Doktorsvörn í menntavísindum: Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir

Aðalbygging
Hátíðarsalur HÍ
Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum með sérhæfingu í gagnrýnum fræðum við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands.
Vörnin fer fram fimmtudaginn 10. apríl kl. 10.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig í streymi.
Heiti ritgerðar: Feður sem beitt hafa ofbeldi: Hindranir og möguleikar til breytinga
Enskt heiti ritgerðar: Fathers who have been violent: Obstacles and opportunities for change
Andmælendur: Dr. Rachelle Chadwick dósent við University of Bristol, Bretlandi og dr.Dr Stephen Burrell lektor við University of Melbourne, Ástralíu.
Aðalleiðbeinandi: dr. Jón Ingvar Kjaran prófessor við
Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Guðrún Kristinsdóttir prófessor emerita við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Kalle Berggren dósent við
Stokkhólmsháskóla og dr. Nicky Stanley, prófessor við University of Central Lancashire.
Dr. Ólafur Páll Jónsson, forseti Deildar menntunar og
margbreytileika stjórnar athöfninni.
Verið öll velkomin!
Um verkefnið:
Þessi rannsókn fjallar um feður sem beitt hafa ofbeldi í nánum samböndum og breytingarferli þeirra. Karlar sem beita maka sína ofbeldi eru oft feður og þrátt fyrir orðspor Íslands sem leiðandi á sviði jafnréttismála þá þrífst vandinn einnig þar. Þó svo að rannsóknir á ofbeldi feðra og meðferðarúrræðum fyrir gerendur hafi í auknum mæli beinst að því að skilja breytingarferli þá hefur verið lítið samtal við femínískar hrif kenningar um breytingar.
Tvö gagnasöfn voru notuð til að rannsaka feður sem beitt hafa ofbeldi í nánu sambandi. Eigindleg viðtöl við átta feður sem beitt hafa ofbeldi og 250 greinar úr íslenskum fjölmiðlum. Markmið verkefnisins var að skoða bæði ríkjandi orðræður um feður og ofbeldi og reynslu feðra af því að beita ofbeldi, af hlutverki sínu sem feður og af breytingarferli frá ofbeldishegðun.
Niðurstöður leiddu í ljós hvernig fjölmiðlar bregðast við óþægilegri umræðu um feður sem beitt hafa ofbeldi með því að einblína á einstaklinga og hvernig þeir eru ólíkir góðum og virkum feðrum. Þannig horfa fjölmiðlar fram hjá samfélagsformgerðum sem eiga þátt í að skapa ofbeldi í nánum samböndum. Auk þess varpa niðurstöðurnar ljósi á hvernig feðurnir takast á við óþægindi í frásögnum sínum af ofbeldi, föðurhlutverkinu og breytingum. Niðurstöðurnar sýna að feður geta hunsað óþægindin með því að skipta um umræðuefni, grípa í grín, reiðast, og í einhverjum tilvikum reiða sig á tilfinningavinnu kvenna í lífi þeirra. Auk þess nálguðust þeir föðurhlutverkið sem verkefni sem ætti að framkvæma í takt við viðtekin viðhorf án þess þó að þeir hlustuðu endilega eftir sjónarmiði barna sinna. Hins vegar gátu feðurnir einnig brugðist við óþægindum með því að fara í gagnrýna sjálfsrýni, taka ábyrgð, leita sér aðstoðar, og eiga óþægileg samtöl við börnin sín um það ofbeldi sem þeir beittu.
Þannig nálgast verkið samfélagslegt samhengi ofbeldis í nánum samböndum sem og sjónarmið feðranna og tilfinningalegar flækjur þeirra gagnvart hegðun sinni, með því að tengja saman rannsóknir um föðurhlutverkið við femínískar rannsóknir um karlmennsku og ofbeldi.
Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem nefnist Sjónarhorn karla til ofbeldis í garð kvenna í nánum samböndum: Feðrun, karlmennska og sjálfsverumótun. Rannsóknin var styrkt af Rannsóknasjóði Íslands (196082-051), Jafnréttissjóði (190156-5501), og doktorsstyrkjasjóð Háskóla Íslands (1472304).
Um doktorsefnið:
Rannveig Ágústa Guðjónsdótir (f. 1991) lauk BA-prófi í uppeldis -og menntunarfræði með kynjafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands 2014, MA-prófi í kynjafræði árið 2016 frá sama skóla en með árs skiptináms dvöl við Stokkhólms háskóla. Rannveig starfaði sem sjálfstætt starfandi rannsakandi á árunum 2016 til 2017 og framkvæmdi rannsóknir um kynferðiseinelti í íslenskri skólamenningu (styrkt af styrktarsjóði Margaretar and Bents Scheving Thorsteinssonar við Háskóla Íslands) og upplifun karla meðal lögreglumanna á vinnumenningu lögreglunnar (styrkt af Ríkislögreglustjóra og Nýsköpunarsjóði námsmanna). Rannveig var gestadoktor fyrstu tvö ár doktorsnámsins í Stokkhólmsháskóla og hefur síðan hún flutti aftur til Íslands gegnt stöðu aðjúnkts og sinnt rannsóknum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
.
