Doktorsvörn í læknavísindum - Vaka Kristín Sigurjónsdóttir

Aðalbygging
Hátíðasalur
Þriðjudaginn 18. nóvember 2025 ver Vaka Kristín Sigurjónsdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Árangur nýraígræðslna hjá börnum: lífmerki og áhættumat til ákvörðunar ónæmisbælandi meðferðar.
Andmælendur eru dr. Vasilis Kosmoliaptsis, prófessor við University of Cambridge og ígræðsluskurðlæknir við Addenbrooke's Hospital, Cambridge, og dr. Jean-Luc Taupin, prófessor við Paris Diderot University og Saint-Louis Hospital í París.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Runólfur Pálsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Aðrir leiðbeinendur voru Paul Grimm, prófessor, Abanti Chaudhuri, prófessor, og Bing Melody Zhang, dósent, öll við Stanford University.
Þórarinn Guðjónsson, prófessor, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.
Ágrip
Nýraígræðsla er kjörmeðferð barna með lokastigsnýrnabilun og hefur ítrekað verið sýnt fram á að hún bætir bæði lífslíkur og lífsgæði samanborið við skilunarmeðferð. Þrátt fyrir þetta er langtímaárangur enn undir væntingum. Markmið rannsóknarinnar var að finna lífmerki sem nýtast til að meta áhættu og sérsníða ónæmisbælandi meðferð hjá börnum með ígrætt nýra. Rannsóknin byggðist á tveimur barnasjúklingahópum, frá Stanford University (2004–2018) og Miami Transplant Institute (2022–2023).
Helstu þættir sem rannsakaðir voru tengdust ónæmissvörun eftir ígræðslu: 1) Breytileiki í styrk ónæmisbælandi lyfsins takrólímus og tengsl hans við mótefnamyndun og meðferðarheldni; 2) áhrif nýrra gjafasértækra mótefna (C1q-jákvæðra) á græðlingstap; 3) misræmi HLA-DQαβ-sameinda milli gjafa og þega; og 4) mismunandi skömmtun andtýmusfrumuglóbulíns (rATG).
Börn með mikinn breytileika í takrólímusstyrk eða C1q-jákvæð ný gjafasértæk mótefni voru í aukinni hættu á græðlingstapi, en misræmi í HLA-DQα05 tvöfaldaði líkur á mótefnamyndun. Lágir skammtar af rATG reyndust öruggir fyrir börn í lágum áhættuflokki.
Niðurstöður rannsóknarinnar skapa grundvöll fyrir nýtt líkan um einstaklingsmiðaða ónæmisstýringu eftir nýraígræðslu barna. Líkanið byggir á því að nýta lífmerki til að greina áhættu og bregðast við snemma, áður en skemmdir koma fram. Með þessari nálgun má færa eftirlit frá því að vera viðbragðsmiðað yfir í fyrirbyggjandi og sérsniðið fyrir þarfir hvers barns. Markmiðið er að lengja líftíma ígrædda nýrans og draga úr aukaverkunum.
Abstract
Kidney transplantation is the preferred treatment for children with end-stage kidney disease and has repeatedly been shown to improve both survival and quality of life compared with dialysis. Despite this, long-term outcomes remain below expectations. The aim of the study was to identify biomarkers that could help assess immune risk and guide individualized immunosuppression in pediatric kidney transplant recipients. The study was based on two pediatric patient cohorts: one from Stanford University (2004–2018) and the other from the Miami Transplant Institute (2022–2023).
The main focus was on immune response after transplantation: 1) variability in tacrolimus drug levels and its association with antibody formation and adherence; 2) the impact of newly formed donor-specific antibodies (C1q-positive) on graft loss; 3) HLA-DQαβ heterodimer mismatch; and 4) dosing strategies of rabbit antithymocyte globulin (rATG) for induction therapy.
Children with high tacrolimus variability or C1q-positive donor-specific antibodies were at increased risk of graft loss, while HLA-DQα05 mismatch doubled the likelihood of antibody formation. Low dose rATG was found to be safe and effective in children at low immunological risk.
This study introduces a biomarker-guided model for individualized immunosuppression in pediatric kidney transplantation. The model is built on early detection of immune risk through serial biomarkers, enabling intervention before clinical injury occurs. This approach shifts monitoring from reactive to preventive and allows immunosuppressive care to be tailored to the specific needs of each child. The ultimate goal is to improve long-term outcomes, prolong graft survival, and minimize complications associated with both over- and under-immunosuppression.
Um doktorsefnið
Vaka Kristín Sigurjónsdóttir er fædd árið 1984. Hún lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Árið 2013 hélt hún til framhaldsnáms í Bandaríkjunum þar sem hún lauk sérnámi í barnalækningum við Connecticut Children´s Medical Center og University of Connecticut árið 2016. Vaka lauk sérnámi í nýrnalækningum barna við Lucile Packard Children's Hospital og Stanford University árið 2019. Hún hefur gegnt stöðu lektors og barnanýrnalæknis við University of Miami í Bandaríkjunum frá árinu 2021, þar sem verkefni hennar hafa beinst að ígræðslulækningum barna. Hún hefur jafnframt starfað sem rannsakandi við Stanford University frá árinu 2019, þar sem hún stundar rannsóknir á sviði nýrnasjúkdóma barna og nýrnígræðslna. Vaka hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2019, og hefur doktorsverkefnið verið unnið samhliða klínísku og fræðilegu starfi erlendis.
Vaka Kristín Sigurjónsdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. nóvember 2025.
