Skip to main content

Doktorsvörn í ljósmóðurfræði - Valgerður Lísa Sigurðardóttir

Doktorsvörn í ljósmóðurfræði - Valgerður Lísa Sigurðardóttir  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
5. júní 2020 14:00 til 17:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 5. júní ver Valgerður Lísa Sigurðardóttir doktorsritgerð sína í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Vörninni verður streymt hér.

Ritgerðin ber heitið: Neikvæð upplifun fæðingar og ljósmóðurmeðferð: Framtíðarsýn barneignarþjónustu. Negative birth experience and midwifery counselling intervention: A vision for maternity care.

Andmælendur eru dr. Mirjam Lukasse, prófessor við Oslo Metropolitan University, Deild hjúkrunar og heilsueflingar, Ósló, og dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Ágrip af rannsókn

Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að þróa ljósmóðurmeðferð fyrir konur sem hafa þörf fyrir að fara yfir upplifun fæðingar. Í fyrsta hluta voru markmiðin að lýsa fæðingarupplifun kvenna fyrstu tvö árin eftir fæðingu og skoða áhrif stuðnings á upplifun fæðingar. Markmið annars hluta var að skoða væntingar og reynslu kvenna af að fara yfir upplifun fæðingar með ljósmóður í Ljáðu mér eyra (LME) þjónustu á Landspítala. Markmið þriðja hluta var að lýsa uppbyggingu og forprófa meðferð sem fól í sér að konur í áhættumeðgöngu skrifuðu um fæðingarupplifun og komu í viðtal eftir fæðingu til ljósmóður sem sinnti þeim í meðgönguvernd.

Ritgerðin byggir á þremur rannsóknum. Rannsókn I var langtíma þversniðsrannsókn þar sem gögnum var safnað á landsvísu með þremur spurningalistum á meðgöngu og eftir fæðingu (n = 657). Aðhvarfsgreining var notuð til að skoða forspárgildi stuðnings ljósmæðra í upplifun fæðingar. Rannsókn II var eigindleg innihaldsgreining á svörum kvenna sem höfðu leitað í LME (n = 125). Í rannsókn III var notuð blönduð aðferð til að skoða innleiðingu tvíþættrar ljósmóðurmeðferðar fyrir konur með áhættuþætti á meðgöngu (n = 30). Konur svöruðu spurningalistum fyrir og eftir meðferðina. Ljósmæðurnar (n = 8) tóku þátt í rýnihópaviðtali. Notuð var lýsandi greining og innihaldsgreining.

Í rannsókn I kom í ljós að 5-5,7% kvenna höfðu neikvæða fæðingarupplifun. Óánægja með stuðning ljósmóður á meðgöngu eða í fæðingu, inngrip í fæðingarferlið, langdregin fæðing og að vera nemandi spáði fyrir um neikvæða upplifun fæðingar. Tvö meginþemu og þrjú undirþemu voru greind í rannsókn II: á mínum forsendum, frumkvæði fagfólks, að hlusta er lykilatriði‚ að fylla í eyður og að horfa fram á við. Í rannsókn III töldu konur og ljósmæður viðtalsmeðferð vera gagnlegan og ákjósanlegan kost. Konur mátu upplifun sína af fæðingu marktækt jákvæðar eftir meðferðina. Flestar konur kjósa að ljósmóðir sem þær þekkja veiti meðferðina.

Niðurstöður rannsóknanna benda til að upplifun kvenna breytist lítið með tímanum og stuðningur ljósmæðra á meðgöngu og í fæðingu hafi áhrif á upplifun þeirra. Konur vilja að fagfólk hafi frumkvæði að samtali um upplifun fæðingar og bjóði þeim að fara yfir hana á þeirra eigin forsendum. Ef væntingar eru uppfylltar virðast konur geta náð stjórn og styrk til að horfa fram á við. Samtal um upplifun fæðingar ætti að vera hluti af barneignarþjónustu. Konur í áhættumeðgöngu eru viðkvæmur hópur sem þarf að huga sérstaklega að. Þeim fannst gagnlegt að fara yfir fæðinguna með ljósmóður sem þær þekkja. Bæði konur og ljósmæður telja slíka meðferð vera ákjósanlegan kost innan barneignarþjónustunnar.

Abstract

The overall aim of the study was to develop a midwifery intervention for women to review their birth experience. The aims of study I were to describe women’s birth experience up to two years after birth and explore the predictive role of support in the birth experience. The aim of study II was to explore women’s experience and preferences of reviewing birth experience at a special counselling clinic Lend me an ear (LME) at Landspitali. The aim of study III was to describe the construction of and explore the feasibility of a postpartum midwifery counselling intervention for women following high-risk pregnancies.

Study I was a longitudinal cohort study, conducted with a sample of pregnant women from primary health care centres in Iceland. Data were gathered via three questionnaires during pregnancy and postpartum (n = 657). Logistic regression analyses were performed to examine the predictive role of midwifery support in the birth experience. Study II was a qualitative content analysis of text from women attending the LME clinic (n = 125). Study III was a mixed-method pilot feasibility study. Thirty women were invited to write about and review their birth experience by a known midwife. Eight midwives provided the intervention. Data were collected from women before and after the intervention. Midwives providing the intervention participated in a focus group interview. Descriptive and content analysis were used.

The prevalence of women perceiving their birth as negative was 5-5.7%. Not being satisfied with support from midwife during pregnancy or birth, operative birth, prolonged birth and being a student predicted negative birth experience. Two themes and three subthemes were revealed in study II: on my terms, being recognised, listening is paramount, mapping the unknown and moving on. In study III, women and midwives perceived the counselling intervention as helpful and feasible. Women had significantly more positive appraisals of birth after the intervention. Most women preferred to review their birth experience with a midwife they knew.

Women´s experience of birth is relatively consistent over time. Support from midwives during pregnancy and birth has a significant impact on women’s perception of birth experience. Women prefer to be recognised and invited to review their birth experience in a tailored counselling provided on their terms. When expectations of reviewing their birth experience are fulfilled, they may regain control and strength to move on. Offering a discussion of the birth experience should be a routine part of maternity services. Women experiencing high-risk pregnancies are a vulnerable group and require further attention. They value a follow up by a midwife they know and both women and midwives perceive the counselling intervention as a feasible option in maternity care.

Um doktorsefnið

Valgerður Lísa Sigurðardóttir lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1982, BS-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1988, embættisprófi í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands 1998 og MS-prófi í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands árið 2008. Valgerður hlaut sérfræðileyfi í ljósmóðurfræðum árið 2013 og er starfandi sérfræðiljósmóðir á kvennadeild Landspítala. Sérsvið hennar er meðgönguvernd með áherslu á geðheilsu. Einnig sinnir Valgerður stundakennslu við námsbraut í ljósmóðurfræði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Foreldrar Valgerðar eru Sigurður Viggósson (látinn) og Anna Sigurðardóttir. Valgerður er gift Jóni Steingrímssyni viðskiptafræðingi og eiga þau börnin Örnu Hrund, Erlu Björk og Birki Val.

 

Valgerður Lísa Sigurðardóttir ver doktorsritgerð sína í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands föstudaginn 5. júní kl. 14:00.

Doktorsvörn í ljósmóðurfræði - Valgerður Lísa Sigurðardóttir