Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Alessandra Schnider

Doktorsvörn í líffræði - Alessandra Schnider - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
9. maí 2025 10:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni:
Alessandra Schnider

Heiti ritgerðar:
Sveigjanlegt svipfar hjá hornsílum (Gasterosteus aculeatus) í Mývatni: viðbrögð við breytilegu hitastigi og fæðuframboði innan og milli kynslóða

Andmælendur:
Dr. Lisa N. S. Shama, rannsóknasérfræðingur við Alfred-Wegener-Institut (AWI), Helmholz zentrum für Polar- und Meeresforschung, Þýskalandi
Dr. Antti P. Eloranta, Academic Research Fellow við Raunvísinda- og stærðfræðideild, Háskólans í Jyväskylä, Finnlandi

Umsjónarkennari: Dr. Zophonías O. Jónsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Aðalleiðbeinandi:
Dr. Bjarni Kristófer Kristjánsson, prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Katja Räsänen, prófessor við Raunvísinda og stærðfræðideild, Háskólans í Jyväskylä, Finnlandi
Dr. Blake Matthews, prófessor við Swiss Federal Institute of Aquatic Science and Technology, Sviss
Dr. Catherine Peichel, prófessor við Raunvísindadeld, Háskólans í Bern, Sviss

Doktorsvörn stýrir:
Dr. Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í Ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Ágrip:
Sveigjanlegt svipfar, geta arfgerðar til að mynda mismunandi svipgerðir sem svar við breytilegu umhverfi, getur dregið úr áhrifum krefjandi umhverfisaðstæðna, innan og milli kynslóða, og er mikilvægt í aðlögunarsvörun vegna náttúrulegs vals. Markmiðið mitt var að rannsaka mótandi áhrif umhverfisþátta á svipgerð hornsíla, innan og milli kynslóða, í tíma og rúmi. Ég rannsakaði fæðu og fæðutengt útlit hornsílaseiða í hinu síbreytilega Mývatni. Þegar að seiðin lengdust breyttist fæða þeirra frá vatnaflóm til mýlirfa og höfuðlögun tengdist fæðunni. Ég mældi sveigjanlegt svipfar innan og milli kynslóða í tilraun þar sem að hornsíli frá tveimur svæðum voru alin við ólíkt hitastig og fæðu í tvær kynslóðir og upplýsingum um svipgerð seiða og kynþroska hænga og hrygna var safnað. Sýni til mælinga á genatjáningu voru tekin af lifur kynþroska einstaklinga úr Mývatni og afkvæma úr tilrauninni, til að skilja betur þá erfðafræðilegu ferla sem móta svipgerðarfjölbreytileikann sem sást. Umhverfið hafði greinileg áhrif á þætti sem tengja má beint við hæfni. Þættir sem berast milli kynslóða eru greinilega mikilvægir fyrir líffræðilega hæfni í þessu kvika kerfi. Nokkur gen fundust sem sýndu mismunandi tjáningu í tengslum við hitastig og fæðu. Þau geta mögulega dregið úr streituáhrifum tengdum umhverfi og gert einstaklingum kleift að nema ný búsvæði. Niðurstöðurnar auka skilning á mikilvægi sveigjanlegs svipfars, innan og milli kynslóða, fyrir einstaklinga í kviku vistkerfi. Rannsóknir þar sem skoðaðir eru margir umhverfisþættir á líffræðilega mikilvægum tímaskala eru fáar. Því eru niðurstöður mínar sérlega mikilvægar fyrir skilning á hvernig sveigjanlegt svipfar hefur áhrif á líffræðilega fjölbreytni.

Um doktorsefnið:
Alessandra Schider ólst upp í Sviss og lauk B.Sc. gráðu í Líffræði og M.Sc gráðu í líffræðilegri mannfræði frá Háskólanum í Zurich. Meistararitgerð hennar fjallaði um það hvernig skyldleiki mótar félagslega jákvæða hegðun meðal kvenkyns apa og hvernig árstíðabundnar breytingar á fæðuframboði hafa áhrif á þetta hegðunarmynstur. Eftir hlé frá námi til að ferðast og kanna heiminn hóf Alessandra doktorsnám við Háskóla Íslands, í ágúst 2019 og stundaði rannsóknir sínar í hinum villta, kalda Skagafirði við Háskólann á Hólum. Margir voru hissa á því sem virtist gjörbreyting á áhugasviði í rannsóknum, en frá bæjardyrum Alessöndru séð var spurningin sú sama: Hvernig mótar samspil gena og umhverfis svipgerð einstaklingsins. Í því ljósi fjallar doktorsritgerð hennar um mikilvægi sveigjanleika við mótun svipgerðar hjá hornsílum, innan og milli kynslóða. Í tilraunastofu prófaði hún sérstaklega áhrif hitastigs og fæðu á helstu lífssögueiginleika eins og stærð, hversu mikla orku foreldrar hafa lagt í hvert afkvæmi og æxlunarárangur auk þess að rannsaka þá sameindaferla sem liggja að baki þessum viðbrögðum, með því að kanna mynstur genatjáningar. Að námi loknu mun Alessandra stjórna gerð vefútsendinga um fiskirannsóknir á Íslandi, sem hluta af starfi sínu að vísindamiðlun. Hún hlakkar til að kanna ný tækifæri og halda áfram að leggja sitt af mörkum á sviðinu með rannsóknum og samvinnuverkefnum.

 

 

Doktorsefnið Alessandra Schnider

Doktorsvörn í líffræði - Alessandra Schnider