Það er stundum sagt að árangur vísindamanna byggist á áfergju þeirra við að ljúka upp því sem enginn hefur séð. Og vissulega hefur þessi áfergja skilað miklu enda hafa vísindin gríðarleg áhrif á veruleika okkar allra. Ekki þarf annað en að horfa á farsímann og tölvuna til að skynja hvað þau megna en það nægir líka bara að líta á brauðristina og sjálfvirku þvottavélina. Ekkert af þessu hleypir þó neinni sérstakri spennu í leit Gavin Lucas að öllu því sem hann vill sýna okkur samtímamönnum – hann er nefnilega fornleifafræðingur.
Eftir sem áður vinnur Gavin daglega við að svala eigin forvitni; hann vill opna glugga inn í fortíðina og sýna okkur hinum það sem þar blasir við. „Vísindarannsóknir eru bara annað orð yfir menntun,“ segir Gavin og brosir þar sem hann stendur í miðjum moldarbing í borgarlandinu, nánar tiltekið í fornleifauppgreftri úti á Seltjarnarnesi þar sem áður stóðu fátækleg kot við sjávarsíðuna. „Án vísindarannsókna værum við týnd.“
Svo heldur Gavin áfram að pjakka með múrskeið að vopni í stutta stund og lítur svo aftur upp: „Svona almennt þá gefur fornleifafræðin okkur smá innsýn inn í líf fólks úr fortíðinni, sérstaklega þess sem er ekki nefnt í skriflegum heimildum,“ segir Gavin um vísindastarfið sitt.
„Varðandi þessa rannsókn sérstaklega þá er hún viðbót við vaxandi svið rannsókna á fornleifafræði 17. og 18. aldar á Íslandi. Hún hjálpar okkur að skilja lífsskilyrði og að hvaða marki heimili með ólíka þjóðfélagsstöðu höfðu aðgang að, eða voru háð, þeim aukna innflutningi á neysluvörum sem umbreytti evrópsku samfélagi á þessum tíma,“ segir Gavin.
„Nú þegar við gerum okkur grein fyrir viðkvæmri stöðu tengsla milli landa heimsins getur það hjálpað okkur að skilja hvernig slíkum tengslum var háttað í fortíðinni. Slík þekking er mikilvæg auðlind sem við ættum ekki að vanmeta í samtímanum.“
Nam og stundaði rannsóknir við Cambridge-háskóla
Eins og nafnið gefur vísbendingu um er Gavin ekki fæddur á Íslandi. Hann ólst upp í Englandi og fékk áhuga á fornleifafræði nánast á barnsaldri. Hann er með doktorsgráðu í greininni frá sjálfum Cambridge-háskóla sem er talinn sá sjötti besti í heimi og þar vann hann við rannsóknir allt þar til hann fluttist hingað árið 2002. Hann gerðist vísindamaður við Háskóla Íslands fjórum árum síðar og nú starfar hann sem prófessor í fornleifafræði við Sagnfræði- og heimspekideild skólans.
Gavin hefur unnið við fornleifarannsóknir víða um heim og lætur sér fátt um finnast þótt mold safnist undir neglur. Hann er enda á kafi í mold ef þannig má að orði komast alla hlýjustu mánuði ársins. Hann segir okkur að markmið verkefnisins á Nesinu sé að skoða lífskjör á fátæku heimili frá 17. og 18. öld, nánar tiltekið á bænum Móakoti sem stóð eiginlega þar sem nú er jaðarinn á nýju raðhúsi.
„Verkefnið hófst upphaflega sem æfingauppgröftur fyrir grunnnema í fornleifafræði,“ segir hann. „Við höfðum verið að kanna aðra staði á Seltjarnarnesi í vettvangsnáminu okkar, þar á meðal menjar af fyrri byggingum kringum Nesstofu og híbýli sjómanns frá fyrrihluta 20. aldar. Við fluttum vettvangsnámið í Árbæ árið 2018 en ég hélt áfram að vinna hér við Móakot frá 2018 til dagsins í dag ásamt litlu teymi.“
Gavin Lucas, prófessor í fornleifafræði, hér til hægri, hefur unnið ásamt litlu teymi við uppgröft við Móakot á Seltjarnarnesi. „Það hefur oft verið bent á að miklu meira hafi verið grafið á bæjarstæðum elítunnar á þessu tímabili en mun minna á þeim sem neðar voru í þjóðfélagsstiganum. Það þýðir einfaldlega að við þurfum fleiri rannsóknir á lífskjörum meirihluta íbúanna,“ segir Gavin um rannsóknirnar. MYND/Kristinn Ingvarsson
Hinir ríku og hinir fátæku
Eftir að hafa unnið við eitt ríkasta bæjarstæði landsins, Skálholt, lék Gavin forvitni á að vita hvernig hinn hluti landsmanna lifði. „Það hefur oft verið bent á að miklu meira hafi verið grafið á bæjarstæðum elítunnar á þessu tímabili en mun minna á þeim sem neðar voru í þjóðfélagsstiganum. Það þýðir einfaldlega að við þurfum fleiri rannsóknir á lífskjörum meirihluta íbúanna.“
Gavin segir að teymi sitt hafi lokið síðustu vettvangsvinnunni í sumar en enn eigi eftir að greina almenninlega allt sem hafi safnast á undanförnum árum. „Það er hins vegar ljóst að þótt heimilisfólkið hafi verið fátækt hér í Móakoti var það samt betur statt en á öðrum heimilum af svipuðum toga sem hafa verið grafin upp. Þetta getur verið vegna nálægðar við velstæðan landeiganda á Nesi. Þegar við rannsökum málefni eins og stöðu og fátækt þurfum við að taka tillit til þess að aðstæður eru breytilegar eftir staðsetningu.“
Hvað kom okkur hingað?
Gavin er afkastamikill vísindamaður sem hefur birt mikið um fornleifafræðikenningar auk fornleifafræði nýaldar, sérstaklega um framkvæmdir og aðferðir í fornleifafræði. Rannsóknaráhugi hans beinist mest að fornleifafræði nýaldar eða frá um 1500 til nútímans.
Gavin horfir líka á heiminn með augum heimspekingsins þegar hann er spurður um þá krafta sem drífa hann áfram. „Ég hef mestan áhuga á að skilja grunn nútímasamfélags okkar. Hvað kom okkur hingað? Hvers vegna er heimurinn eins og hann er? Til að svara þessum spurningum þarf, að mínu mati, gott sögulegt sjónarhorn en einnig þurfum við að gera okkur grein fyrir að samfélagið er órjúfanlega tengt hlutunum sem við búum til, notum og hendum. Við komumst ekki þangað sem við erum núna ein og óstudd; hlutir hafa alltaf fylgt okkur þessi síðustu tvö hundruð og fimmtíu þúsund ár og þannig mótað bæði okkur og samfélag okkar.“