Doktorsneminn Dagrún Ósk Jónsdóttir hefur mikinn áhuga á öllu því sem er dularfullt, skrýtið og jafnvel hræðilegt. Viðfangsefnin hennar í rannsóknum í þjóðfræði hafa í gegnum tíðina endurspeglað þetta en hún hefur t.d. rannsakað mannát í íslenskum þjóðsögum.
Nú rannsakar hún hins vegar birtingarmynd kvenna í íslenskum þjóðsögum sem safnað var á 19. og 20. öld en áhugi hennar beinist ekki síst að því sem þjóðsögur geta miðlað um samfélagið sem þær tilheyrðu. „Sögurnar veita okkur ákveðna innsýn inn í líf og hugmyndaheim fólksins sem sagði þær. Auk þess hef ég áhuga á kynjafræði og fannst þetta geta orðið spennandi verkefni að takast á við.“
Konur í háskerpu í íslenskum þjóðsögum
Í nokkrum íslenskum þjóðsögum eru konur í brennidepli þar sem teknir eru fyrir átakaþættir sem við þekkjum jafnvel úr samtímanum. Helga Kress, prófessor emerita í Íslensku- og menningardeild, hefur bent á að þarna megi finna viðfangsefni eins og ást í meinum, svik í tryggðum, vinnuhörku, heimilisofbeldi, nauðungargiftingar og jafnvel uppreisnir kvenna.
„Fókusinn hjá mér verður sérstaklega á konur sem brjóta gegn ríkjandi hugmyndum um kvenleika á þeim tíma sem sögunum var safnað og hverjar afleiðingar þess eru,“ segir Dagrún Ósk um þetta áhugaverða verkefni sitt. „Ég hef verið að skoða sagnir af konum í karlastörfum, sem afneita móðurhlutverkinu, yfirnáttúrulegar konur eins og tröllskessur og huldukonur og svo kynbundið ofbeldi gegn konum í sögnum.“
Dagrún Ósk segir að rannsókn sé eiginlega afsprengi sýningar sem hún vann að sumarið 2018 sem hét því ógnvekjandi nafni: „Skessur sem éta karla: mannát og femínismi.“ Hún byggði sýninguna á BA-ritgerðinni sinni um mannát í íslenskum þjóðsögum.
„Í sýningunni nálgaðist ég mannátið út frá kynjavinkli og langaði að vinna fleiri rannsóknir sem samþætta þetta tvennt, þjóðfræði og kynjafræði.“
„Ég hef verið að skoða sagnir af konum í karlastörfum, sem afneita móðurhlutverkinu, yfirnáttúrulegar konur eins og tröllskessur og huldukonur og svo kynbundið ofbeldi gegn konum í sögnum,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, doktorsnemi í þjóðfræði. MYND/Kristinn Ingvarsson
Sögurnar viðhalda hugmyndum um hlutverk kynjanna
Dagrún Ósk segir að komnir séu vísar að ýmsum spennandi niðurstöðum úr rannsókninni. „Það sem mér finnst áhugavert er hversu mikið af hugmyndum sem birtast okkur í sögnunum eru enn til staðar í dag. Þá er líka áhugavert að sjá hvernig sagnirnar stuðla að því að skapa og viðhalda ákveðnum hugmyndum um hlutverk kynjanna.“
Hún segir að gildi verkefnisins fyrir þjóðfræðina felist fyrst og fremst í nýjum leiðum til að rannsaka íslenska þjóðsögur, ekki síðst í þeirri þverfaglegu nálgun sem hún hagnýti sér. „Fyrir samfélagið vona ég að rannsóknin muni varpa nýju ljósi á hvernig ákveðnum hugmyndum um kynin hefur verið viðhaldið í gegnum tíðina og veita ný tæki í baráttunni fyrir auknu jafnrétti.“
Leiðeinandi Dagrúnar Óskar í þessu verkefni er Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði.