Skip to main content

Bætt öryggi barna í innkaupakerrum

Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, dósent við Sálfræðideild

Um 100 börn slasast árlega af völdum falls úr innkaupakerrum verslana. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, dósent í atferlisgreiningu og atferlismeðferð, hefur um árabil rannsakað atferli foreldra með tilliti til öryggis barna í innkaupakerrum, þ.e. hvort hægt sé að breyta atferli foreldra með einföldu inngripi sem fælist í því að setja áberandi skilti á innkaupakerrur.

Upphaflega var rannsóknin unnin sem verkefni í námskeiðinu Aðferðir í hagnýtri atferlisgreiningu sem Gabríela kennir. Árni Þór Eiríksson var einn þeirra nemenda sem kom að henni. Hann ákvað svo í framhaldinu að vinna þetta verkefni til BS-ritgerðar í sálfræði og seinna meir varð rannsóknin að MS -ritgerð.

Í BS-verkefni Árna Þórs var fylgst með atferli foreldra í fjórum verslunum á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til þess hvort þau settu börn í vöruhluta innkaupakerra. Í framhaldinu voru sett skilti í innkaupakerrurnar þar sem varað var við þeirri hættu að setja börn í þennan hluta kerrunnar og fylgst með því hvort hegðun foreldra breyttist. Skiltin voru svo fjarlægð og hegðun foreldra mæld áfram. Langtímaáhrifin af inngripinu voru svo athuguð í MS -verkefni Árna en þá kom í ljós að fólk varð ekki ónæmt fyrir merkingunum, þ.e. afar sjaldgæft var að foreldrar settu börn í kerrurnar.

„Þetta eru öryggismál og atferlisgreining hefur sýnt gildi sitt á því sviði. Mín sérgrein er atferlisgreining sem er undirgrein sálfræðinnar. Þar er verið að rannsaka nám, hvernig nám á sér stað, hvaða breytur skipta máli og hvernig hegðun lærist,“ segir Gabríela.
 

„Þetta eru öryggismál og atferlisgreining hefur sýnt gildi sitt á því sviði. Mín sérgrein er atferlisgreining sem er undirgrein sálfræðinnar. Þar er verið að rannsaka nám, hvernig nám á sér stað, hvaða breytur skipta máli og hvernig hegðun lærist.“

Zuilma Gabríela Sigurðardóttir

Að hennar sögn leiddi MS -rannsókn Árna líka í ljós að svo virðist sem tengsl séu milli þess hvort fólk versli í lágvöruverðsverslunum og hvort það setji börnin í vöruhluta innkaupakerrunnar. Ástæðan geti verið sú að almennt dvelji fólk lengur í slíkum verslunum.

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa vakið athygli, bæði hér heima og erlendis. Rannsóknin er einstök að því leyti að aldrei áður hefur verið gerð rannsókn þar sem inngripi er beitt til að leiðrétta þessa hegðun. „Í atferlisgreiningu erum við að leysa vandamál með þekkingunni sem við höfum úr grunnrannsóknum og nýtum fræðin í þessari rannsókn til að koma í veg fyrir hegðun sem setur börn í hættu,“ segir Gabríela að lokum.