Kennsludagar 2025

Kennsluakademía opinberu háskólanna í samstarfi við Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri halda Kennsludaga vikuna 17.-21. mars næstkomandi. Markmiðið er að efla samtal um mikilvægi kennslu og kennsluþróunar á háskólastigi. Þema vikunnar er sjálfbærni og kennsluauður háskóla.
Fjölbreyttir viðburðir verða í boði á borð við vinnustofur, fyrirlestra, kennsluheimsóknir og samstarf við Stúdentaráð.
Nánar um viðburði:
Mánudagurinn 17. mars
Pallborð rektorsefna
Litla-Torg kl. 14:00-15:15
Kennsluakademían býður til pallborðs um kennsluauð háskólans með frambjóðendum til rektors Háskóla Íslands. Á ensku.
Að huga að eigin kennsluþróun í akademísku starfi
Setberg - hús kennslunnar. Suðurberg, 3ja hæð kl. 15:00-16:30
Viðburðurinn er í Setbergi og þeir sem ætla að mæta á stað eru beðnir um að skrá sig. Einnig verður hægt að fylgjast með á Teams. Vinnustofa í umsjón Kennsluþróunarstjóra og Kennslumiðstöðvar HÍ
Ertu að velta fyrir þér þínu hlutverki sem háskólakennari? Langar þig til að skoða hvernig hægt er að þróast í starfi? Þarftu að geta gert grein fyrir viðhorfum þínum og framlagi í kennslu vegna framgangs eða umsókna í sjóði eða akademíur?
Í þessari gagnvirku vinnustofu munu þátttakendur kljást við spurningar eins og þessar:
- Hvernig sé ég hlutverk mitt sem háskólakennari?
- Hvaða augum lít ég á mína kennslu?
- Hvernig get ég stuðlað að eigin kennsluþróun?
- Hvaða bjargir bjóðast mér í minni starfsþróun?
Fimmtudagurinn 20. mars
Komdu og lærðu kennsluaðferð
Setberg - hús kennslunnar. Suðurberg, 3ja hæð kl. 12:00-13:00
Kennslumiðstöð Háskóla Íslands býður kennurum til hádegisviðburðarins „Komdu og lærðu kennsluaðferð“. Við ætlum að nota saman hádegið til að prófa nokkrar kennsluaðferðir á eigin skinni. Að þessu sinni eru það aðferðir sem leiða til samvinnu nemenda. Heitt á könnunni en takið með ykkur nesti. Umsjón: Guðrún Geirsdóttir, fagstjóri Kennslumiðstöðvar.
Föstudagurinn 21. mars
Hvers vegna er ég að kenna?
Stapi-húsnæði v/Hringbraut. Stofa 210 kl. 10:00-11:00
Ásta Bryndís Schram dósent og kennsluþróunarstjóri Heilbrigðisvísindasviðs kynnir niðurstöður rannsóknar sinnar um áhugahvöt kennara. Hún varpar ljósi á það sem knýr kennara til kennslu, hvað eflir þeirra sjálfsmynd og hvað býr til samsömun með kennarastéttinni. Viðburðurinn er í Stapa 210 og þeir sem ætla að mæta á stað eru beðnir um að skrá sig. Einnig verður hægt að fylgjast með á Teams.
Skrif raundæma
Oddi - stofa 106 kl. 10:30-11:15.
Reynsla kennara af skrifum raundæma – Háskólaútgáfan og útgáfa raundæma.
Niðurstöður verkefnis styrkt af Kennslumálasjóði er kynnt. Þröstur Olaf Sigurjónsson prófessor í Viðskiptafræðideild og Jordan Mitchell leiðbeinandi og atvinnumaður í skrifum raundæma (e.case writer) kynna árangur af því verkefni þegar kennarar tókust á við fyrstu skrif raundæma. Þá munu kennararnir sjálfir halda stuttar framsögur um sína reynslu. Viðburðurinn hefst á léttum veitingum kl. 10.30 og lýkur kl. 11.20.
Kennsluheimsóknir - Þvert á vikuna:
Kíktu í kennslustund!
Viðburður alla vikuna - skráning á viðburði hjá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.
Það getur verið býsna fróðlegt að líta inn í kennslu til samstarfskennara og fá nýjar hugmyndir um kennsluhætti. Á Kennsludögum gefst kennurum kostur á að fara í heimsókn í tíma til samkennara sinna og í kjölfarið taka þátt í samtali um kennslu og kennsluþróun.
Háskólinn á Akureyri býður einnig upp á kennsluheimsóknir alla vikuna en skólinn hefur kappkostað að vera leiðandi er kemur að sveigjanlegu námi og hefur fjárfest í fjarkennsluvélmenni eða „róbót“. Hér gefst afar spennandi og áhugavert tækifæri til að kíkja í kennslustofu hjá þeim í gegnum fjarkennsluvélmennið (róbótinn).
Skoða yfirlit yfir kennsluheimsóknir í boði hjá Háskóla Íslands og skrá sig í heimsókn. Þeir sem eru utan Háskóla Íslands þurfa að skoða yfirlit yfir heimsóknir á: kennsluakademía.hi.is og skrá sig í gegnum netfang akademíunnar: kennsluakademia@hi.is
Skoða yfirlit yfir kennsluheimsóknir í boði hjá Háskólanum á Akureyri og skrá sig í heimsókn.
Kennsluakademía opinberu háskólanna stendur fyrir Kennsludögum vikuna 17.-21. mars í samstarfi við Kennslumiðstöð Háskóla Íslands.
