Skip to main content

Doktorsvörn í lyfjafræði - Helga Helgadóttir

Doktorsvörn í lyfjafræði - Helga Helgadóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
23. október 2020 11:00 til 14:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 23. október ver Helga Helgadóttir doktorsritgerð sína í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Fyrirbyggjandi meðferð með aspiríni til að koma í veg fyrir meðgöngueitrun. Rannsóknir á verkunarmáta og þróun aðferða til notkunar í klínískum prófunum. Prophylactic use of aspirin to prevent the development of preeclampsia. Studies of mechanism of action and method development for clinical trials.

Vörninni verður streymt: https://livestream.com/hi/doktorsvorhelgahelgadottir

Andmælendur eru dr. Sandra Thomas Davidge, prófessor við University of Alberta, Kanada, og dr. Alexander Smárason, prófessor við Háskólann á Akureyri.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi var dr. Maurizio Mandalà, prófessor við University of Calabria, Ítalíu. Aðrir í doktorsnefnd voru Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild, Guðmundur Þorgeirsson, prófessor emeritus við Læknadeild, og Hildur Harðardóttir, dósent við Læknadeild.

Elín Soffía, prófessor og forseti Lyfjafræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 11.00.

Fjöldatakmörkun: Einungis 30 manns geta verið í salnum á meðan doktorsvörninni stendur.

Ágrip af rannsókn

Aspirín er notað sem fyrirbyggjandi meðferð gegn hjarta- og æðasjúkdómum en nýlega hefur það einnig verið notað til að koma í veg fyrir meðgöngueitrun (ME). Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir er verkunarmáti aspiríns í ME óþekktur. Markmið verkefnisins var tvíþætt, annars vegar að kanna hvort hægt væri að útskýra verkunarmáta aspiríns og þá hvernig það getur verndað konur gegn ME. Hins vegar var markmiðið að þróa aðferðir sem nýta á fyrir klínísk próf með aspiríni. Stöðugleiki þromboxan B2 í blóðsýnum var kannaður fyrir frekari klínískar rannsóknir, en aspirín hefur áhrif á það í blóði. Þá var einnig kannaður sá möguleiki að setja upp aðferð til að magngreina aspirín og aðalumbrotsefni þess, salisýlsýru, í munnvatni með svokallaðri Raman-litrófsgreiningu.

Bein æðaútvíkkun af völdum aspiríns var prófuð á einangraðar mesenteric slagæðar og á legslagæðar úr þunguðum og óþunguðum rottum. Niðurstöður sýndu að aspirín hefur öflug æðaútvíkkandi áhrif og að verkunarmátinn er háður æðaþekjunni (e. endothelium). Bein æðavíkkandi áhrif aspiríns voru einnig könnuð í barnshafandi konum. Niðurstöður sýndu aukningu á púlsstuðli (e. pulsatility index) og viðnámsstuðli (e. resistive index) í aspirínhópnum, 60 mínútum eftir inntöku á aspiríni, en ekki í samanburðarhópnum.

Stöðugleiki þromboxans í blóðsýnum var kannaður í tveimur tegundum sýnaglasa, natríum sítrat og EDTA glösum, og sýndu niðurstöður að geymsluaðstæður og val á blóðsýnaglösum er mikilvægt fyrir mælingar á virkni aspiríns á þromboxani í blóðsýnum, og þromboxan almennt.

Að lokum þá lofa niðurstöður Raman-litrófsgreiningar góðu fyrir áframhaldandi rannsóknir á þessu sviði, en hægt var að greina aspirín og salisýlsýru með Raman-litrófsgreiningaraðferð.

Abstract

Aspirin is used as a prophylactic agent to prevent the development of cardiovascular diseases as well as gestational hypertensive disorders such as preeclampsia (PE). Despite extensive research, the pathophysiology of PE remains elusive and the mechanism of action for aspirin is not fully understood in PE. The aim of this project was to investigate the mechanism of action for aspirin on the vessels by studying the association between vasodilation caused by aspirin in rat’s arteries and then evaluating its effects in pregnant women. The results showed that aspirin is a potent vasodilator, and the mechanism of action is endothelium dependent. Additional aims were to develop methods for future clinical trials with aspirin in two separate studies. First, the stability of thromboxane in blood samples after blood withdrawal was investigated in sodium citrate and EDTA vials. Results showed that storage time before freezing is an important factor that need to be controlled when thromboxane need to be analyzed in blood samples. Secondly, a method to quantify aspirin and its metabolite, salicylic acid, in saliva using Raman spectroscopy is a promising method for aspirin and salicylic acid and this technique may be utilized in detecting these substances in saliva in future clinical studies with aspirin.

Um doktorsefnið

Helga Helgadóttir er fædd á Akranesi þann 10. desember 1986. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskóla Vesturlands árið 2008, BS-prófi í lyfjafræði frá lyfjafræðideild 2011 og MS-prófi í lyfjafræði frá lyfjafræðideild árið 2013. Frá 2013 hefur hún lagt stund á doktorsnám sitt við Háskóla Íslands ásamt því að starfa við undirbúning á stóru evrópsku klínísku prófi á meðgöngueitrun, og við þróun lyfjaforma og framkvæmd klínískra prófana á bakteríudrepandi lípíðum hjá sprotafyrirtækinu Capretto ehf. Faðir Helgu var Helgi Georgsson og móðir hennar er Anna Margrét Sveinsdóttir. Helga er gift Árna Þorkels Árnasyni. Helga á þrjú börn, Daníel Helga 14 ára, Árna Þór 3 ára og Hrafnhildi Önnu 1 árs.

Helga Helgadóttir ver doktorsritgerð sína í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands föstudaginn 23. október 2020.

Doktorsvörn í lyfjafræði - Helga Helgadóttir