Skip to main content

Foreldrar vandi sig eftir sambúðarslit

Jónína Rut Matthíasdóttir, MA frá Félagsráðgjafardeild

„Ég hef mikinn áhuga á stjúptengslum og mismunandi fjölskyldugerðum. Sjálf átti ég stjúpfjölskyldu frá því að ég var 11 ára. Það var oft ansi mikil áskorun og ég veit að það að dveljast í viku hjá hvoru foreldri í senn hefði ekki hentað mér,“ segir Jónína Rut Matthíasdóttir, sem nýverið rannsakaði jafna búsetu barna í stjúpfjölskyldum.

Tilgangur rannsóknarinnar, sem var liður í meistaranámi Jónínu í félagsráðgjöf til starfsréttinda, var að veita innsýn í upplifun uppkominna barna á jafnri búsetu í æsku, með sérstöku tilliti til upplifunar þeirra á að tilheyra tveimur heimilum og áhrifa stjúptengsla á fyrirkomulagið. „Kveikjan að rannsókninni var sú að ég heyrði af barni sem dvelur í viku og viku til skiptis hjá hvoru foreldri fyrir sig, en þau búa í mismunandi landshlutum. Mig langaði til að vita hvað gerði það að verkum að slíkt fyrirkomulag gæti gengið upp,“ segir Jónína.

„Þetta er fyrsta íslenska rannsóknin þar sem skoðuð er upplifun barna af jafnri búetu hjá foreldrum með sérstöku tilliti til stjúptengsla. Niðurstöðurnar sýna að börnum líður verr á heimilum foreldra ef illa gengur að mynda tengsl við stjúpfjölskyldu. Þetta ýtir undir mikilvægi þess að foreldrar vandi sig í samskiptum eftir skilnað og að nauðsynlegt sé að taka ákvarðanir um búsetu út frá hagsmunum barnsins.“

Jónína Rut Matthíasdóttir

Niðurstöður rannsóknar Jónínu sýna að forsendur jákvæðrar upplifunar af slíku búsetufyrirkomulagi eru m.a. nálægð heimila foreldra, gott samband við bæði móður og föður og síðast en ekki síst góð tengsl við stjúpfjölskyldu. „Slæm tengsl milli stjúpfjölskyldumeðlima leiða gjarnan til neikvæðari upplifunar af jafnri búsetu og því sýna niðurstöðurnar að gæði stjúptengsla hafa áhrif á upplifun barna af jafnri búsetu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að tilfinningin fyrir því að tilheyra heimilum beggja foreldra sé ein stærsta áskorun sem börn í stjúpfjölskyldum mæta í jafnri búsetu,“ segir Jónína.

„Þetta er fyrsta íslenska rannsóknin þar sem skoðuð er upplifun barna af jafnri búetu hjá foreldrum með sérstöku tilliti til stjúptengsla. Niðurstöðurnar sýna að börnum líður verr á heimilum foreldra ef illa gengur að mynda tengsl við stjúpfjölskyldu. Þetta ýtir undir mikilvægi þess að foreldrar vandi sig í samskiptum eftir skilnað og að nauðsynlegt sé að taka ákvarðanir um búsetu út frá hagsmunum barnsins,“ segir hún að lokum.

Leiðbeinandi: Valgerður Halldórsdóttir, aðjunkt við Félagsráðgjafardeild.