Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Sébastien Matlosz

Doktorsvörn í líffræði - Sébastien Matlosz  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. júní 2024 11:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Sébastien Léon Tadeus Matlosz

Heiti ritgerðar: Fjölbreytileiki DNA methylmerkinga í beinfiskum með áherslu á afbrigði bleikju (Salvelinus alpinus) í Þingvallavatni (Diversity of DNA methylation signals in teleosts with focus on the sympatric Arctic charr (Salvelinus alpinus) morphs of Thingvallavatn)

Andmælendur:
Dr. Irene Adrian-Kalchhauser, prófessor við Háskólann í Bern, Sviss
Dr. Kristinn Pétur Magnússon, prófessor við Háskólann á Akureyri

Leiðbeinandi: Dr. Zophonías Oddur Jónsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Sigríður Rut Franzdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ
Dr. Arnar Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ
Dr.Robert Hindges, prófessor við King’s College London

Stjórnandi varnar:
Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ

Ágrip

Þegar svipgerðareinkenni erfast án þess að vera beinlínis skráð í DNA er talað um umframerfðir. Það hversu næmir ferlarnir að baki umframerfðum eru fyrir umhverfisþáttum, áhrif þeirra á snemmþroskun, og þar af leiðandi mikilvægi þeirra fyrir myndun svipgerðar hefur á síðustu áratugum vakið athygli þróunarfræðinga, sem hafa í auknum mæli leitast við að samþætta þessi ferli inn í viðteknar kenningar þróunarfræðinnar. Til að mögulegt sé að greina og skilja hin ýmsu lífefnaferli sem tengjast tilurð aðlaganna er nauðsynlegt að rannsaka margar bæði fjarskylda og náskylda hópa lífvera. Breiðari flokkunareiningar, eins og t.d. innan hryggdýra, gera það kleift að greina ferli sem orðin eru hluti af sameiginlegum þroskunarferlum þessara lífveruhópa. Þrengri samanburður, t.d. á afbrigðum innan tegunda, gefur færi á að greina sameindamerki á fyrstu stigum aðskilnaðar, sérstaklega umframerfðamerki sem gætu tapast vegna náttúrulegs vals á þróunarfræðilegum tímaskala. Bleikjuafbrigðin fjögur í Þingvallvatni eru einstakt dæmi um svipgerðarfjölbreytileika sem skapar kjörið tækifæri til að rannsaka sameindagrunn breytileika á milli einstaklinga af erfðafræðilega náskyldum hópum. Í þessari doktorsritgerð rannsaka ég í fyrsta lagi DNA methylmerkingar og mismun á genatjáningu allra fjögura afbrigðanna snemma í fósturþroskun (Grein I). Í öðru lagi greini ég fylgni milli methylmerkinga, erfðabreytileika og breytilegrar genatjáningar í þremur afbrigðum (Grein II) og í þriðja lagi tek ég saman yfirlit yfir rannsóknir á erfðum og endurstillingu DNA methylmerkja í beinfiskum (Grein III). Niðurstöðurnar gefa með því mikilvæga innsýn í stöðu þekkingar á sviði þróunar- og þroskunalegrar umframerfðafræði.

 

Um doktorsefnið

Sébastien Matlosz útskrifaðist með BS gráðu í líffræði frá Lorraine háskóla í Frakklandi árið 2014 og lauk meistaranámi í lífvísindum og heilbrigðisverkfræði (“Biosciences et Ingénierie de la Santé”) frá sama skóla árið 2017. Í mastersnáminu vaknaði áhugi Sébastiens á sameindalíffræði, sérstaklega áhugi á umframerfðafræði (epigenetics).

Á árunum 2016 – 2017 vann hann vann tvö rannsóknaverkefni við Líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands þar sem hann setti meðal annars upp verkferla til að gera bísúlfít raðgreiningar á DNA sýnum úr bleikju. Í lok árs 2017 hóf Sébastien vinnu við doktorsverkefni sitt við HÍ. Auk þess að stunda rannsóknir hefur hann unun af lestri góðra bóka og auk þess að semja og flytja tónlist.

Sébastien Léon Tadeus Matlosz

Doktorsvörn í líffræði - Sébastien Matlosz