Skip to main content

Doktorsvörn í jarðfræði - Sigurveig Árnadóttir

Doktorsvörn í jarðfræði - Sigurveig Árnadóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
11. desember 2024 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni:
Sigurveig Árnadóttir

Heiti ritgerðar:
Þróun hinnar fornu Síð-Míósen Torfufellseldstöðvar á Mið-Norðurlandi: jarðfræði, jarðlagaskipan og segulstefnur hraunlaga, jarðefnafræði, aldur og jarðsögulegt tímatal

Andmælendur:
Dr. Godfrey Fitton, prófessor við Jarðvísindadeild Háskólans í Edinborg, Skotlandi
Dr. Richard Brown, dósent við Jarðvísindadeild Durham Háskóla, Englandi

Leiðbeinandi:
Dr. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands

Umsjónarkennari:
Dr. Zophonías O. Jónsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Árni Hjartarson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum
Dr. Bjarni Gautason, jarðfræðingur og verkefnastjóri hjá Íslenskum orkurannsóknum

Stjórnandi varnar:
Dr. Guðfinna Th Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands

Ágrip:
Jöklar ísaldar og vatnsföll hafa grafið sig inn í fjölda megineldstöðva sem mynduðust á Íslandi á Míósen og Plíósen og því má nú með góðu móti kanna innviði margra þeirra og rannsaka um leið gerð og þróun slíkra eldfjalla. Ritgerð þessi fjallar um megineldstöð innst í Eyjafirði sem myndaðist á Síð-Míósen og kennd er við Torfufell. Markmið verkefnisins er að lýsa þróun Torfufellseldstöðvarinnar og nánasta umhverfis hennar með nákvæmri jarðfræðikortlagningu, segulmælingum, jarðefnafræði, lýsingum á lykiljarðmyndunum og samþættingu við bæði gamlar og nýjar aldursákvarðanir. Þessar athuganir benda til að megineldstöðin hafi byrjað að hlaðast upp fyrir 7,8-8,0 milljón árum og að fyrri stig upphleðslunnar hafi einkennst af basískum apalhraunum en seinni stig af fjölbreyttari bergtegundum, að meðtöldum ísúrum og súrum (þ.e. kísilríkum) myndunum. Í nokkrum opnum sést að þessar tvær lotur eru aðskildar af sérstæðu setlagi sem inniheldur gjósku, smektítleir og steingervinga, þ.e. viðarstein. Rýólítvirkni - sem hófst í eldstöðinni fyrir u.þ.b. 7,12 milljón árum og stóð yfir í um 400.000 ár - einkenndist bæði af innskotum og sprengi- og hraungosum og myndaði margbrotna heild á miðsvæði eldvirkninnar.

Þessi virkni í Torfufellseldstöðinni hófst á þýðingarmikilli stund í jarðsögu landsins, þ.e.a.s. á sama tíma og rekbeltaflutningur var að eiga sér stað, og gæti markað upphaf rekbeltisins sem nú er virkt á Norðurlandi. Torfufellseldstöðin var ekki í hópi hinna stóru megineldstöðva míósentímans. Kortlagningin bendir þó til að hún hafi risið nokkur hundruð metra yfir umhverfi sitt. Eldvirknin hélt áfram þar í grennd og smátt og smátt grófst hún í yngri jarðmyndanir og ummerki hennar hurfu af yfirborði jarðar. Löngu síðar grófu veðrunaröflin, einkum jöklar ísaldar, hana upp á ný og afhjúpuðu innviði hennar.

Um doktorsefnið:

Sigurveig Árnadóttir er fædd árið 1978 í Gautaborg í Svíþjóð. Hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut Menntaskólans á Akureyri árið 1998, stundaði fornám við Listaháskóla Íslands veturinn 1999-2000 og lauk BA prófi í myndlist frá sama skóla árið 2003. Sigurveig lauk BS og MS prófum í jarðfræði frá Háskóla Íslands 2006 og 2008 og fékk kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri 2011. Að loknu BS prófi í jarðfræði hóf hún störf sem sérfræðingur á Veg- og jarðtæknideild Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, þar sem hún starfaði fyrst og fremst við rannsóknir og prófanir á steinefnum til notkunar í mannvirki auk þess að vinna að meistaraverkefni sínu. Sigurveig hóf störf sem jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) á Akureyri árið 2008 og starfaði þar þangað til í lok mars á þessu ári. Hennar helstu verkefni á ÍSOR sneru að borholujarðfræði, jarðfræðikortlagningu og verkefnastjórnun. Doktorsverkefnið vann hún að samhliða starfi sínu á ÍSOR. Sigurveig býr á Akureyri með börnum sínum tveimur. Hún sinnir nú starfi verkefnastjóra rannsókna og viðhalds hjá Norðurorku og hefur starfað þar síðan í apríl á þessu ári.

 

Doktorsefnið Sigurveig Árnadóttir

Doktorsvörn í jarðfræði - Sigurveig Árnadóttir