þannig að neytandinn fái löngun til að afla sér meiri upplýsinga á aðgengilegan hátt. Flóð skilaboða á samfélagsmiðlum getur leitt til þess að neytandinn upplifir þau sem áreiti í stað þess að finnast þau áhugaverð,“ útskýrir Arnar. Hann bætir við að rannsókn hans hafi leitt í ljós að aukin skilvirkni í markaðsaðgerðum á samfélagsmiðlum með minna áreiti og styttri leitartíma auðveldi neytendum að taka ákvörðun.
Arnar telur að markaðsaðilar sem nýta sér niðurstöðu rannsóknarinnar geti náð forskoti á markaði samfélagsmiðla. Hann bendir enn fremur á að þörf sé á frekari vísindarannsóknum á samfélagsmiðlum sem markaðsverkfæri og hefur Arnar áhuga á að halda þeim áfram. „Samfélagsmiðlarnir eru jafnmikil bylting og sjónvarpið þegar það kom,“ segir Arnar sem vonast til þess að finna „X-faktorinn“ í markaðssetningu á samfélagsmiðlum framtíðarinnar.
Leiðbeinandi: Erla Sólveig Kristjánsdóttir, lektor við Viðskiptafræðideild.