Doktorsvörn í menntavísindum - Anna Björk Sverrisdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur HÍ
Titill: Menntun nemenda með þroskahömlun á framhaldsskólastigi í ljósi kenninga um inngildandi menntun og félagslegt réttlæti
Streymi: https://livestream.com/hi/annabjorksverrisdottir
Leiðbeinendur: Aðalleiðbeinandi dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Geert Van Hove prófessor við Háskólann í Ghent í Belgíu.
Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Hermína Gunnþórsdóttir prófessor við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands.
Andmælendur: dr. Snæfríður Þóra Egilson prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og dr. Srikala Naraian dósent við Columbia háskólann í Bandaríkjunum.
Doktorsverkefnið fjallar um menntun nemenda með þroskahömlun á framhaldsskólastigi í ljósi kenninga um inngildandi menntun og félagslegt réttlæti. Í ritgerðinni er sjónum beint að starfsbrautum fyrir fatlaða nemendur innan framhaldsskóla. Tilgangurinn var að kanna áskoranir, mótsagnir og tækifæri í tengslum við menntun fatlaðra nemenda í íslenskum framhaldsskólum með hliðsjón af fræðum um inngildandi menntun og félagslegt réttlæti. Gagna var aflað með tvennum hætti, annars vegar var unnið út frá opinberum skjölum sem tengjast námi nemenda á framhaldsskólastigi og hins voru tekin viðtöl við nemendur, foreldra, yfirmenn starfsbrauta og skólameistara. Opinber gögn voru greind með hliðsjón af sögulegri orðræðugreiningu en viðtöl voru lesin með hliðsjón af kenningum Foucault um orðræðu, vald, valdatengsl og viðnám. Einnig voru kenningar Deleuze og Guattari um flóttaleiðir og „að verða“ notaðar sem og kenning Young um fimm andlit kúgunar og félagslegt réttlæti.
Niðurstöður gefa til kynna að uppbygging íslenska framhaldsskólakerfisins, þegar kemur að menntun nemenda með þroskahömlun, eigi meira sameiginlegt með hugmyndafræði um blöndun en inngildandi menntun. Enn fremur skapar og viðheldur kerfið, eins og það er byggt upp, ójöfnuði og félagslegu óréttlæti sem hefur ekki aðeins áhrif á fatlaða nemendur, heldur stærri hóp nemenda. Orðræða í opinberum skjölum bendir til þess að kerfið grundvallist á hæfisma og yfirleitt er litið á fatlaða nemendur sem öðruvísi og getuminni. Þetta birtist einnig í því hvernig skólakerfið bregst við nemendum með því að merkja þá með læknisfræðilegri greiningu og greina þá frá öðrum á grundvelli stuðningsþarfar hvers og eins. Frásagnir nemenda varpa ljósi á ólíkar leiðir þeirra til að reyna að losna undan oki stimpilsins sem fylgir læknisfræðilegu greiningunni og festir nemendur í sessi sem staðlaða „sérdeildanemendur“. Niðurstöðurnar staðfesta enn fremur fyrri niðurstöður um mikilvægi þess að skilgreina þurfi betur stefnuna um inngildandi menntun. Að auki þarf að skilgreina stuðning, hvað í honum felst og hvernig megi útfæra hann þannig að stutt sé við nemendur með inngildandi hætti líkt og lögð er áhersla á í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Um doktorsefni
Anna Björk Sverrisdóttir er þroskaþjálfi að mennt. Hún lauk bakkalárgráðu í þroskaþjálfun frá Kennaraháskóla Íslands árið 2003 og meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 2010 frá Háskóla Íslands. Anna Björk hefur starfað víða sem þroskaþjálfi. Eftir útskrift starfaði hún lengst af í leikskóla sem sérkennslustjóri. Um tíma, á meðan á doktorsnámi stóð, starfaði hún einnig sem forstöðuþroskaþjálfi í búsetu og síðar sem ráðgjafarþroskaþjálfi í félagsþjónustu. Árið 2012 hlaut hún 3ja ára styrk úr afmælissjóði Háskóla Íslands til að sinna doktorsnámi við skólann. Í doktorsnáminu fékk Anna Björk jafnframt aðild að rannsóknarhópi um starfshætti í framhaldsskólum sem aftur er hluti af norræna öndvegissetrinu JustEd. Hún tók þátt í rannsókn á áhrifum COVID-19 faraldursins á skóla- og frístundastarf sem unnin var í samráði við m.a. mennta- og menningarmálaráðuneytið og Menntamálastofnun. Anna Björk hefur sinnt stundakennslu við Háskólann síðan 2011 og árið 2019 var hún ráðin aðjunkt í þroskaþjálfafræði við Deild menntunar og margbreytileika. Anna Björk er gift Hilmari Bjarnasyni, layout hönnuði hjá Marel, og eiga þau 3 börn: Sindra Má, Katrínu Unni og Konráð.
Anna Björk Sverrisdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum 15. desember 2021.