Doktorsvörn í kynjafræði - Finnborg Salome Steinþórsdóttir
Aðalbygging
Hátíðarsalur
Doktorsefni: Finnborg Salome Steinþórsdóttir
Heiti ritgerðar: Að fylgja fénu. Kynjuð fjármál gegn kynjaslagsíðu háskóla í kjölfar markaðsvæðingar (e. Following the Money. Using Gender Budgeting to Challenge the Gender Biases of New Managerialism in Academia).
Andmælendur: Dr. Kathleen Lynch, prófessor við University College Dublin, School of Education og dr. Tindara Addabbo, dósent við Università degli Studi di Modena e Reggio Emilia.
Leiðbeinandi: Dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Aðrir í doktorsnefnd: Dr. Gyða Margrét Pétursdóttir, dósent í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, dr. Nicky Le Feuvre, prófessor í félagsfræði við University of Lausanne í Sviss, og dr. Susan Himmelweit, prófessor emerítus í hagfræði við Open University í Bretlandi.
Doktorsvörninni stýrir: Dr. Maximilian Conrad, varadeildarforseti Stjórnmálafræðideildar.
Ágrip af rannsókn:
Markmið rannsóknarinnar er að öðlast dýpri skilning á því hvernig markaðsvæðing á þátt í að stuðla að og viðhalda kynjamisrétti í vísindasamfélaginu, og skapa þekkingu sem gagnast við innleiðingu á kynjuðum fjármálum á háskólastiginu og í vísindum og rannsóknum. Kynjuð fjármál (e. gender budgeting) er femínísk aðferðafræði til að móta nýjar nálganir við stefnumörkun og ákvarðanatöku um ráðstöfun og öflun opinberra fjármuna með það að markmiði að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna.
Rannsóknin byggir á margþættum aðferðum og gögnum úr GARCIA rannsóknarverkefninu, sem styrkt var af sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins, en gögnin samanstanda af u.þ.b. hundrað skriflegum stefnumótunarskjölum, tölfræðilegum gögnum og viðtölum við 54 lykilaðila innan stjórnsýslu háskólans, akademíska starfsmenn í dóm- og valnefndum, og vísindamenn sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Við greiningu gagnanna var sjónum beint sérstaklega að valdatengslum og rýnt með gagnrýnum hætti í mat á akademískum störfum; hvað er metið og umbunað fyrir, og hvað er vanmetið eða ekki umbunað fyrir.
Fjórar vísindagreinar liggja til grundvallar doktorsritgerðinni. Í verkefninu eru færð rök fyrir því að skipulagsheildir og verklag stofnana viðhaldi og stuðli að kynjuðum valdatengslum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að fjármála- og stjórnunarkerfi háskólastofnana eru kynjaðar. Aukin markaðsvæðing er ekki aðeins til hagsbóta fyrir karla, heldur einnig stöður og fræðasvið þar sem karlar eru í meirihluta og þar sem karllæg menning ríkir. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa jafnframt ljósi á mikilvægi þess að stíga skref til baka og meta út frá gagnrýnu sjónarhorni þá þætti sem móta stefnur og taka tillit til þeirra áhrifa sem þær hafa á kynjuð valdatengsl í vísindasamfélaginu. Ávinningur þess felst ekki aðeins í að vinna gegn þeim óyrtu viðmiðum sem viðhalda og stuðla að kynjaójafnrétti, heldur einnig í leiðum að skilvirkari stefnumótun og betri nýtingu á almannafé. Þessi rannsókn sýnir fram á það að kynjuð fjármál eru vænleg aðferðafræði til að vinna að því.
Um Finnborgu:
Finnborg er fædd á Ísafirði árið 1985. Hún lauk BA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2010 og MA prófi í kynjafræði frá sama skóla árið 2014. Helstu rannsóknaráherslur hennar eru kynjuð fjármál, vinnumenning og kynjatengsl, og nauðgunarmenning. Finnborg tekur þátt í evrópska samstarfsverkefninu ACT sem er ætlað að stuðla að kynjajafnrétti í vísindasamfélaginu. Samhliða rannsóknum starfar Finnborg við kennslu í Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og situr í fagráði ríkislögreglustjóra sem tekur m.a. á kynferðislegri áreitni og einelti. Einnig tekur Finnborg þátt í grasrótarstarfi félagsins Femínísk fjármál, sem hefur það að markmiði að efla þekkingu á kynjuðum fjármálum og veita stjórnvöldum aðhald. Finnborg býr með Áskeli Harðarsyni, tónskáldi.
Finnborg veitir frekari upplýsingar um doktorsrannsókn sína í síma 8672369 eða í gegnum netfangið finnborg@hi.is
Finnborg Salome Steinþórsdóttir