Doktorsvörn í læknavísindum - María Sigurðardóttir

Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 26. september 2025 ver María Sigurðardóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Heilsuefling fyrir liðskiptaaðgerð: Áhrif á skurðsýkingar og heilsufar. Samvinna sjúkrahúss og heilsugæslu. Preoperative Optimization in Total Joint Arthroplasty: Infection Risk and Health Effect. Cooperation of Hospital and Primary Health Care.
Andmælendur eru dr. Ib Jammer, sérfræðingur við Haukeland-háskólasjúkrahúsið í Bergen, og dr. Þorvaldur Ingvarsson, prófessor við Læknadeild.
Umsjónarkennari var prófessor Sigurbergur Kárason og meðleiðbeinandi var prófessor Martin Ingi Sigurðsson. Auk þeirra sátu dr. Yngvi Ólafsson og prófessor Emil Lárus Sigurðsson í doktorsnefnd.
Sædís Sævarsdóttir, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.
Ágrip
Liðskiptaaðgerðir á neðri útlimum vegna slitgigtar bæta lífsgæði sjúklinga verulega, en sýkingar í aðgerðarsvæðinu geta haft alvarlegar afleiðingar, aukið dánartíðni og kostnað. Til að draga úr slíkri hættu hefur áhugi aukist á heilsueflingu mótanlegra áhættuþátta fyrir aðgerð, svo sem ofþyngdar, sykursýki, blóðskorts, vannæringar, reykinga og þrekleysis. Markmið þessa verkefnis var að innleiða heilsueflandi ferli til að fækka fylgikvillum eftir liðskiptaaðgerðir og kanna áhrif á almenna heilsu. Í viðmiðunarhópi 738 sjúklinga sást samband milli ofþyngdar, sykursýki/röskunar á sykurstjórnun og grunnra skurðsárasýkinga. Í rannsóknarhópi 746 sjúklinga jókst vitund og vilji til lífsstílsbreytinga, með framförum í þyngd, næringu, sykursýki og D-vítamín-gildum í bið eftir aðgerð. Eftir aðgerð greindust sjúklingar í rannsóknarhópnum sjaldnar með grunnar sýkingar (OR 0,64) og aðgerðartengda fylgikvilla (11,3% á móti 15,7%). Langtímaáhrif á liðsýkingar, almennt heilsufar og dánartíðni reyndust hins vegar ómarktæk. Niðurstöðurnar benda á mikilvægi þess að gera framsæjar rannsóknir á árangri heilsueflandi ferla og jafnframt að meta áhrif utanaðkomandi þátta á meðferðarárangur.
Abstract
Lower extremity total joint arthroplasty improves quality of life and reduces pain in end-stage osteoarthritis, but surgical site infections can cause severe complications, increased mortality, and costs. To decrease such risk preoperative optimization programs have recently gained interest, targeting modifiable risk factors such as obesity, diabetes, anemia, malnutrition, smoking, and poor fitness. The aim of this project was to implement an optimization pathway for the purpose of decreasing postoperative complications after TJA and study effects on general health. In a control group of 738 patients an association was found between obesity, diabetes/dysglycemia and superficial SSI. In the intervention group of 746 patients, greater awareness, and willingness to adopt lifestyle changes were observed, accompanied by improvements in weight, nutrition, diabetes control, and vitamin D status. Postoperatively, they had fewer superficial surgical site infections (OR 0.64) and surgical site complications (11.3% vs. 15.7%). However, long-term effects on periprosthetic joint infections, overall health, and mortality were not significant. These findings highlight the need for prospective studies on optimization programs and further evaluation of organizational and practice changes in patient care.
Um doktorsefni
María Sigurðardóttir er fædd árið 1954 og uppalin í Reykjavík. Hún lauk námi af eðlisfræðibraut Menntaskólans í Reykjavík og embættisprófi í Læknisfræði 1982. Að loknu kandídatsári hóf hún sérnám í svæfinga-og gjörgæslulækningum við Helsingborgs Lasarett og Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð og lauk námi 1990. Einnig námi í Perioperative Medicine and Management 2019. Árið 2020 hóf María doktorsnám við Háskóla Íslands og hlaut styrki frá Vísindasjóði Landspítala háskólasjúkrahúss og Sjóði Sigríðar Lárusdóttur. Foreldrar Maríu eru Vilhelmína Hólmfríður Vilhjálmsdóttir og Sigurður Finnbjarnarson, sem bæði eru látin. Eiginmaður Maríu er Ríkarður Sigfússon, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, og eiga þau tvo syni, Ríkarð, eiginkona Fríður Guðmundsdóttir og Fannar, eiginkona Hildur Magnúsdóttir, og barnabörnin eru sex.
María Sigurðardóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 26. september 2025.
