„Grettir kvað ekki batnað hafa um lyndisbragðið og sagðist nú miklu verr stilltur en áður og allar mótgerðir verri þykja. Í því fann hann mikla muni að hann var orðinn maður svo myrkfælinn að hann þorði hvergi að fara einn saman þegar myrkva tók. Sýndist honum þá hvers kyns skrípi.“
Svona segir af því í Grettis sögu hvernig myrkrið læðist að sjálfri söguhetjunni og sest innra með henni með hreinni sálarpínu. Þarna sér lesandi umsvifalaust hvernig kvíði, ótti og ofskynjanir taka yfir lundina í Gretti Ásmundarsyni sem hafði gríðarlega líkamlega burði til að takast á við nánast allt nema myrkrið.
Yfirleitt þarf ekki að lesa margar bækur til að sjá að myrkrið getur leikið stórt hlutverk í sviðssetningu og atburðarás en það er líka táknrænt fyrirbæri í bókmenntum og í tungunni. Þannig segir t.d. af samspili höfuðandstæðna, birtu og myrkurs í Fóstbræðrasögu með ljóðrænum myndum sem eru næstum því nútímalegar.
„Og svo sem myrkva dregur upp úr hafi og leiðir af með litlu myrkri og kemur eftir bjart sólskin með blíðu veðri, svo dró kvæðið allan óræktarþokka og myrkva af hug Þórdísar og renndi hugarljós hennar heitu ástar gervalla til Þormóðar með varmri blíðu.“
Rýnt í sortann í Njálu, Eglu, Laxdælu og öðrum sögum
Núna er allt þetta myrkur í Íslendingasögunum til rannsóknar í Háskóla Íslands og það er Jan Alexander van Nahl, dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda sem rýnir í sortann, að sjálfsögðu fræðilega.
„Ég ólst ekki upp á Íslandi, þannig að ég tek kannski sérstaklega vel eftir myrkrinu á Íslandi á veturna,“ segir Jan Alexander sem fann líka fyrir tilvist þess í texta Íslendingasagna sem hann hefur lesið sér til ánægju lengi og líka í fræðilegum tilgangi.
Jan Alexander er maður tveggja tíma og í raun tveggja heima. Hann er fæddur í borginni Bonn í Þýskaland en frá því hann fluttist hingað hefur hann náð góðum tökum á íslenskri tungu. Hann hefur lengi skoðað hlutverk miðaldafræði í nútímasamfélaginu enda hefur hann sökkt sér ofan í Snorra-Eddu, höfuðrit Snorra Sturlusonar sem var af ætt Sturlunga og því uppi á gríðarlegum rósturstímum á Íslandi á 13. öld. Með ritun Eddu bjargaði Snorri ekki litlu því Eddan hans er mikilvægasta heimild okkar nútímamanna um norræna goðafræði.
Jan Alexander hefur gefið út tvær bækur um Snorra en líka bók um konungasögur. Hann hefur auk þess skrifað bók um stafræn hugvísindi, kennslubók í norrænum miðaldafræðum og bók um Ísland og íslenska tungu handa þýskum ferðamönnum.
Fáir sökkt sér ofan í myrkrið hingað til
Þegar vikið er að nýjustu hugðarefnum Jans Alexanders segir hann að myrkrið sé býsna mikilvægur hluti af eðlilegu lífi okkar. Fæstir þurfa þó að rýna mikið í myrkrið hjálparlaust nema straumrof verði sem gerist æ sjaldnar miðað við alla þá tækni sem við göngum að sem vísri í nútímanum.
„Fáir sérfræðingar í miðaldabókmenntum hafa leitt hugann að myrkrinu hingað til, þrátt fyrir að það hafi verið einkar áberandi í bókmenntatexta, sérstaklega hér á landi allt frá miðöldum. Mér finnst mjög áhugavert að götuljós til dæmis komu ekki til Íslands fyrr en á seinni hluta 19. aldar, nokkrum hundruð árum seinna en víða á meginlandi Evrópu.“
Jan Alexander segir að fólk í borgum í Mið-Evrópu hafi þannig viljað fæla myrkrið burt rúmlega 400 árum fyrr en hér var gert. Með raflýsingu borga og sveita varð miklum árangri náð í að auka lífsgæði en þegar ljósið var komið alls staðar var eins og fólk færi að sakna myrkursins. Þess vegna er oft talað um ljósmengun sem var áður algerlega óþekkt hugtak en ljós mengar í þeim tilvikum þegar fólk vill hafa skarpa sýn á það sem hverfur um leið og ljós fellur á það.
