Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. nóvember 2024 14:00 til 17:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Miðvikudaginn 27. nóvember 2024 ver Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Handan rannsóknarstofunnar: Áhættuþættir, lifun og fylgisjúkdómar hjá einstaklingum með góðkynja einstofna mótefnahækkun og mergæxli. Looking Beyond the Lab: Risk Factors, Survival, and Comorbidity among Individuals with Multiple Myeloma and Monoclonal Gammopathy of Undetermined Significance.

Andmælendur eru dr. Charlotte Pawlyn, blóðsjúkdómafræðingur við The Institute of Cancer Research: Royal Cancer Hospital í London, og dr. Francesca Gay, blóðsjúkdómafræðingur og dósent við University of Torino á Ítalíu.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor. Auk hans sátu í doktorsnefnd Sigrún Þorsteinsdóttir, nýdoktor, Thor Aspelund, prófessor, Ola Landgren, prófessor og yfirlæknir við Sylvester Comprehensive Cancer Center sjúkrahúsið í Miami, og Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor.

Einar Stefán Björnsson, prófessor við Læknadeild, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 14:10.

Ágrip

Mergæxli er illkynja blóðsjúkdómur sem orsakast af stjórnlausri fjölgun einstofna plasmafrumna í beinmerg. Forveri mergæxlis er góðkynja einstofna mótefnahækkun (monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) sem er einkennalaust ástand og þarfnast ekki meðferðar. Orsakir MGUS eru óþekktar en nokkrir áhættuþættir eru til staðar, s.s. aldur, kyn, skordýraeitur og kynþáttur. Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að sjálfsofnæmissjúkdómar geti aukið hættu á því að greinast síðar með MGUS. Lifun einstaklinga með mergæxli hefur batnað umtalsvert síðastliðin ár, þökk sé meðal annars bættri meðferð. Sjúklingar með mergæxli eru hins vegar eldri og þjást af fylgisjúkdómum sem gætu haft áhrif á lifun. Markmið doktorsverkefnisins voru að skoða áhrif ytri þátta á lifun einstaklinga með mergæxi og MGUS og að rannsaka hvort sjálfsofnæmissjúkdómar auki líkur á því að greinast með MGUS. Verkefninu var skipt í þrjá hluta. Í fyrsta hluta þess var lifun einstaklinga með mergæxli og MGUS skoðuð með tilliti til áhrifa langlífra foreldra og allir einstaklingar með mergæxli og MGUS í Svíþjóð á árunum 1988-2013 voru rannsakaðir ásamt lýðgrunduðum viðmiðum. Í öðrum hluta voru allir sjúklingar greindir með mergæxli í sama þýði og athugað hvort fylgisjúkdómar við greiningu hafi áhrif á lifun. Í þriðja hluta verkefnisins voru allir einstaklingar í rannsóknarverkefninu Blóðskimun til bjargar, þar sem skimað var fyrir MGUS á Íslandi, skoðaðir og tíðni sjálfsofnæmisjúkdóma og tengsl við MGUS rannsökuð. Niðurstöður fyrsta hluta bentu til verndandi áhrifa þess að eiga langlíft foreldri, bæði hjá einstaklingum með mergæxli og MGUS. Í öðrum hluta rannsóknarinnar kom fram hátt algengi fylgisjúkdóma hjá sjúklingum með mergæxli og áhrif þeirra á lifun, með aukinni áhættu á dauða eftir því sem fleiri fylgisjúkdómar eru til staðar við greiningu. Að lokum sýndu niðurstöður þriðja hluta verkefnisins fram á að engin tengsl eru á milli MGUS og sjálfsofnæmissjúkdóma, en fyrri rannsóknir sem hafa bent til þessa eru ekki byggðar á skimuðu þýði og niðurstöður þeirra því bjagaðar. Niðurstöðurnar veita mikilvægar upplýsingar um faraldsfræðilega þætti og horfur einstaklinga með mergæxli og MGUS, og afsanna jafnframt áður útbreidda kenningu þess efnis að sjálfsofnæmissjúkdómar valdi MGUS. 

Abstract

Multiple myeloma (MM) is a haematological malignancy caused by abnormal plasma cell proliferation in the bone marrow. All MM cases are preceded by a precursor condition, monoclonal gammopathy of undetermined significance (MGUS), which does not require any treatment. Risk factors for MGUS include sex, age, pesticide exposure, and ethnicity. Prior studies have indicated an increased risk of MGUS among individuals with an autoimmune disorder. Survival of patients with MM has increased recently, mainly due to advances in treatment. However, MM patients typically suffer from comorbidities, which may influence survival. The project was divided into three parts. The aim of  the first part was to investigate whether parental longevity affected survival among MGUS and MM patients using registry data from Sweden, which included individuals with MM and MGUS from 1988 to 2013. Using the same data, the second part  aimed to study the prevalence and impact of comorbidities on the survival of MM patients. The aim of the third part was to study whether autoimmune diseases were associated with a diagnosis of MGUS in a screened population, using data from iStopMM, a population-based screening study carried out in Iceland. Results from the first part show that host characteristics influence survival in patients with MM and MGUS, with a reduced risk of death among individuals with long-lived parents. In the second part, it was demonstrated that comorbidities are common in MM, with an increased risk of mortality correlated to growing number of comorbidities. Lastly, an analysis on autoimmune diseases and MGUS in a screened population did not show an association between the conditions. Previous studies with positive associations are not based on screened populations, and therefore subject to ascertainment bias. These results provide an important insight into the epidemiological host factors that influence survival in both MM and MGUS, and disprove the prior hypothesis of a causal relationship between autoimmune disorders and MGUS.

Um doktorsefnið

Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir er fædd árið 1988 í Reykjavík. Hún útskrifaðist af eðlisfræðibraut Menntaskólans í Reykjavík árið 2008. Ingigerður lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2014 og stundaði nám í tölfræði við sama skóla 2015–2016. Ingigerður hóf doktorsnám haustið 2017 samhliða sérnámi í almennum lyflækningum við Landspítala Háskólasjúkrahús. Doktorsverkefnið hlaut styrk frá Norrænu krabbameinssamtökunum, Vísindasjóði Landspítala og Rannsóknarsjóði Íslands. Árið 2019 flutti Ingigerður ásamt fjölskyldu sinni til Gautaborgar og lauk þar sérnámi í lyflækningum frá Sahlgrenska, háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg, vorið 2024 og er nú sérnámslæknir í blóðmeinafræði við sama spítala. Foreldrar Ingigerðar eru Sverrir Tómasson, prófessor emeritus í íslenskum miðaldabókmenntum, og Sigríður Dagný Þorvaldsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Eiginmaður Ingigerðar er Jóhann Páll Hreinsson, læknir og dósent við Gautaborgarháskóla, og eiga þau saman synina Sturlu Rafn og Sverri Örn.

Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands miðvikudaginn 27. nóvember

Doktorsvörn í læknavísindum - Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir