Martha Ásdís Hjálmarsdóttir, lektor við Læknadeild
Pneumókokkar nefnast bakteríur sem ekki er víst að margir hafi heyrt um en eru algengar, ekki síst meðal barna. Þær valda m.a. eyrnabólgum og alvarlegri sýkingum eins og lungnabólgu, blóðsýkingu og heilahimnubólgu. Byrjað var að bólusetja börn gegn tíu hjúpgerðum bakteríunnar árið 2011 en innan Háskóla Íslands er fylgst vel með ávinningi bólusetningarinnar í viðamikilli rannsókn.
Martha Ásdís Hjálmarsdóttir, lektor og stjórnandi námsbrautar í lífeindafræði, er einn þátttakenda í rannsókninni en hún lauk nýverið doktorsprófi í líf- og læknavísindum þar sem þessar skæðu bakteríur voru viðfangsefnið. „Tilgangur doktorsrannsóknarinnar var að greina útbreiðslu og eiginleika pneumókokka með minnkað næmi fyrir penisillíni, dreifingu hjúpgerða bakteríunnar eftir sýkingum og hve oft heilbrigð börn bæru samtímis fleiri en eina hjúpgerð í nefkoki,“ segir Martha.
Martha Ásdís Hjálmarsdóttir
„Tilgangur doktorsrannsóknarinnar var að greina útbreiðslu og eiginleika pneumókokka með minnkað næmi fyrir penisillíni, dreifingu hjúpgerða bakteríunnar eftir sýkingum og hve oft heilbrigð börn bæru samtímis fleiri en eina hjúpgerð í nefkoki.“
Hún bendir á að sýklalyfjaónæmi pneumókokka hafi lengi verið algengara hér en í nálægum löndum og því hafi verið þörf á rannsóknum til að skýra það. „Í ljósi þess að bólusetningar yrðu teknar upp var mikilvægt að kortleggja stöðuna eins og hún var áður en byrjað var að bólusetja og fylgjast svo með áhrifum hennar,“ segir Martha um tildrög rannsóknar sinnar. Hún hafi áður unnið að rannsóknum á pneumókokkum og í doktorsnámi hafi hana langað að fara lengra með þær.
Rannsókn Mörthu leiddi m.a. í ljós að fjölónæmur klón pneumókokkabakteríunnar af hjúpgerð 6B, sem hafði verið vandamál hér, hvarf á náttúrulegan hátt og annar af hjúpgerð 19F kom í kjölfarið og náði enn meiri útbreiðslu. „Eftir bólusetningar fækkaði honum hratt, fyrst í bólusettu börnunum og hann er horfinn þar. Vegna hjarðáhrifa hefur síðan dregið úr sýkingum af völdum klónsins hjá öðrum aldurshópum, sem eru óbólusettir, en þó ekki enn hjá þeim allra elstu,“ segir hún og undirstrikar að rannsóknin sýni hve mikil áhrif einstakir klónar geta haft.
Þá sýndu niðurstöður Mörthu enn fremur að algengt væri að börn bæru fleiri en eina hjúpgerð bakteríunnar í nefkoki en að sögn Mörthu skýrir það m.a. úrval ónæmra stofna og möguleika á erfðabreytingum hjá bakteríunni. „Rannsóknin jók líka skilning á meinvirkniþáttum bakteríunnar, það er þeim eiginleikum sem gera henni kleift að valda sjúkdómi, og hún undirstrikar einnig ávinning samfélagsins af bólusetningum,“ segir Martha að endingu.
Leiðbeinandi: Karl G. Kristinsson, prófessor við Læknadeild.