Doktorsvörn í þróunarfræðum - Þóra Björnsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 19. maí ver Þóra Björnsdóttir doktorsritgerð sína í þróunarfræðum við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Réttur til að flytja? Flutningur barna frá Norður- til Suður-Ghana (The right to migrate? North-South migration of children in Ghana).
Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin.
Leiðbeinandi verkefnisins er dr. Jónína Einarsdóttir prófessor í mannfræði við HÍ. Í doktorsnefnd sátu dr. Unnur Dís Skaptadóttir prófessor í mannfræði við HÍ og dr. Tatek Abebe prófessor í barnafræðum við Norwegian University of Science and Technology.
Andmælendur eru dr. Yaw Ofusu-Kusi prófessor við University of Energy and Natural Resources í Sunyani, Ghana og dr. Dorte Thorsen research fellow við Institute of Development Studies í Brighton.
Vörninni stýrir dr. Ólafur Rastrick, prófessor og deildarforseti við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.
Um doktorsefnið
Þóra Björnsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1986. Þóra lauk BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og MA prófi í þróunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2011. Hún hefur starfað með börnum og ungu fólki í fjölda ára og starfar í dag sem verkefnastjóri frjálsra félagasamtaka þar sem hún, meðal annars, mótar og sinnir forvarnarfræðslu á ofbeldi gegn börnum.
Ágrip
Doktorsrannsóknin varpar ljósi á líf barna sem flytja að heiman á eigin vegum fyrir átján ára aldur í Ghana og flutningsferli þeirra með áherslu á réttindi barnanna. Rannsóknin skoðar hvernig hefðbundin réttindi hagnast þessum börnum og hvernig þau móta sín eigin réttindi, svo-kölluð lífsréttindi, þegar heðbundnu réttindin eru ekki fullnægjandi. Áhersla er lögð á sjónarhorn þátttakenda með raddir þeirra og atbeini í forgrunni.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þátttakendur völdu að flytja til þess að tryggja eigin framfærslu og leita framtíðarmöguleika sem þeir töldu sig ekki geta fengið ef þeir hefðu búið áfram í heimabænum. Ákvörðunin var flókin og hrint í framkvæmd sem svar við atburði eða aðstæðum sem mátti rekja til erfiðrar fjölskyldusögu og aðstæðna. Flutningurinn var erfiðara en þátttakendur bjuggust við en engu að síður töldu þeir að hann hafi bætt líf þeirra. Þátttakendur voru ekki meðvitaðir um hefðbundin réttindi sín en vissu hvað væri rétt og rangt. Þeir vissu að börn ættu ekki að búa við erfiðar aðstæður og töldu stjórnvöld hafa mistekist að aðstoða ungt fólk í landinu. Þátttakendur voru sammála um að börn sem búa við erfiðar aðstæður eigi rétt á því að flytja ein síns liðs til að bæta lífskjör sín og aðstæður.
Rannsóknin kallar á umbætur í lífi barna sem flytja að heiman með því að hlusta á raddir þeirra, styrkja hefðbundin réttindi og sýna lífsréttindum skilning.
Föstudaginn 19. maí ver Þóra Björnsdóttir doktorsritgerð sína í þróunarfræðum við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.