Skip to main content

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Eirik Westcoat

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Eirik Westcoat - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. október 2021 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 22. október 2021 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Eirik Westcoat doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum, Chanting Up the Kraftaskalds. An Investigation into Their Image, Roles, and Magic. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. (Smelltu hér til að fylgjast með vörninni í streymi).

Andmælendur við vörnina verða dr. Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og dr. John Lindow, prófessor emeritus í fornnorrænu við Háskólann í Kaliforníu, Berkeley.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Gísla Sigurðssonar, rannsóknarprófessors á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Stephen A. Mitchell, prófessor við Harvard háskóla og dr. Torfi H. Tulinius, prófessor við Háskóla Íslands.

Gauti Kristmannsson, varaforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Rannsókn Eiriks fjallar um kraftaskáld eins og þau koma fyrir í íslenskum sögnum. Skáld af þessu tagi eru áberandi eftir siðbreytingu á 16. öld og allt fram til fyrri hluta 20. aldar. Þau voru talin geta beitt göldrum með hjálp kvæða sem þau spunnu uppúr sér, og gátu leitt til blessunar eða bölvunar, stýrt veðri, kveðið niður uppvakninga og ýmislegt fleira. Sum þessara kraftaskálda eru ekki nafngreind en flest eru þetta raunveruleg skáld sem slíkar sagnir hafa orðið til um. Kraftaskáld urðu fyrst vænlegt rannsóknarefni þegar Bo Almqvist dró upp skilgreiningu á þeim á sjöunda áratug 20. aldar en hafa þó ekki hlotið mikla athygli, enda er þessi rannsókn fyrsta rannsóknin af þessari stærðargráðu sem einblínir á kraftaskáldin frá því eftir miðaldir. Markmið rannsóknarinnar er að draga fram og skýra þrjá meginþætti kraftaskálda. Í fyrsta lagi, hvaða skáld eru þetta, hvert er orðspor þeirra og hvað er talið einkenna þau. Í öðru lagi, hvert er hlutverk þeirra í þeim sögnum og þjóðfræðaefni sem þau koma fyrir í, þar á meðal hvernig þau beita göldrum sínum og í hverra þágu. Þessi þáttur dregur gjarnan fram þau félagslegu gildi sem skáldin halda á loft í sögnunum og hvernig sagnirnar hlaða undir gildi skáldskapar. Í þriðja lagi, er fjallað um eðli þeirra galdra sem beitt er og þeir bornir saman við annarskonar galdur í íslenskum þjóðfræðiheimildum, hvernig tungutak ákvæðanna er byggt upp og hvernig aðrir þættir en sjálf orðin sem mælt eru fram hafa áhrif á virknina, með áherslu á hugarástand skáldanna.

Um doktorsefnið

Eirik Westcoat er með BS-gráðu í viðskiptum og verkfræði frá California Institute of Technology og lauk norrænu meistaranámi í víkinga- og miðaldafræðum við Háskóla Íslands og Háskólann í Osló.

Eirik Westcoat.

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Eirik Westcoat