Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Mirko Garofalo

Aðalbygging
Hátíðasalur
Fimmtudaginn 11. september 2025 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Mirko Garofalo doktorsritgerð sína í íslenskri málfræði, Clausal nominalization in Icelandic. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Andmælendur við vörnina verða Filippa Lindahl, lektor við Högskolan Väst í Svíþjóð og Øystein Alexander Vangsnes, prófessor við The Arctic University of Norway (UiT). Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Jóhannesar Gísla Jónssonar, prófessors í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Anton Karl Ingason, prófessor í íslenskri málfræði og máltækni við Háskóla Íslands og Matthew Whelpton, prófessor í ensku við Háskóla Íslands.
Gauti Kristmannsson, deildarforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Doktorsritgerðin er fyrsta ítarlega rannsókn um notkun fornafnsins „það“ á undan aukasetningum í nútímaíslensku, t.d. „Ég vona það að liðið sigri“. Aðaltilgangur ritgerðarinnar er sá að útskýra af hverju það er notað og einnig af hverju það er stundum valfrjálst, skyldubundið eða ótækt í íslenskri setningagerð. Í ritgerðinni er því haldið fram að fornafnið sé notað til að gáta ósjálfgefna fall-, kyn- og töluþætti sem aukasetning getur ekki gátað sjálf. Fornafninu er oft sleppt ef ekki þarf að gáta neinn þátt. „Það“ er einnig skyldubundið í frumlagssæti og í sæti óbeins andlags, þar sem krafa er gerð um ákveðnilið, en er ótækt í þeim stöðum þar sem ákveðniliðir geta aldrei komið fram eða þegar setningaliður verður færður út úr aukasetningunni.
Um doktorsefnið
Mirko Garofalo lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli og MA-prófi í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Hann starfar sem aðjunkt í íslensku sem öðru máli og er einnig verkefnisstjóri hagnýts náms í íslensku sem öðru máli við HÍ.
Mirko Garofalo.
