Doktorsvörn í matvælafræði - Guðrún Svana Hilmarsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Þriðjudaginn 31. maí ver Guðrún Svana Hilmarsdóttir doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Megináhrifaþættir gæða og umhverfisáhrifa við framleiðslu fiskmjöls og lýsis úr uppsjávarfiski. Identification of quality and environmental hotspots during pelagic fishmeal and fish oil production.
Andmælendur eru Dr. Åge Oterhals, prófessor við Nofima háskólann í Noregi, og dr. Massimo Pizzol, prófessor við Álaborgarháskóla, í Danmörku.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. María Guðjónsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild. Auk hennar sátu í doktorsnefnd Ólafur Ögmundarson lektor og Sigurjón Arason, prófessor emeritus.
Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent og varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.
Vörninni verður streymt: https://livestream.com/hi/doktorsvorngudrunsvanahilmarsdottir
Ágrip
Í dag eru uppsjávartegundir, hliðarstraumar frá vinnslustærri fisktegundum og annar meðafli uppistaðan í því hráefni sem unnið er í fiskmjöl og lýsi. Fiskmjöl og lýsi eru helst notuð sem fóður í fiskeldi, en þar sem verð á fiskmjöli hefur lækkað síðasta áratuginn og hlutur þess hefur minnkað í fiskeldisfóðri þarf að finna nýjar leiðir til að nýta hráefnið á hagkvæman hátt. Þessi rannsókn varpar ljósi á núverandi ástand hráefnisins og þeirra gæðabreytinga sem eiga sér stað í hverju vinnsluþrepi í fiskmjöls- og lýsisframleiðslunni (Grein I-II), ásamt því að meta áhrif breytilegs hitastigs í sjóðara á gæði (Grein I), kannað er hvernig framleiðsluferlið höndlar mismunandi hráefni (Grein II), rannsakaðir eru eiginleikar hliðarstrauma m.t.t. próteingæða (Grein III), könnuð umhverfisáhrif á framleiðslu fiskmjöls og lýsis úr loðnu með mismunandi orkugjöfum (Grein IV) og kannað hvort hægt sé að nota nærinnrauða litrófsgreiningu (NIR) til gæðamælinga og ferlastýringar í fiskmjöls- og lýsisframleiðslunni (Grein V). Greinarnar leggja grunninn að bættum fiskmjöls- og lýsisferlum og auka þekkingu á vinnsluferlunum sem mun nýtast við þróun þeirra næstu árin.
English abstract
Today, small pelagic species, side-streams from the production of larger fishes intended for human consumption, and other by-catch are currently processed into fishmeal and fish oil. Fishmeal and fish oil are presently mainly used as feed, primarily for aquaculture, but fishmeal prices have declined over the last decade. Great effort towards improving handling on board the fishing vessels has resulted in higher quality of the catch reaching the harbor. Meanwhile, the fishmeal and fish oil production processes have remained similar since the 1960s. Hence, this thesis aims to shed light on the current state of the raw material and the quality changes occurring during each operational step of the production (Paper I-II), to assess the effect of cooking temperature on the fishmeal quality (Paper I), investigates how the production process handles different raw materials (Paper II), investigates promising protein rich side-streams for the production of higher value products (Paper III), investigates the environmental impacts of producing 1 tonne of fishmeal and fish oil (Paper IV), and investigates if Near infrared spectroscopy (NIR) can be used as a monitoring tool during the fishmeal and fish oil production. The papers, I-V, also lay a foundation for redesigning purposes of the currently operated fishmeal and fish oil factories.
Um doktorsefnið
Guðrún Svana Hilmarsdóttir er fædd árið 1990 á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri, auk burtfararprófs á selló frá Tónlistarskóla Akureyrar árið 2010, og er þekkt fyrir að slá á létta strengi enn í dag. Árið 2013 lauk Guðrún B.Sc. prófi í lífefnafræði við Háskóla Íslands og fór í kjölfarið utan. Árið 2016 kláraði hún alþjóðlegt M.Sc. nám í framleiðslu sjávarafurða, með áherslu á gæði og öryggi, frá Tækniháskólunum í Noregi og Danmörku (NTNU og DTU). Guðrún hefur meðfram doktorsnáminu sinnt bæði leiðbeiningu M.Sc. nemenda, sem og stundakennslu við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Foreldrar Guðrúnar eru Kristín Pétursdóttir og Hilmar Karlsson, maki hennar er Hjalti Hannesson og dóttir þeirra er Emma Kristín Hjaltadóttir.
Guðrún Svana Hilmarsdóttir ver doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands þriðjudaginn 31. maí.