Skip to main content

Leitin að réttari greiningu á bakflæði

Össur Ingi Emilsson, doktorsnemi við Læknadeild

„Vélindabakflæði er afar algengur sjúkdómur sem hrjáir allt að tólf prósent fólks. Einnig eru hvers kyns öndunarfæraeinkenni, hósti, hvæs og mæði, afar algeng og gengur stundum erfiðlega að meðhöndla þau. Sömu sögu er að segja um kæfisvefn.“ Þetta segir Össur Ingi Emilsson, læknir og doktorsnemi við Háskóla Íslands, sem unnið hefur náið með Þórarni Gíslasyni prófessor að rannsóknum á þessum kvillum. Þeir hafa sérstaklega kannað tengsl bakflæðis að nóttu við öndunarfærasjúkdóma og kæfisvefn.

„Ef einhver þessara erfiðu tilfella af öndunarfærakvillum sem illa gengur að meðhöndla stafa af bakflæði þá er afar mikilvægt að við séum meðvituð um það. Það myndi þá flýta fyrir því að sjúklingarnir fengju rétta greiningu og betri meðferð við kvillum sínum,“ segir Össur Ingi. Þar sem þessir kvillar eru jafnalgengir og raun ber vitni gæti það, að mati Össurar, haft mikla heilsufarslega þýðingu fyrir nokkuð stóran hóp fólks að finna á þessu lausn. „Það er aðalástæða þess að ég valdi mér þetta viðfangsefni,“ segir hann.

Össur Ingi Emilsson

„Vélindabakflæði er afar algengur sjúkdómur sem hrjáir allt að tólf prósent fólks. Einnig eru hvers kyns öndunarfæraeinkenni, hósti, hvæs og mæði, afar algeng og gengur stundum erfiðlega að meðhöndla þau. Sömu sögu er að segja um kæfisvefn.“

Össur Ingi Emilsson

„Við höfum í vaxandi mæli verið að átta okkur á því að fólk með einkenni bakflæðis er oftar en aðrir með ýmsa öndunarfærakvilla, sem og kæfisvefn. Í dag er talið ljóst að bakflæði geti valdið öðrum einkennum en aðeins þessum best þekktu, þ.e. brjóstsviða og nábít. Hins vegar er oft erfitt að skilja kjarnann frá hisminu, það getur reynst erfitt að greina með vissu hverjir eru með öndunarfæraeinkenni vegna bakflæðis og hverjir ekki.“

Össur segir að fyrstu rannsóknir hans og Þórarins hafi sýnt að einkenni bakflæðis, sérstaklega að nóttu til, komi oftar fyrir hjá fólki með einkenni frá öndunarfærunum eða einkenni kæfisvefns en öðrum. „Síðar höfum við einnig sýnt fram á að þeir sem finna fyrir einkennum bakflæðis að nóttu í mörg ár þróa mun oftar með sér öndunarfæraeinkenni eða einkenni kæfisvefns en þeir sem aldrei finna fyrir bakflæðiseinkennum. Það styður að bakflæði geti á stundum valdið þessum einkennum. Við höfum hlotið verðlaun víða fyrir þessar rannsóknir okkar, á norræna svefnþinginu, evrópska svefnþinginu og nú síðast aðalverðlaun ResMed á evrópska lungnaþinginu árið 2013.“

Leiðbeinandi: Þórarinn Gíslason, prófessor við Læknadeild