Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Yelena Sesselja Helgadóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Mánudaginn 7. september 2020 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Yelena Sesselja Helgadóttir doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum, Íslenskar þulur síðari alda. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. Hér verður hægt að fylgjast með vörninni í streymi.
Andmælendur við vörnina verða dr. Shaun Hughes, prófessor við Purdue háskóla í Bandaríkjunum, og dr. Natalie van Deusen, dósent við Háskólann í Alberta, Kanada.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Vésteins Ólasonar, prófessors emeritus við Háskóla Íslands og fyrrverandi forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, og dr. Terry Gunnell, prófessor við Háskóla Íslands.
Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Ritgerðin miðar að því að skilgreina þulur síðari alda (þjóðkvæði frá u.þ.b. 15.–20. öld) sem kveðskapargrein með nákvæmari hætti en áður hefur verið gert og setja þær betur í samhengi íslenskrar bókmennta- og munnmenntasögu. Í því augnmiði er bragform, bygging og flutningur þulna tekið til ýtarlegrar skoðunar og tengslum þulna síðari alda við þulur í íslenskum fornbókmenntum er gefinn meiri gaumur en áður.
Rannsóknin leiðir í ljós að aðeins er unnt að afmarka þulur síðari alda frá öðrum þjóðkvæðum með því að beita sérkennum þulna á öllum ofangreindum sviðum í senn. Sérkenni þulna í bragformi eru ekki aðeins fólgin í óreiðu í hrynjandi og óreglulegri notkun ríms og stuðla heldur í því að bætt er úr óreglunni með því að beita veikari stuðlun og rími til að vefa línur, sem viðtekin stuðlasetning og rím nær ekki yfir, inn í bragmynstur. Bygging markar einnig sérstöðu þulna, en hún grundvallast – líkt og í fornþulum – á upptalningu á smærri byggingareiningum (heitum og minnum) sem mynda stærri einingar (blokkir) í hóflegu samspili við bragfræðilega þætti, setningaskipan og merkingu. Sterk tengsl við konur og börn hafa talist einkenna flutning á þulum síðari alda og hlutverk þeirra, en rannsóknin gefur til kynna að þau einkenna vart þulur umfram ýmis önnur þjóðkvæði. Sérkenni þulna síðari alda eru frekar fólgin í sérstöku hlutverki upptalninga í heimsmyndarsköpun þeirra.
Rannsóknin varpar einnig skýrara ljósi á uppruna þulna síðari alda sem skýrir sérkenni þeirra, en margt bendir til þess að þær hafi orðið til við samruna hinnar fornu þuluhefðar og nýs efnis sem barst frá meginlandi Evrópu undir lok miðalda og á næstu öldum þar eftir.
Um doktorsefnið
Yelena Sesselja Helgadóttir lauk M.A.-prófi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Hún hefur gefið út úrval íslenskra lausavísna frá tímabilinu 1400–1550 og birt fjölda greina um þulur, lausavísur og annan íslenskan kveðskap að fornu og nýju.
Yelena Sesselja Helgadóttir