„Það er spurning hvort Íslendingar hafi verið vanari myrkri en Evrópubúar eða meðvitaðri um það. Mér finnst alla vega myrkur einfaldlega mjög spennandi áskorun,“ segir Jan Alexander sem bætir því við að rannsóknaverkefni sitt snúist um að finna hlutverk myrkursins í Íslendingasögum og að skilgreina um leið mikilvægi þess í miðaldasamfélaginu.
Myrkrið bjargar og tortímir
„Í Íslendingasögunum er oft bent á myrkur sem eðlilegan hlut sem getur gagnast manni um stund, en eftir sem áður eitthvað sem maður hefur enga stjórn á. Myrkrið getur þannig tortímt persónum líkamlega og ekki síður andlega eins og við sjáum í Grettis sögu,“ segir Jan Alexander.
„Í Egils sögu eru ýmis góð dæmi um atburði þar sem myrkrið leikur lykilhlutverk. Þar er til dæmis sagt frá manni sem ræðst á óvini í svefnstofu um miðja nótt en er svo sjálfur veginn strax eftir sólsetur fyrir framan eigið hús. Hér er ekki ýkja mikið vikið að andlegu ástandi heldur sýnt að myrkrið gefur færi fyrir þann sem vegur en það tekur líka, það setur leikreglurnar. Myrkrið virðist þannig tímabundið ástand sem leyfir manni að ganga farsællega frá einhverju, eða jafnvel einhverjum, en um leið og það tekst verður líka viss línudans milli árangurs og glötunar. Að drepa mann í myrkri er eftir sem áður myrkraverk í skilningi flestra manna á þeim tíma sem sögurnar eru ritaðar.“
Jan Alexander segir að í Eglu sé Agli sjálfum t.d. forðað um stund undan skjótri aftöku um miðja nótt þegar Arinbjörn vinur hans mælir orðin „náttvíg eru morðvíg“!
Orð Arinbjarnar dugðu til að Gunnhildur drottning slægi aftöku Egils á frest. Og skuggarnir halda síðan áfram, að sögn Jans Alexanders, hlífiskildi yfir Agli því hann nýtir sér myrkrið strax um nóttina til að yrkja lofkvæðið Höfuðlausn sem bjargar lífi hans undan bitjárnum Gunnhildar drottningar og manns hennar Eiríks konungs blóðaxar. „Þannig fléttar myrkrið saman hugkvæmnina, dauðann og lífsbjörgina í Eglu.“
„Fáir sérfræðingar í miðaldabókmenntum hafa leitt hugann að myrkrinu hingað til, þrátt fyrir að það hafi verið einkar áberandi í bókmenntatexta, sérstaklega hér á landi allt frá miðöldum. Mér finnst mjög áhugavert að götuljós til dæmis komu ekki til Íslands fyrr en á seinni hluta 19. aldar, nokkrum hundruð árum seinna en víða á meginlandi Evrópu.“
Myrkrið samofið andlegri líðan
Jan Alexander segir að efni tengt myrkri í þessum mikla bókmenntaarfi okkar sé margrætt og flókið og sleppi stundum einhvern veginn lymskulega undan okkur um leið og við reynum að greina það. Hann segist trúa því að þótt rannsóknin sín miðist við að kanna hlutverk myrkurs í bókmenntalegum skilningi þá sé það gjarnan á einhvern hátt samofið andlegri líðan persónanna eins og gerist raunar í veruleika nútímans.
„Það mun eg sýna jafnan að eg er ekki myrkur í skapi. Njáll hefir beðið mig liðveislu. Hefi eg og í gengið og heitið honum mínu liðsinni. Hefir hann áður selt mér laun og mörgum öðrum í heilræðum sínum."
Svona mælir Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdal í Njáls sögu. Þarna má lesa í huga Hjalta með því hvernig hann notar myndræna töfra tungunnar.
