Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Hjúkrunarfræðideild
„Við byrjuðum að skoða foreldraálag í hópum, álagsþættirnir sem við erum með eru annars vegar neikvæðir lífsviðburðir sem geta komið fyrir í aðstæðum daglegs lífs og hins vegar langvinnir erfiðleikar í hlutverkum,“ segir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, um rannsóknina „Vanlíðan meðal íslenskra foreldra“ sem hann vinnur að ásamt Guðrúnu Kristjánsdóttur sem einnig er prófessor við sömu deild auk þess að vera forstöðukona fræðasviðs barnahjúkrunar við Landspítala – háskólasjúkrahús.
Hugmyndin að rannsókninni kviknaði í samstarfi þeirra en Guðrún vinnur mikið með foreldrum ungra barna í starfi sínu. Rúnar hefur lengi haft áhuga á álagi vegna hlutverka og hvernig fólk tekst á við það álag sem fylgir daglegu lífi og í rannsókninni skoða þau sálræna líðan foreldra. Unnið er með gögn frá árinu 2015 úr landskönnun sem Rúnar hefur framkvæmt allt frá árinu 1986. Hóparnir sem þau skoða eru ólíkir og eru meðal annars skilgreindir út frá aldri barna og aldri yngsta barns.
Rúnar Vilhjálmsson
„Það er sérstaklega mikilvægt að sinna geðheilbrigði foreldra því þetta eru ábyrgðar- og mótunaraðilar barnanna og gildið hlýtur að vera mikið í því að þekkja betur áhættuþættina þegar kemur að vanlíðan foreldra.“

„Við erum strax búin að sjá tvennt. Í fyrsta lagi að líðanin er almennt lakari hjá foreldrum sem eru með öll börnin heima og að líðanin er betri hjá foreldrum þar sem öll börnin eru farin af heimilinu.“ Þau Rúnar og Guðrún eru byrjuð að skýra muninn á hópunum en við þá vinnu líta þau til ýmissa skýringarþátta. Skoðaðir eru álagsþættir tengdir vinnu og fjármálum og inni á heimilinu. Einnig skoða þau félagslegan stuðning frá bæði fjölskyldu og vinum. Síðast en ekki síst er litið til sjálfsviðhorfa foreldranna.
„Það er sérstaklega mikilvægt að sinna geðheilbrigði foreldra því þetta eru ábyrgðar- og mótunaraðilar barnanna og gildið hlýtur að vera mikið í því að þekkja betur áhættuþættina þegar kemur að vanlíðan foreldra. Með því að hlúa betur að foreldrunum gerum við sjálfkrafa betur við börnin. Við áttum okkur betur á hvaða hópar foreldra glíma við mestu áskoranirnar þegar kemur að líðan þeirra sjálfra og við lærum að skilja betur hvers vegna það er.“