Með því að skima yfir 75 þúsund Íslendinga með blóðprufu og gera beinmergsástungu á yfir 1600 manns hafa vísindamenn við Háskóla Íslands í fyrsta skipti lýst algengi mallandi mergæxlis sem er forstig mergæxlis. Sagt er frá niðurstöðunum í Nature Medicine sem er eitt virtasta vísindatímarit heims.
Mergæxli er krabbamein í beinmerg sem getur meðal annars valdið blóðleysi, nýrnaskaða og eyðingu á beinum. Þessi tegund krabbameins og fyrirboðar þess hafa verið í brennidepli í hinni viðamiklu rannsókn Blóðskimun til bjargar sem staðið hefur yfir undanfarin ár á vegum vísindamanna við Háskóla Íslands og Landspítala en þeir hafa aflað hundruð milljóna króna í rannsóknastyrki til þessarar mikilvægu rannsóknar.
Hluti af afrakstri þessa vísindastarfs birtist á dögunum í Nature Medicine en þar kom fram að niðurstöður rannsóknarinnar bendi til þess að mallandi mergæxli sé til staðar í 0,5% einstaklinga yfir 40 ára. Þá er forstigið algengara hjá körlum en konum og eykst með aldri. Niðurstöðurnar sýna enn fremur að að flestir sem greinast með forstig mergæxlis séu í hlutfallslega lítilli hættu á að það þróist yfir í illkynja krabbamein. Rannsóknin er einstök þar sem aldrei hafa áður verið skimaðir svona margir einstaklingar fyrir þessu einkennalausa forstigi og er þetta því í fyrsta skipti sem hægt er að áætla hversu algengt það er.
Höfundar vísindagreinarinnar eru meðal annarra læknarnir Sigrún Þorsteinsdóttir og Sigurður Yngvi Kristinsson ásamt stórum hópi fólks sem að mestum hluta starfar við Háskóla Íslands og Landspítala. Sigrún og Sigurður segja niðurstöðurnar mikilvægar þar sem tvær lyfjarannsóknir hafa bent til þess að það að hefja meðferð við mergæxli áður en það veldur einkennum og líffæraskaða geti verið gagnlegt fyrir sjúklinga. Niðurstöður Blóðskimunar til bjargar benda til þess að með skimun megi bera kennsl á þessa einstaklinga. Mikilvægt er þó að rannsaka frekar hverjir eru í mestri hættu á að þróa með sér líffæraskaða sem tengist mergæxli til að hægt sé að bjóða réttum einstaklingum lyfjameðferð og stýra eftirliti rétt hjá þeim sem eru í minni hættu.
„Blóðskimun til bjargar er einstök rannsókn á heimsvísu. Í þessu felst mikil viðurkenning og það sýnir líka hversu megnug lítil en samstillt þjóð getur verið því rannsóknin væri ekkert án ótrúlegrar þátttöku og einstaks vilja Íslendinga til að leggja vísindunum lið og það er sannarlega þakkarvert,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands, sem er einn höfunda greinarinnar ásamt Sigrún Þorsteinsdóttur lækni.
„Alþjóðlegir sérfræðingar í mergæxli hafa verið mjög hrifnir af rannsókninni og sérstaklega hinu háa þátttökuhlutfalli sem þykir einstakt og veitir því mun áreiðanlegri niðurstöður um forstig mergæxlis en fyrri rannsóknir hafa gert,“ segir Sigrún Þorsteinsdóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands og læknir á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn sem er fyrsti höfundur greinarinnar. Hún kynnti fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar á 15.000 manna ráðstefnu í Atlanta í Bandaríkjunum í desember 2021.
„Blóðskimun til bjargar er einstök rannsókn á heimsvísu. Í þessu felst mikil viðurkenning og það sýnir líka hversu megnug lítil en samstillt þjóð getur verið því rannsóknin væri ekkert án ótrúlegrar þátttöku og einstaks vilja Íslendinga til að leggja vísindunum lið og það er sannarlega þakkarvert,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur við Landspítala sem er í forystu þverfræðilegs hóps sem vinnur að rannsókninni.
Nánar um Blóðskimun til bjargar
Rannsóknin Blóðskimun til bjargar hófst árið 2016 en þá var öllum einstaklingum á Íslandi sem fæddir eru 1975 eða fyrr boðið að taka þátt í henni með því að fara í blóðprufu. Íslendingar tóku rannsókninni með eindæmum vel og yfir 80 þúsund manns skráðu sig í rannsóknina og ríflega 75 þúsund hafa gefið blóðprufu. Markmið aðstandenda rannsóknarinnar er að rannsaka áhrif skimunar, að kanna orsakir og afleiðingar mergæxlis og að auka lífsgæði og lífslíkur þeirra sem greinast með sjúkdóminn. Einstaklingum með mallandi mergæxli sem greinst hafa við skimunina hefur verið boðin þátttaka í lyfjarannsókn með það að markmiði að koma í veg fyrir framþróun sjúkdómsins yfir í mergæxli. Auk þess er fylgst með þátttakendum sem greinast með forstig mergæxlis með árlegu eftirliti.