Meistaravörn í lyfjafræði - Selma Jónsdóttir
Askja
stofa 132
Fimmtudaginn 16. maí ver Selma Jónsdóttir MS verkefni sitt í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Staða fyrirbyggjandi sýklalyfjagjafa hjá sjúklingum sem fóru í valaðgerð á ristli á Landspítala 2008-2018: Eru fyrirbyggjandi sýklalyfjagjafir á Landspítala í samræmi við klínískar leiðbeiningar?
Prófdómarar eru Elín Í Jacobsen, klínískur lyfjafræðingur og dr. Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild.
Leiðbeinendur Selmu voru Agnar Bjarnason, smitsjúkdómalæknir á Landspítala, Ingibjörg Gunnþórsdóttir, lyfjafræðingur á Landspítala og Páll Helgi Möller, yfirlæknir kviðarhols- og brjóstaskurðlækninga á Landspítala og prófessor við Læknadeild. . Umsjónarkennari verkefnisins var Pétur S. Gunnarsson, lektor við Lyfjafræðideild.
Ágrip af rannsókn
Tilgangur klínískra leiðbeininga um varnandi sýklalyfjagjöf fyrir skurðaðgerðir er meðal annars að draga úr rangri notkun sýklalyfja. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða fylgni við leiðbeiningar um varnandi sýklalyfjagjöf fyrir valaðgerðir vegna illkynja æxlis í ristli á Landspítala. Sýkingatíðni í kjölfar aðgerða var einnig skoðuð út frá fylgni við leiðbeiningar. Alls voru 619 sjúklingar í úrtakinu og fengu 81% þeirra varnandi sýklalyf á aðgerðardegi. Lyfjaval, skammtur og tímasetning varnandi sýklalyfjagjafar var rétt í 22% tilfella yfir allt tímabilið. Þrátt fyrir að framför hafi orðið á rannsóknartímabilinu varð fylgni við leiðbeiningar fyrir skurðaðgerðir á ristli mest um 40%. Sýkingatíðni í kjölfar aðgerða var 22%, en þær niðurstöður voru ekki tölfræðilega marktækar.
Um nemandann
Selma fæddist í Reykjavík árið 1994 og ólst upp í Vestmannaeyjum. Foreldrar hennar eru Sigurhanna Friðþórsdóttir og Jón Atli Gunnarsson. Selma lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum veturinn 2013 og hóf nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands haustið 2014. Hún hefur unnið í apóteki samhliða námi síðan haustið 2012, nú síðast hjá Lyfju þar sem hún mun vinna í sumar.
Fimmtudaginn 16. maí ver Selma Jónsdóttir MS verkefni sitt í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Staða fyrirbyggjandi sýklalyfjagjafa hjá sjúklingum sem fóru í valaðgerð á ristli á Landspítala 2008-2018: Eru fyrirbyggjandi sýklalyfjagjafir á Landspítala í samræmi við klínískar leiðbeiningar?