Jan Alexander segir að lestur Íslendingasagna með myrkrið sem hvatningu gefi sýn og skilning á andlega heilsa manna á „dimmum miðöldum“ og geti jafnvel bætt sjónarhorni við þá könnun sem fer stöðugt fram á andlegri heilsu manna í nútímanum.
„Ég trúi að betri skilningur á hugarfari mannsins á miðöldum geti líka sagt okkur eitthvað um hugarfar okkar í dag – manneskjan þá var á heildina litið ekkert öðruvísi en nú, og ekki heldur er myrkrið meiningarlaust í dag.“
Þótt Jan Alexander hafi flutt fyrirlestra um myrkrið í Íslendingasögum og birt bókakafla um skuggana sem þar leynast þá segist hann ekki enn hafa klófest allt myrkrið í þessum sögum. Hann hefur fengið tveggja ára rannsóknastyrk til að ná alveg utan um skuggana í þessum perlum okkar allra. „Ég hef ekki enn náð í umfangsmiklar niðurstöður og það er augljóst að víðtækari rannsóknir munu veita betri innsýn í hugarfar á Íslandi á miðöldum.“
Margræðir og margslungnir textar
Jan Alexander ólst upp fjarri borgarinnar dyn í Þýskalandi og segir að tengslin við norrænar bókmenntir hafi líklega fyrst myndast í gegnum móður sína sem var sérfræðingur í germönskum málvísindum. Hann hafði komið hingað sem ferðamaður áður en hann hóf hér störf og var líka í skiptinámi í Uppsölum fyrir röskum fimmtán árum og tók þá nokkur námskeið í Eddukvæðum og í Snorra-Eddu.
„Mér fannst þessir textar strax þá svo margræðir og margslungnir og ég ákvað að kafa dýpra í þá. Um leið og maður fer að rýna betur í þessa texta finnur maður sífellt eitthvað nýtt og stöðugt meira um manneskjuna sjálfa sem er þýðingarmikið á öllum tímum þótt textarnir séu fornir.“
Jan Alexander segist jafnan reyna að finna tengsl Íslendingasagna við evrópskar miðaldabókmenntir „en satt besta að segja eru þessir löngu prósatextar um miðaldasamfélag hér á Íslandi mjög sérstakir á margan veg. Íslendingasögurnar eru svo miklu meira en venjubundnar hetjusögur. Það er hægt að lesa þær aftur og aftur og uppgötva sífellt eitthvað alveg nýtt, alveg sama hversu fróður maður er um efni þeirra á undan og hversu mikið aðrir hafa ritað um þær.“
Hugvísindin í sókn í HÍ
Í nýrri stefnu Háskóla Íslands er traust eitt af leiðarljósunum í starfinu þar sem áhersla er lögð á að laða til skólans starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn. Það er svo sannarlega mikilvægt háskólum að fá til sín fólk sem miðlar af reynslu sem hefur verið aflað annars staðar. Þetta á sannarlega við um Jan Alexander sem hefur meistaragráðu frá Háskólanum í Bonn í norðurlandafræðum, mannvistarlandfræði og fornleifafræði. Þá hefur hann doktorsgráðu í norðurlandafræðum og fornleifafræði og hann hefur að auki lokið doktorsprófi hinu meira í norrænum fræðum. Báðar síðartöldu gráðurnar eru frá Háskólanum í München.
„Mér finnst Háskóli Íslands vera framsýnn og lausnamiðaður og veita starfsfólki og nemendum möguleika á að finna sínar eigin leiðir í rannsóknum, kennslu og námi samtímis því sem skólinn beinir öllum líka í ákveðinn farveg þegar nauðsyn krefur. Þetta skapar fjölbreytni,“ segir Jan Alexander.
„Sumstaðar erlendis eiga hugvísindin hreinlega erfitt, ekki síst miðaldafræðin, þar sem fókusinn hefur flust til í vísindalegu tilliti. Hugvísindin eru mjög mikilvæg samfélagslega og við Háskóla Íslands eru þau á góðri leið og mér finnst alls ekki leiðinlegt að taka virkan þátt í þeirri vegferð.“