Skip to main content

Doktorsvörn Soffíu Margrétar Hrafnkelsdóttur

Doktorsvörn Soffíu Margrétar Hrafnkelsdóttur  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
19. ágúst 2020 14:00 til 17:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Soffía Margrét Hrafnkelsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda,

Háskóla Íslands: 

Heilsuhegðun ungra Íslendinga

Tengsl skjátíma og hreyfingar við andlega líðan og svefnmynstur

Vörnin fer fram miðvikudaginn 19. ágúst  kl. 14.00 í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Hægt verður að fylgjast með vörninni í beinni útsendingu á þessari slóð

https://livestream.com/hi/soffiamargret

Andmælendur eru dr. Natalie Pearson, dósent við Loughborough University, Englandi, og dr. Annalijn Conklin, dósent við University of British Columbia, Kanada.

Leiðbeinandi var dr.  Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor við Háskóla Íslands, og meðleiðbeinandi dr. Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands. Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Robert J. Brychta rannsóknarsérfræðingur við National Institute of Health, Washington DC, Bandaríkjunum.

Dr.  Ársæll Már Arnarsson, forseti Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda , stjórnar athöfninni.                                                                                            

Bakgrunnur

Á unglingsárum vex tíðni andlegrar vanlíðanar, líkamsóánægju og svefntruflana, sem geta haft alvarlegar afleiðingar og fylgt unglingum inn í fullorðinsárin. Því er afar mikilvægt að skoða áhrifaþætti þessarar þróunar, með forvarnir í huga. Hreyfing og skjátími eru meðal þeirra mótanlegu hegðunarþátta sem taldir eru hafa áhrif á andlega líðan, líkamsímynd og svefn.

Markmið

Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að skoða tengsl skjátíma og hreyfingar við andlega líðan, líkamsímynd og svefnmynstur meðal íslenskra unglinga.

Aðferðir

Gögnum var safnað vorið 2015 meðal 315 grunnskólanema (15 ára), með spurningalistum, hröðunarmælum og mælingum á líkamssamsetningu, og fengust fullgild gögn fyrir tæplega 250 þátttakendur. Í framhaldsrannsókn 2017 fengust fullgild gögn fyrir 152 þátttakendur (17 ára). Aðhvarfsgreining var notuð til að meta tengsl skjánotkunar og hreyfingar við andlega líðan og svefn við 15 ára aldur og tengsl skjánotkunar og líkamsímyndar við 15 og 17 ára aldur.

Niðurstöður

Minni skjátími og tíðari áköf hreyfing, hvort í sínu lagi en þó sérstaklega ef hvorttveggja fór saman, tengdust minni líkum á að greina frá einkennum um þunglyndi, kvíða, lítið sjálfsálit og óánægju með lífið. Skjátími drengja, sérstaklega leikjaspilun, tengdist meiri breytileika í lengd, tímasetningu og gæðum svefns. Hreyfing þátttakenda tengdist minni breytileika í lengd, tímasetningu og gæðum svefns. Tengsl fundust milli skjátíma og verri líkamsímyndar hjá stúlkum, bæði í þversniði og langsniði.

Samantekt

Í heild virðist það hafa góð áhrif á andlega líðan, líkamsímynd og svefnmynstur unglinga að takmarka skjátíma og ástunda hreyfingu. Kynjamunur í niðurstöðum aðhvarfsgreiningar bendir til þess að skjánotkun geti haft mismunandi áhrif á heilsutengda þætti hjá drengjum og stúlkum.

Doktorsvörn Soffíu Margrétar Hrafnkelsdóttur frá Menntavísindasviði

Doktorsvörn Soffíu Margrétar Hrafnkelsdóttur - Menntavísindasvið