Sjöfn Þórarinsdóttir, M.Ed. frá Menntavísindasviði
„Í gegnum tíðina hef ég unnið mikið með börnum og unglingum í tómstundastarfi og mín tilfinning hefur verið sú að ólíkir hópar sæki mismunandi tómstundastarf. Þegar kom að því að velja lokaverkefni vildi ég nota tækifærið til að kanna hvort það væri eitthvað til í þessu,“ segir Sjöfn Þórarinsdóttir sem lauk árið 2016 meistaraprófi í tómstunda- og félagsmálafræði.
Sjöfn Þórarinsdóttir
„Unglingar í hópíþróttum eru með betra sjálfsálit og sjálfsmynd og minni kvíða- og þunglyndiseinkenni en þeir sem sækja klúbbastarf í félagsmiðstöðvum og kristilegt æskulýðsstarf.“

Niðurstöður rannsóknar Sjafnar leiddu í ljós að það er augljós munur á unglingum eftir því hve margar tegundir og hvers konar tómstundastarf þeir stunda. „Unglingar sem sækja skipulagt tómstundastarf vikulega eða oftar eru að mörgu leyti betur settir en þeir sem ekki sækja slíkt starf. Unglingar í hópíþróttum eru með betra sjálfsálit og sjálfsmynd og minni kvíða- og þunglyndiseinkenni en þeir sem sækja klúbbastarf í félagsmiðstöðvum og kristilegt æskulýðsstarf. Ekki reynist munur á kynjunum í hópi þeirra unglinga sem leggja stund á eina eða tvær tegundir skipulagðs tómstundastarfs vikulega eða oftar. Strákar eru enn fremur líklegri en stelpur til að taka þátt í hópíþróttum og stunda þær oftar en stelpur eru í meirihluta í kristilegu æskulýðsstarfi,“ segir hún.
Sjöfn segir rannsóknina varpa nýju ljósi á tómstundastarf á Íslandi. „Þetta er gott innlegg í unga fræðigrein og gæti verið upphafið að frekari rannsóknum á gildi eða áhrifum skipulagðs tómstundastarfs á þátttakendur. Frekari rannsóknir þyrfti að sjálfsögðu til að skera úr um það hvort ólíkir hópar veljast í ákveðið tómstundastarf eða hvort mismunandi tómstundastarf hafi mismunandi áhrif á þá sem það sækja.“
Leiðbeinandi: Steingerður Ólafsdóttir, lektor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild.