Skip to main content

Doktorsvörn í íþrótta- og heilsufræði: Birna Varðardóttir

 Doktorsvörn í íþrótta- og heilsufræði: Birna Varðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
15. október 2024 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Birna Varðardóttir ver doktorsritgerð sína í íþrótta- og heilsufræði við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands.

Vörnin fer fram þriðjudaginn 15. október kl. 13:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.

Heiti ritgerðar: Tiltæk orka og hlutfallslegur orkuskortur meðal íslensks íþróttafólks / Energy availability and Relative Energy Deficiency in Sport (REDs) among Icelandic athletes

Andmælendur: dr. Johanna Ihalainen Senior Lecturer við Háskólann í Jyväskylä, Finnlandi og dr. Therese Fostervold Mathisen, dósent við Østfold University College, Noregi.

Aðalleiðbeinandi: dr. Sigríður Lára Guðmundsdóttir fyrrum prófessor við Háskóla Íslands og núverandi framkvæmdastjóri rannsókna hjá Sidekick Health og meðleiðbeinandi dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Ylva Hellsten prófessor við Háskólann í Kaupmannahöfn.    

Stjórnandi athafnar: dr. Þórdís Lilja Gísladóttir forseti Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.

Verið öll velkomin.

Viðburðurinn verður sýndur í streymi

Um  verkefnið:

Tiltæk orka vísar til þeirrar orku (hitaeininga) sem er tiltæk fyrir grunnstarfsemi líkamans eftir að orkunotkun við þjálfun hefur verið dregin frá þeirri orku sem fæst daglega úr mat og drykk. Verulegur eða langvarandi skortur á tiltækri orku (e. low energy availability, LEA) leiðir til hlutfallslegs orkuskorts í íþróttum (e. Relative Energy Deficiency in Sport, REDs). Yfirmarkmið doktorsverkefnisins voru að 1) meta algengi áhættuþátta og einkenna REDs meðal íslensks afreksíþróttafólks og afreksefna og 2) meta tengsl skilgreindra áhættuþátta og einkenna REDs við tiltæka orku, orku- og næringarefnainntöku og tengd mynstur.

Doktorsverkefnið, RED-Í rannsóknin, var þversniðsrannsókn sem var unnin í tveimur hlutum. Upphaflega var íþróttafólki úr fjölbreyttum íþróttagreinum sem náð hafði 15 ára aldri boðið að svara rafrænum spurningalista sem tók til lífeðlisfræðilegra einkenna REDs. Íþróttafólk sem lauk við að svara spurningalistunum og uppfyllti öll þátttökuskilyrði fékk í kjölfarið boð um að taka þátt í mælingahluta rannsóknarinnar. Líkamssamsetning var mæld með tvíorku-röntgengeislagleypnimælingu og hvíldarefnaskipti með óbeinni efnaskiptamælingu. Hormóna- og næringarástand var metið með blóðprufu. Þátttakendur héldu matar- og æfingadagbók gegnum smáforrit í sjö samfellda daga, þar sem stuðst var við myndir og vigtun á öllum mat og drykk. Þrír stuttir spurningalistar voru lagðir fyrir til að skima fyrir einkennum átröskunarhegðunar, æfingaþráhyggju og vöðvaskynjunarröskunar.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að einkenni á borð við ófullnægjandi endurheimt, lágt orkustig og líkamsverki séu algeng meðal íslensks íþróttafólks.

Af þeim þátttakendum sem tóku þátt í mælingahluta rannsóknarinnar voru 8% (11% kvenna) yfir viðmiðunarskori á spurningalista sem skimaði fyrir átröskunarhegðun, 13% yfir viðmiðunarskori fyrir vöðvaskynjunarröskun og 19% metin í hættu á æfingaþráhyggju. Íþróttakonur með mynstur LEA auk skertrar kolvetnainntöku sýndu fleiri áhættuþætti og einkenni REDs en samanburðarhópar sem höfðu annars konar mynstur.  Sá hópur sýndi meðal annars flest einkenni átröskunarhegðunar, hafði lægsta hlutfallslega meðalinntöku á öllum orkugefandi næringarefnum auk þess að meta orkustig og endurheimt verr en samanburðarhópur sem hafði mynstur nægrar tiltækrar orku og nægrar kolvetnainntöku sérstaklega. Hjá körlum fundust tengsl milli fjölda LEA daga og lægri meðalinntöku á heildarorku, kolvetnum og járni og jákvæð tengsl milli fjölda LEA daga og orkunotkunar við þjálfun. Fjöldi LEA daga var ekki tengdur lífeðlisfræðilegum útkomum né skori á spurningalistum sem skimuðu fyrir átröskunarhegðun, æfingaþráhyggju og vöðvaskynjunarröskun hjá körlum. Hins vegar var hátt skor á spurningalistanum sem skimaði fyrir vöðvaskynjunarröskun tengt lakari svefni og einkennum á borð við líkamsverki og þreytu hjá körlum.

Um doktorsefnið

Birna Varðardóttir er fædd í Reykjavík árið 1994. Hún lauk BS prófi í næringarfræði frá Háskóla Íslands 2017 og meistaragráðu í hreyfivísindum og íþróttanæringarfræði frá Maastricht University, Hollandi 2018. Birna hóf doktorsnám í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands haustið 2020 og gegndi starfi aðjunkts við deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda samhliða náminu til haustsins 2022. Síðustu tvö ár doktorsnámsins bjó Birna í Danmörku þar sem hún varði tæplega einu ári í Erasmus+ starfsþjálfun við Kaupmannahafnarháskóla og var í kjölfarið ráðin sem rannsakandi á sviði fæðu- og átraskana hjá Psykiatrisk Center Ballerup. Foreldrar hennar eru Svanborg Gústafsdóttir matartæknir og Vörður Ólafsson húsasmíðameistari. Helstu áhugamál Birnu eru íþróttir og líkamsrækt, útivist, matur og ferðalög.

Birna Varðardóttir ver doktorsritgerð sína í íþrótta- og heilsufræði við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands. Vörnin fer fram þriðjudaginn 15. október kl. 13:00 í Hátíðasal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.

 Doktorsvörn í menntavísindum: Birna Varðardóttir