Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Jakob Frímann Þorsteinsson

Doktorsvörn í menntavísindum: Jakob Frímann Þorsteinsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
23. apríl 2024 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur, Aðalbygging Háskóla Íslands.

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Jakob Frímann Þorsteinsson ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands. 

Vörnin fer fram þriðjudaginn 23. apríl kl. 13 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Doktorsvörninni verður einnig streymt.

Heiti ritgerðar: Möguleikar útimenntunar á Íslandi: Hvernig náttúran stuðlar að staðartengdri reynslu, ígrundun og vináttu

Andmælendur: Dr. Karen Seierøe Barfod prófessor við VIA University College, Danmörku og dr. Chris Loynes, prófessor emeritus við Cumbria Háskóla í Bretlandi.

Aðalleiðbeinandi: Dr. Jón Torfi Jónasson prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Meðleiðbeinandi: Dr. Gunnar Þór Jóhannesson prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Doktorsnefnd: Dr. Elizabeth Marie Christie prófessor við
Háskólann í Edinborg, Skotlandi. 

Stjórnandi athafnar: Berglind Rós Magnúsdóttir, forseti Deildar menntunar og margbreytileika.

Verið öll velkomin.

Viðburðurinn verður sýndur í streymi

Um verkefnið:

Rannsóknin miðar að því að kanna ólíka þætti útivistar á Íslandi og draga fram þá lykilþætti sem gera hana að útimenntun og setja þá í samhengi við útiveru barna. Færð eru rök fyrir því að sú umgjörð sem náttúran skapar og samneyti við hana sé í forgrunni, en vinátta og félagsleg tengsl, upplifun og reynsla, staður og ígrundun geri útivist að mikilvægri útimenntun sem eigi heima í litrófi góðrar almennrar menntunar. Doktorsverkefnið í heild varpar ljósi á breitt svið útimenntunar, t.d. í frístundastarfi, ferðaþjónustu og skólum. Þrjár spurningum eru lagðar fram sem fjalla um hvað einkennir orðræðu um útimenntun á Íslandi, hvernig möguleika felur reynslumiðuð útimenntun í náttúrunni á Íslandi í sér til að virkja staði, ígrundun og vináttu og hvernig útivera og ferðahegðun barna er undir áhrifum frá félagslegum og heilsufarslegum þáttum. Gildi rannsóknarinnar fyrir útimenntun og menntun almennt er að kanna þá möguleika sem felast í útimenntun í samhengi við útivist barna og upplifun af náttúru. Mikilvægið felst í því að vekja máls á stöðu útimenntunar í skólum, frístundastarfi og ferðaþjónustu og gildi þess að styrkja stöðu hennar svo að fólk, sérstaklega börn, geti notið möguleika reynslubundinnar útimenntunar í náttúrunni.
Fjallað er um rannsóknina í fimm fræðigreinum. Grein 1 opnar rannsóknarverkefnið með fræðilegri umfjöllun um „staðarkennd“ og tengdar áskoranir. Í grein 2 er kafað nánar í umræðuna um hagnýtan grunn og samhengi kennslufræði staðar og skilning á staðarkennd. Í 3. grein gefst tækifæri til að setja náttúruna og ófyrirsjáanleika hennar í menntunarlegt samhengi og skoða hvernig hægt er að nota ígrundaða starfshætti til að læra af reynslunni. Grein 4 fjallar um hve miklum tíma börn verja úti, gildi þess og hvaða félags- og efnahagslegu þættir hafa áhrif á útivist og útivera barna. Grein 5 þjónar sem brú frá menntun til ferðamála með því að varpa ljósi á þátttöku unglinga í ferðamennsku m.t.t. félagslegra og efnahagslegra þátta og til að ræða í samhengi við ferðahegðun innanlands, félagslega ferðamennsku og menntun. Í rannsókninni er skoðuð upplifun nærri þéttbýli með sjó og strendur sem umhverfi, og einnig fjær með fjöll og hálendi sem umhverfi. Þessar ólíku upplifanir bjóða upp á mismunandi menntunarlega virknikosti.
Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru að möguleikar eða virknikostir útimenntunar byggja á þremur meginþáttum: (1) orðræðunni um útimenntun og innan hennar (tengist m.a. því orðfæri sem fagfólk skilur og hefur yfir að ráða), (2) hvernig skapaður er farvegur fyrir útimenntun, sem nær til fólks (félagslegt umhverfi), og aðferðanna sem er beitt á borð við upplifunar- og ígrundandi aðferðir (menntunarlegt umhverfi), sem og þeirra staða og svæða sem er vettvangur starfsins (náttúrulegt eða manngert umhverfi), og (3) afstöðu til gildi þess, sérstaklega fyrir börn, að verja tíma utandyra og taka þátt í útivist. Þegar við áttum okkar á og viðurkennum þessa áhrifaþætti útimenntunar eru möguleikar hennar ríkulegir og hlutverk hennar í nútímamenntun stórt.
Lagðar eru fram í lokakafla tillögur um stefnu og mögulegar aðgerðir sem eru grundaðar á rannsókninni og reynslu höfundar. Þær endurspegla það sjónarmið, sem var hvatinn að baki rannsókninni, að hafa áhrif á fagvettvang útimenntunar með það að leiðarljósi að skapa fleiri og ríkulegri tækifæri fyrir börn að vera úti.

Lykilorð:
Náttúra – Staður – Tómstundir – Upplifun – Útimenntun

Um doktorsefnið

Jakob Frímann Þorsteinsson fæddist 1969 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund (1993), B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands (1993), Rekstrar- og viðskiptanámi frá Endurmenntunarstofnun HÍ (2000) og MA í náms og kennslufræði frá Menntavísindasviði HÍ (2011). Jakob hefur starfað víða að menntun í einhverri mynd m.a. í félagsmiðstöðvum og við skólastarf hjá Reykjavíkurborg, við atvinnuþróun, ferðaþjónustu og háskólakennslu í Skagafirði og hjá menntunar- og þjálfunarfyrirtækinu KVAN. Jakob hefur starfað við Háskóla Íslands síðan 2004 og sinnt þróunarstarfi, rannsóknum og kennslu á sviði útináms, útivistar, tómstundafræða, reynslunáms og viðburðastjórnunar.
Foreldrar Jakobs eru Ásgerður Bjarnadóttir og Þorsteinn M. Jakobsson og hann á þrjú systkin, Unni, Bjarna og Harald. Jakob er giftur Vöndu Sigurgeirsdóttur og saman eiga þau börnin Muna, Dísu og Gunnar.

.

Doktorsvörn í menntavísindum: Jakob Frímann Þorsteinsson