Frá hugljómun til hagnýtingar
Aðalbygging
Hátíðasalur
Frumkvöðlarnir Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, doktor í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands, og Einar Stefánsson, prófessor í augnlæknisfræði við Háskóla Íslands munu beina sjónum að mikilvægi nýsköpunar í erindi sínu í röðinni um Hagnýtingu hugvitsins. Þau hafa bæði stofnað sprotafyrirtæki og þekkja afar vel ferðalagið frá hugljómun til verðmætrar afurðar. Þau munu m.a. varpa ljósi á þetta ferðalag í erindum sínum í hádeginu 22. nóvember í Hátíðasal Háskóla Íslands. Viðburðurinn er milli kl. 12 og 13 og allir velkomnir.
Beint streymi frá fyrirlestrinum.
Nýsköpun er undirstaða framfara og hún treystir samkeppnisstöðu okkar til langframa. Í nýju fundaröðinni, sem ber heitið „Nýsköpun - hagnýtum hugvitið“, er ætlunin að undirstrika mikilvægi nýsköpunar sem er undirstaða framfara og treystir samkeppnisstöðu Íslendinga til langframa. Í röðinni verður fjallað um ferðalag hugmynda yfir í fullmótuð fyrirtæki eða afurðir og hvernig íslenskt samfélag og stjórnvöld geta betur stutt við nýsköpunarstarf. Auk þess verður sjónum beint að tengslum fjárfesta, frumkvöðla, atvinnulífs og háskóla. Frekari upplýsingar er að finna á síðunni um fundaröðina.
Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch – einn efnilegasti frumkvöðull landsins
Rannsóknir vísindamanna veita ekki aðeins nýja sýn á samfélag, umhverfi okkar og okkur sjálf í krafti nýrrar þekkingar heldur geta þær einnig orðið sprotar að nýjum og spennandi fyrirtækjum. Það á sannarlega við um rannsókn Söndru Mjallar Jónsdóttur-Buch sem brautskráðist með doktorspróf frá Háskóla Íslands haustið 2017.
Doktorsrannsóknin og starfsemi fyrirtækisins Platome líftækni, sem Sandra stofnaði ásamt leiðbeinanda sínum, Ólafi Eysteini Sigurjónssyni, prófessor og stjórnanda stofnfrumurannsókna hjá Blóðbankanum, snýst um að nýta blóðflögur, sem áður var hent. Flögurnar eru settar í næringarlausnir sem nota má til að rækta frumur úr mannslíkamanum á rannsóknarstofum.
Sandra Mjöll er einn allra efnilegasti frumkvöðull landsins en hún hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir nýsköpun og vann ekki fyrir alls löngu aðalverðlaun Evrópudeildar GWIIN-samtakanna, sem veita viðurkenningu til kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.
Sandra Mjöll er lífeindafræðingur og hefur starfað sem aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands og sem framkvæmdastjóri Platome líftækni. Sprotafyrirtækið Platome líftækni byggir á hartnær áratugs grunnrannsóknum og hlaut hugmyndin þriðja sæti Hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands árið 2014. Markmið fyrirtækisins er að þróa og framleiða hágæða líftæknivörur fyrir frumuræktanir og vefjaverkfræði. Vörurnar byggja á því að nota útrunnar blóðflögur frá blóðbönkum til að útbúa ræktunaræti sem er ríkt af mennskum vaxtarþáttum. Fyrirtækið var valið sprotafyrirtæki ársins 2017 af Viðskiptablaðinu og hefur hlotið styrk frá Tækniþróunarsjóði.
Einar Stefánsson - Afkastamikill frumkvöðull
Einar Stefánsson, prófessor við Háskóla Íslands, og yfirlæknir á augndeild Landspítalans er í hópi afkastamestu frumkvöðla Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa margsinnis orðið kveikja að nýsköpun og sprotafyrirtækjum.
Á meðal uppgötvana Einars má nefna leið sem hann fann ásamt Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði, en þeir uppgötvuð aðferð til að meðhöndla sjúkdóma með augndropum í stað sprautu. Aðferð þeirra hefur vakið heimsathygli en þeir uppgötvuðu örsmáar agnir sem búa yfir mögnuðum eiginleikum. Þeir nota nanóefni, sem eru þúsundfalt minni en breidd á einu hári, til að flytja eða ferja augnlyf á áfangastað.
Einar hefur einnig unnið með Jón Atli Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði. Eitt afsprengi samvinnu þeirra tveggja, nemenda þeirra og nokkurra annarra er fyrirtækið Oxymap ehf. Með tilurð Oxymap varð sérþekking á fjarkönnun partur af mikilvægri þróun á lækningatæki sem Oxymap ehf. selur nú um víða veröld til súrefnismælinga í augnbotnum án inngrips. Fjarkönnun felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar, þ. á m. jarð- og gróðurfræðilegar. Í tilviki Oxymap beinist leitin hins vegar að því agnarsmáa og það er túlkað með aðferðum læknavísindanna.
Margverðlaunaður fyrir afrek á sviði rannsókna
Einar Stefánsson hefur ítrekað verið verðlaunaður fyrir störf sín í þágu vísinda. Hann var t.d. valinn heiðursvísindamaður Landspítala fyrir fáeinum árum og haustið 2014 tók hann við sérstökum heiðursverðlaunum Danska augnlæknafélagsins fyrir afar mikilvægt framlag til rannsókna í augnlæknisfræði á alþjóðavettvangi. Hann hlaut heiðursverðlaun Ásu Guðmundsdóttir Wright fyrir árið 2008 en sama ár hlaut hann svokölluð Jules Gonin verðlaun. Þau eru ein merkustu verðlaun sem veitt eru í heiminum á sviði augnlæknisfræði. Hann hefur einnig hlotið gullmedalíu norrænna augnlækna.
Einar hefur drjúgan part starfsævinnar unnið að rannsóknum á blindu vegna gláku og sykursýkiskemmda og er mjög kunnur á alþjóðavettvangi fyrir þau störf sín. Hann er meðhöfundur að meira en 130 ritgerðum í virtum ritrýndum vísindatímaritum og höfundur um 400 ritverka og úrdrátta um augnlækningafræði.
Frumkvöðlarnir Einar Stefánsson og Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch hafa bæði stofnað sprotafyrirtæki og þekkja afar vel ferðalagið frá hugljómun til verðmætrar afurðar. Þau munu m.a. varpa ljósi á þetta ferðalag í erindum sínum í hádeginu 22. nóvember í Hátíðasal Háskóla Íslands.