Skip to main content

Doktorsvörn í umhverfisfræði - Elizabeth Anne Unger

Doktorsvörn í umhverfisfræði - Elizabeth Anne Unger - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
11. júní 2018 13:30 til 15:30
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Allir velkomnir

Doktorsefni: Elizabeth Anne Unger

Heiti ritgerðar: Endurnýjanlegir og hefðbundnir orkugjafar, milliríkjavíxlverkanir og raforkuverð á Nord Pool markaðnum (e.Renewable and Conventional Energy Sources, Cross-Border Interactions, and Electricity Prices within the Nord Pool Market)

Andmælendur: Dr. Ronald B. Davies, prófessor í hagfræði við University College Dublin og dr. Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands. 

Leiðbeinandi:  Dr. Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor og deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands. 

Einnig í doktorsnefnd:  Dr. Sigurður M. Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.
Dr. Þórólfur G. Matthíasson, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Rajesh Rupakhety, prófessor og varadeildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands. 

Ágrip

Lisbon samningurinn veitir sérhverju aðildarríki Evrópusambandsins rétt til að ákveða hvaða orkuauðlindir eru notað til að framleiða raforku. Frá 1996 við gildistöku ákvörðunar 96/92/EC hafa verið tekin skref til þess að mynda sam-evrópskan raforkumarkað, þó svo aðildarríkin hafi haft fullan sjálfsákvörðunarrétt gagnvart stjórnun eigin raforkumarkaðar. Raforkumarkaðir margra aðildarlandanna hafa verið samþættir í þeim tilgangi að verðmyndun verði einsleitari. Sú rannsókn sem hér er kynnt hafði tvö megin markmið. Fyrra markmiðið var að framkvæma langtíma rannsókn sem kannaði áhrif breytinga á framboði rafmagnsframleiðslu tiltekinna Norðurlanda með tilliti til uppruna raforkunnar á næsta-dags raforkuverð í nágrannalöndum á Nord Pool raforkumarkaðnum. Seinna markmiðið var að meta áhrif af millilanda orkuviðskiptum og raforkuframleiðslu með vindorku á mun raforkuverðs á milli vestur Danmerkur og viðskiptasvæða þess svæðis á Norræna markaðinum Nord Pool.

Niðurstöður fyrri greiningarinnar sýndu að breytingar á uppruna raforku höfðu margvísleg áhrif á raforkuverð þjóðanna, meðal annars þannig að ársmeðaltöl raforkuverðs breyttust meira þegar rafmagnsframleiðsla með kjarnorku drógst saman en þegar slík framleiðsla jókst. Niðurstöður seinni greiningarinnar sýndu að áætluð millilandaviðskipti með raforku gátu haft mikil áhrif á verðmun milli landa og að áhrifin voru breytileg eftir löndum. Þessi rannsókn sýnir að einhliða ákvarðanir einstakra landa geta í samtvinnuðum markaði haft áhrif á raforkuverð annarra landa á sama markaði en að áhrifin eru mismunandi. Til að draga úr neikvæðum þáttum slíkra áhrifa er ráðlagt að samræma betur raforkustefnur á milli landa. 

Um doktorsefnið

Elizabeth Anne Unger hlaut B.S. gráðu í fyrirtækjastjórnun og hagfræði frá University of North Carolina í Wilmington, með láði árið 2002; hún lauk M.S. gráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Elizabeth er markaðs- og sölustjóri hjá EOM Offshore LLC. í Bandaríkjunum. EOM Offshore er fyrirtæki sem spannst út úr Woods Hole hafrannsóknarstofnuninni og framleiðir sérhæfðan landfesta- og akkerisbúnað og tengd kerfi.

Elizabeth býr í Massachusetts með eiginmanni sínum Arnari Steingrímssyni og börnum þeirra, Freyju og Óðni.

Elizabeth Anne Unger

Doktorsvörn í umhverfisfræði - Elizabeth Anne Unger