Skip to main content

Doktorsvörn í sálfræði - Guðlaug Marion Mitchison

Doktorsvörn í sálfræði - Guðlaug Marion Mitchison  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
23. október 2024 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Miðvikudaginn 23. október 2024 ver Guðlaug Marion Mitchison doktorsritgerð sína í sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Frávik í tilfinningastjórnun og þróun einkenna mótþróaþrjóskuröskunar meðal barna á skólaaldri: Langtímarannsókn. Emotion dysregulation and the Development of Symptoms of Oppositional Defiant Disorder in School-aged Children: A Longitudinal Study.

Andmælendur eru dr. Lars Wichstrøm, prófessor við Norges teknisk-naturvitenskapelige universitet (NTNU)  í Þrándheimi, og dr. Peter Prinzie, prófessor við Ghent University í Belgíu.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Urður Njarðvík, prófessor. Auk hennar sátu í doktorsnefnd dr. Dagmar Hannesdóttir, lektor, dr. Juliette Margo Liber, lektor við University of Amsterdam, og dr. Freyr Halldórsson, lektor við Háskólann í Reykjavík. 

Ragnar Pétur Ólafsson, prófessor og deildarforseti Sálfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Ágrip

Aðalmarkmið þessarar ritgerðar var að meta hvort og hvernig frávik í tilfinningastjórnun stuðla að þróun einkenna mótþróaþrjóskuröskunar. Þátttakendur voru foreldrar og kennarar 547 barna á aldrinum 5-8 ára. Samkvæmt niðurstöðum voru stúlkur almennt með betri tilfinningastjórnun en drengir. Drengir voru með almennt meira óstöðuglyndi og neikvæðni og með marktækt fleiri einkenni mótþróaþrjóskuröskunar og meiri almennan hegðunarvanda en stúlkur. Misræmi milli upplýsingagjafa var einnig skoðað. Samræmi á milli foreldra og kennara var áberandi lágt, nema hvað varðar óstöðuglyndi og neikvæðni (L/N). Þegar skoðað var samræmi á meðal kennara á mismunandi skólastigum var misræmi milli upplýsingagjafa minna áberandi en milli foreldra og kennara. Einnig var keyrð röð af líkönum, sem tengdu á hverjum tímapunkti tilfinningastjórnun og óstöðuglyndi/neikvæðni við einkenni mótþróaþrjóskuröskunar. Niðurstöðurnar sýndu að fylgni var á milli tilfinningastjórnunar (ER) og óstöðuglyndis/neikvæðni (L/N) á hverjum tímapunkti við einkenni mótþróaþrjóskuröskunar á sama tímapunkti. Þegar litið var á forspárgildi frávika tilfinningastjórnunar á tíma 1 á einkenni mótþróaþrjóskuröskunar á tíma 2 og 3 voru einfaldari líkön keyrð. Samkvæmt svörum foreldra sýndi líkanið marktækt samband fyrir bæði tilfinningastjórnun (ER) og óstöðuglyndi/neikvæðni (L/N) á tíma 1 við einkenni mótþróaþrjóskuröskunar á bæði tíma 2 og 3. Fyrir kennaragögnin var aðeins óstöðuglyndi/neikvæðni (L/N) á tíma 1 forspá um einkenni mótþróaþrjóskuröskunar á tímum 2 og 3.

Abstract

The overall aim of this thesis was to better understand how emotion dysregulation contributes to the development of ODD symptoms. Participants were parents and teachers of 547 children aged 5-8 years. According to the findings, girls had better emotion regulation than boys. The boys had higher lability/negativity and more behavior problems/ODD symptoms than girls. Informant discrepancies were also examined. Agreement between parents and teachers was only fair for lability/negativity at both time points. For other symptoms (emotion regulation and both ODD dimensions), agreement was markedly poor. When examining agreement among teachers across different school levels, discrepancies between informants were less evident compared to those between parents and teachers. Finally, a series of path models were constructed, linking at each time point emotion regulation and lability/negativity with ODD symptoms. The results showed that emotion regulation and lability/negativity at each time point were consistently related to ODD symptoms at the same point in time. To test if emotion regulation and lability/negativity at time 1 can possibly predict ODD symptoms at times 2 and 3, in a more direct manner, simpler path models were created. For the parent data, the model showed a significant predictive relationship for both emotion regulation and lability/negativity at time 1 with ODD symptoms at both times 2 and 3. For the teacher data, only lability/negativity at time 1 was significantly predictive of ODD symptoms at times 2 and 3.

Um doktorsefnið

Guðlaug Marion Mitchison er fædd árið 1983 í Reykjavík. Hún útskrifaðist af félagsfræðibraut Menntaskólans í Kópavogi árið 2003. Guðlaug lauk B.Sc. prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og M.Sc. gráðu frá sama skóla árið 2012. Guðlaug lauk einnig M.Sc. gráðu í geðheilbrigði barna og unglinga (Child and Adolescent Mental Health) frá King´s College London árið 2013. Í framhaldi af því hlaut hún leyfi frá embætti landlæknis að starfa sem sálfræðingur. Haustið 2014 hóf Guðlaug vinnu við doktorsrannsókn sína. Rannsóknarverkefnið hlaut styrk úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands og Guðlaug hlaut einnig aðstoðarkennarastyrk. Samhliða doktorsnámi hefur Guðlaug sinnt kennslu í grunn- og framhaldsnámi í sálfræði við Háskóla Íslands, ásamt því að sinna fullu starfi, fyrst hjá Geðheilsumiðstöð barna (þá Þroska- og hegðunarstöð) og svo hjá Menntasviði Kópavogsbæjar. Foreldrar Guðlaugar eru Ingunn Erlingsdóttir og Alan Mitchison (d. 2008). Guðlaug býr í Breiðholti með kisunni sinni Dimmu.

Guðlaug Marion Mitchison ver doktorsritgerð sína í sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands miðvikudaginn 23. október

Doktorsvörn í sálfræði - Guðlaug Marion Mitchison