Skip to main content

Doktorsvörn í tölvunarfræði - Ana Borovac

Doktorsvörn í tölvunarfræði - Ana Borovac - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
10. janúar 2024 11:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Ana Borovac

Heiti ritgerðar: Reiknirit fyrir greiningu á flogum í nýburum – með klíníska hagnýtingu að leiðarljósi

Andmælendur: Dr. Alison O'Shea, lektor við Tækniháskólann í Munster í Írlandi og Dr. Maarten De Vos, prófessor við KU Leuven í Belgíu.

Leiðbeinandi: Dr. Steinn Guðmundsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands

Doktorsnefnd: 
Dr. Steinn Guðmundsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands
Dr. Tómas Philip Rúnarsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands
Dr. Sampsa Vanhatalo, prófessor við Háskólann í Helsinki í Finnlandi.

Stjórnandi varnar: Rúnar Unnþórsson, prófessor og deildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar Háskóla Íslands.

Ágrip

Flog eru tiltölulega algeng meðal nýbura. Mikilvægt er að greina þau snemma því ómeðhöndluð flog geta leitt til varanlegs heilaskaða. Nákvæm greining á flogum byggir á lestri heilarita en það krefst sérfræðiþekkingar. Slík þekking er ekki alltaf til staðar og í þeim tilfellum geta sjálfvirkar greiningaraðferðir komið að góðum notum. Rannsóknir á sjálfvirkum aðferðum til að greina flog spanna rúma þrjá áratugi en á síðustu árum hafa komið fram aðferðir með greiningarnákvæmni sem stendur sérfræðingum ekki langt að baki. Í þessu verkefni var unnið með greiningaraðferð sem byggir á djúpum tauganetum, hún skoðuð ítarlega og síðan endurbætt. Til að hægt sé að þróa aðferðir sem byggja á tauganetum þarf talsvert magn af gögnum sem búið er að greina en í tilfelli nýburafloga eru gögn almennt af skornum skammti. Í verkefninu var skoðað hvernig mætti nýta lítil gagnasöfn sem best. Í ljós kom að mikilvægt er að styðjast við greiningar sem fleiri en einn sérfræðingur sammælast um. Vegna persónuverndarlaga er ekki einfalt að safna gögnum frá mörgum sjúkrastofnunum á einn stað til að mynda eitt stórt gagnasafn. Því var þróuð aðferð sem gerir stofnunum kleift að þjálfa tauganet á eigin gögnum og sameina svo líkönin þannig að persónuupplýsingar séu ekki í hættu. Nákvæmni greiningaraðferðinnar var skoðuð með hliðsjón af því að flest heilarit innihalda tiltölulega fáar rásir. Í ljós kom að ásættanleg nákvæmni fæst í þessum tilvikum. Æskilegt er að sjálfvirkar aðferðir gefi notendum til kynna þegar óvissa er í greiningu og því var unnið að því að bæta kvörðun aðferðarinnar. Að lokum var gerð könnun meðal hjúkrunarfólks á nýburugjörgæslu á notkun á vöktunarbúnaði fyrir flog en þessi búnaður er í almennri noktun á mörgum sjúkrahúsum. Niðurstöður sýndu að þrátt fyrir margar falskar viðvaranir, sé kerfið almennt gagnlegt, að því gefnu að allar viðvaranir séu skoðaðar sérstaklega.

Um doktorsefnið

Ana Borovac fæddist í Kranj í Slóveníu árið 1994. Hún lauk BS gráðu í stærðfræði frá Háskólanum í Ljubljana í Slóveníu árið 2017 og meistaragráðu í tölvunarfræði og stærðfræði frá sama skóla árið 2019 en hluti meistaranámsins fór fram við Háskólann í Utrecht í Hollandi. Árið 2019 flutti hún til Íslands og hóf doktorsnám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands.

Ana Borovac

Doktorsvörn í tölvunarfræði - Ana Borovac