Seyðisfjörður hefur verið í fréttum undanfarið vegna náttúruhamfara þar sem aurskriður féllu úr hlíðunum fyrir ofan bæinn vegna ákafrar úrkomu. Þarna fluttist gríðarlegt magn af jarðvegi ofan úr hlíðunum og niður á láglendið við sjóinn þar sem fjöldi húsa skemmdist eða eyðilagðist. Jarðvegur er mikilvægur fyrir vöxt plantna en hann getur líka sagt merka sögu. Með því að þræða saman ólíkar vísindagreinar og hagnýta sér nýja tækni geta vísindamenn nú greint erfðaefni ólíkra lífvera úr jarðvegi þúsundir ára aftur í tímann. Þetta gera vísindamennirnir með því að rýna í jarðveginn eða það sem við köllum yfirleitt mold í daglegu tali.
Við mynni Seyðisfjarðar er Skálanes, sannkölluð náttúruperla, en þar hefur Rannveig Þórhallsdóttir, doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, stundað rannsóknir undanfarin misseri. Rannsóknir hennar snúast einmitt um að greina erfðaefni eða forn-DNA úr plöntum og dýrum í mannvistarlögum á þúsund ára tímabili. Hún hefur grafið í bæjarhólinn í Skálanesi og vill svipta hulunni af sögunni með þessari nýstárlegu rannsóknaaðferð.
„Ég hef mikinn áhuga á að vinna þvert á vísindagreinar til að nýta mismunandi aðferðir þeirra til að skilja betur rannsóknarefnið. Í rannsókn minni nýti ég til að mynda aðferðir lífvísinda, jarðvísinda, forritunar og hugvísinda til að skoða rannsóknarefnið,“ segir Rannveig sem hefur alla tíð verið heilluð af landnámi Íslands.
„Á Skálanesi vildi ég fyrst og fremst komast að því hvort mögulegt væri að greina forn-DNA úr mold í fornleifafræðilegu samhengi á Íslandi. Síðan hafði ég áhuga á að sjá hvers konar dýr og plöntur væri hægt að finna í mold úr fornleifafræðilegu samhengi, til að skilja betur búsetu á jörðinni Skálanesi,“ segir Rannveig Þórhallsdóttir, doktorsnemi í fornleifafræði.
Flett í jarðlögum til að skoða fortíðina
Í þessari rannsókn nær Rannveig nánast að fletta í jarðlögunum frá okkar tímum aftur að landnámi á þessu slóðum. Í Landnámabók segir frá því þegar Bjólfur, fóstbróðir Loðmundar hins gamla, sem var talinn hafa verið rammaukinn og fjölkunnugur, kom til Seyðisfjarðar frá Vörs í Þulunesi í Noregi. Sonur Bjólfs hét Ísólfur en hann átti einnig dótturina Helgu. Bjólfur gaf dóttur sína Helgu Áni hinum ramma. Fylgdi henni heiman öll hin nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Fari Landnáma rétt með er aldrei að vita nema Rannveig hafi þegar rekist á erfðaefni úr lífverum frá þeim tíma er Bjólfur, Helga og Ísólfur fóru um Seyðisfjörð.
„Á Skálanesi vildi ég fyrst og fremst komast að því hvort mögulegt væri að greina forn-DNA úr mold í fornleifafræðilegu samhengi á Íslandi. Síðan hafði ég áhuga á að sjá hvers konar dýr og plöntur væri hægt að finna í mold úr fornleifafræðilegu samhengi, til að skilja betur búsetu á jörðinni Skálanesi,“ segir Rannveig aðspurð um forsendur rannsóknarinnar.
Hún segir að komnar séu ákveðnar niðurstöður, sem teljist þær fyrstu úr rannsókninni sem annaðhvort verða staðfestar eða hraktar á næstu stigum rannsóknarinnar. „Aðalatriðið,“ segir Rannveig, „er að aðferðin við að greina forn-DNA úr mold virðist virka.“
Rannveig segir rannsóknir á forn-DNA úr plöntum og dýrum geti gefið áhugaverðar niðurstöður um lífsskilyrði á þessum þúsund árum sem séu til skoðunar. „Þetta getur haft umtalsvert gildi fyrir samfélagið í dag. Þannig eykst skilningur okkar á því hvaðan við komum og við hvaða aðstæður fólk bjó fyrr á öldum.“
Rannveig segir að rannsóknin hafi einnig talsvert gildi fyrir vísindi og fornleifarannsóknir á Íslandi almennt þar sem hún geti opnað heilan heim möguleika tengda túlkun á lífsskilyrðum fortíðarinnar. „Rannsóknir eins og þessi eru mikilvægar til að horfa á heiminn út frá nýju sjónarhorni, skilja hið smáa í hinu stóra og horfa á heiminn eins og geimfari horfir á jörðina.“
Leiðbeinandi Rannveigar er Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd sitja Egill Erlendsson, prófessor við Líf- og umhverfisdeild, og Lisa Matisoo-Smith, prófessor í sameindamannfræði við Otago-háskólann í Nýja-Sjálandi. Einnig er unnið í samstarfi við prófessora við Earlham-háskóla í Bandaríkjunum.