Skip to main content

Kirkjan gegn ofbeldi

Stefanía Steinsdóttir, mag. theol. frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

„Æ meir ber á ýmiss konar baráttu gegn ofbeldi í samfélagi okkar,“ segir Stefanía Steinsdóttir sem nýlega lauk rannsókn á því hvort kirkjan gæti orðið frekari þátttakandi í baráttunni gegn ofbeldi í samfélagi okkar.

„Biblíutextar eru sumir það ljótir að við viljum helst ekki lesa þá en engu að síður endurspegla þeir því miður þann raunveruleika sem við stöndum enn frammi fyrir í dag. Kirkjan getur lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn ofbeldi, m.a. í gegnum stjórnsýslu, helgihald, predikun, sálgæslu og biblíutexta. Framkvæmdaáætlun íslensku þjóðkirkjunnar gegn ofbeldi er höfð að leiðarljósi í rannsókninni.“
 

Stefanía Steinsdóttir

„Kveikjan að rannsókninni var sú að ofbeldi er að finna alls staðar, í öllum stéttum, í öllum störfum, og sem verðandi prestur vildi ég finna svör við því hvernig kirkjan gæti tekið þátt í þessari baráttu sem ofbeldi er í samfélagi okkar,“

Stefanía Steinsdóttir

Stefanía segir að mikil vitundarvakning hafi átt sér stað í samfélaginu síðasta áratuginn og enn megi sjá breytingar til góðs. Gamlar og nýjar stofnanir hafi aukið áhersluna á baráttuna gegn hvers kyns ofbeldi og þá ekki síst kynferðisofbeldi. Hún færir í tal hvernig lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi sett sér nýjar áherslur og markmið í heimilisofbeldismálum. Þá bendir hún á starf Stígamóta, Kvennaathvarfsins, Blátt áfram auk Druslugöngunnar og nýstofnaðrar Bjarkarhlíðar sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. „Bjarkarhlíð er þróunar- og samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarog innanríkisráðuneytisins, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfsins, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafar,“ segir Stefanía.

Hún bendir einnig á Metoo-bylgjuna svokölluðu sem hafi vakið feiknarmikla athygli víða um heim og ekki síst hér á landi en þar hafa konur stigið fram og beint sjónum að ofbeldi og áreitni sem þær hafi orðið fyrir, ekki síst á tilteknum starfsvettvangi.

„Kveikjan að rannsókninni var einmitt sú að ofbeldi er að finna alls staðar, í öllum stéttum, í öllum störfum, og sem verðandi prestur vildi ég finna svör við því hvernig kirkjan gæti tekið þátt í þessari baráttu sem ofbeldi er í samfélagi okkar,“ segir Stefanía.

„Mig langaði að kafa djúpt og sjá hvort unnt væri að hafa áhrif á alla hópa, gerendur og þolendur og líka þá sem verða vitni að ofbeldi. Niðurstaðan er sú að ég tel að kirkjan geti lagt sitt af mörkum og eigi ekki að vera feimin við að tala um ofbeldi.“

Stefanía segir að nýjar bylgjur í baráttunni gegn ofbeldi, eins og FOKK ofbeldi, Metoo og Höfum hátt, eigi svo sannarlega við alls staðar í samfélagi okkar og líka í kirkjunni. „Kærleikurinn sigrar allt, saman getum við svo margt,“ segir Stefanía og bætir því við að rannsóknir eins og hennar minni okkur á að við eigum aldrei að sitja aðgerðarlaus. „Við getum öll lagt eitthvað af mörkum til að vernda dætur okkar og syni gegn þeirri samfélagsvá sem ofbeldi í heiminum er orðið.“

Leiðbeinandi: Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.