„Meginmarkmið doktorsrannsóknar minnar er að meta hvernig draga megi úr brotthvarfi á framhaldsskólastigi. Ég skoða sérstaklega hvernig sjálfsmynd og skólaviðhorf nemenda mótast á meðan á framhaldsskólagöngu þeirra stendur en þessir þættir geta skipt sköpum fyrir skuldbindingu nemenda til náms og líkur á að þeir ljúki námi,“ segir doktorsneminn Heiður Hrund Jónsdóttir um afar brýna rannsókn sína á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum en menntun er almennt talin lykill að góðri samkeppnisstöðu þjóða, bættri velferð þeirra og auknum lífsgæðum.
„Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að nemendur ljúki prófi á framhaldsskólastigi. Ekki einungis fyrir almenna velferð og framtíð ungs fólks heldur einnig fyrir samfélagið í heild. Krafan um að draga úr brotthvarfi á framhaldsskólastiginu hefur því verið hávær í langan tíma og mikilvægi rannsókna sem snúa að inngripum eða stefnumótandi aðgerðum til að draga úr brotthvarfi er ótvíræð. Viðfangsefnið höfðaði til mín sem félagsfræðings með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi og sameinar áhuga minn og fyrri þekkingu einstaklega vel,“ segir Heiður Hrund.
Afar mikilvægt að mennta þjóðina
Þar sem sú skoðun hefur verið óumdeild um langa hríð að draga þurfi úr brotthvarfi á framhaldsskólastigi hefur þessi rannsókn mikið samfélagslegt gildi og niðurstöðurnar geta komið víða að haldi. „Doktorsverkefni mitt miðar að því að rannsaka hvernig sjálfsmynd og skólaviðhorf mótast og tengjast skuldbindingu til náms og brotthvarfi,“ segir Heiður Hrund.
„Niðurstöðurnar munu veita upplýsingar um hvert stefnumótandi aðilar geti beint spjótum sínum til að vinna markvisst að því að styrkja sjálfsmynd og viðhorf nemenda með það markmið að draga úr brotthvarfinu. Þær geta komið að gagni innan grunn- og framhaldsskólanna þar sem kennarar og skólastjórnendur fá upplýsingar um mikilvægi þess að efla sjálfsmynd og skuldbindingu nemenda og hvaða aðferðum megi beita til að styrkja umrædda þætti. Sömuleiðis geta niðurstöðurnar veitt mikilvægar upplýsingar um það hlutverk sem skólakerfið og uppbygging þess spilar í að rækta og styrkja sjálfsmynd, skólaviðhorf og skuldbindingu nemenda svo skólaganga þeirra verði sem farsælust.“
„Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að nemendur ljúki prófi á framhaldsskólastigi. Ekki einungis fyrir almenna velferð og framtíð ungs fólks heldur einnig fyrir samfélagið í heild. Krafan um að draga úr brotthvarfi á framhaldsskólastiginu hefur því verið hávær í langan tíma og mikilvægi rannsókna sem snúa að inngripum eða stefnumótandi aðgerðum til að draga úr brotthvarfi er ótvíræð,“ segir Heiður Hrund.
Þróun sjálfsmyndar og helgun í námi
Heiður Hrund segir að rannsóknin sýni að skóli, námsbraut og samnemendahópurinn hafi áhrif á þróun sjálfsmyndar. Nemendur miði getu sína og frammistöðu við aðra nemendur í sínu nánasta umhverfi. „Það hefur áhrif á sjálfsmynd nemenda hvar þeir staðsetja sig í nemendahópnum með hliðsjón af námsgetu,“ segir Heiður Hrund. „Sú sterka sjálfsmynd sem nemendur í bóknámsskólum höfðu við lok grunnskóla veiktist þegar í framhaldsskóla var komið. Myndinni er hins vegar öfugt farið á meðal þeirra sem stunduðu starfsnám í framhaldsskóla þar sem sjálfsmynd þeirra styrkist á tímabilinu. Fram undan er svo að skoða tengsl sjálfsmyndar við skuldbindingu til náms og brotthvarf úr námi.“
Hluti af alþjóðlegu rannsóknarneti
Um er að ræða langtímarannsókn hjá Heiði Hrund þar sem hún vinnur með gögn frá nemendum við lok grunnskólagöngu og svo aftur fjórum árum seinna. „Doktorsverkefni mitt er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem er undir stjórn Kristjönu Stellu Blöndal. Verkefnið er hluti af alþjóðlegu rannsóknarneti vísindafólk víða um heim, undir nafninu International Study of City Youth (ISCY). Kristjana Stella Blöndal hefur verið leiðandi í rannsóknum á framhaldsskólastiginu, skuldbindingu nemenda og rannsóknum á brotthvarfi frá námi.“
Kristjana Stella er einmitt leiðbeinandi Heiðar Hrundar í doktorsverkefninu ásamt Stefáni Hrafni Jónssyni, prófessor í félagsfræði. „Það var því einstakt tækifæri að fá að vinna doktorsverkefnið til að auka við þá þekkingu sem nú þegar hefur verið aflað og að nýta þau dýrmætu gögn sem tilheyra þessu alþjóðlega verkefni í minni rannsókn,“ segir Heiður Hrund.
Þess má geta að verkefni Heiðar Hrundar er styrkt af Menntarannsóknarsjóði, sem vistaður er hjá Rannís. Sjóðurinn styður hagnýtar menntarannsóknir á sviði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, náms á framhaldsskólastigi og frístundastarfs. Markmiðið með sjóðnum er m.a. að auka tækifæri til að skapa og miðla þekkingu til framþróunar og umbóta í skólastarfi og styðja við framkvæmd menntastefnu til 2030.