Skip to main content

Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Katrín Lísa van der Linde Mikaelsdóttir

Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Katrín Lísa van der Linde Mikaelsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
2. maí 2025 13:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 2. maí 2025 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Katrín Lísa van der Linde Mikaelsdóttir doktorsritgerð sína í íslenskri málfræði, Norwegian Influence on Icelandic Literary Language in the Fourteenth and Fifteenth Centuries: An Examination of Seventy-Five Scribal Hands. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Andmælendur við vörnina verða Michael Schulte, prófessor við háskólann í Agder í Noregi og Veturliði Óskarsson, prófessor við Uppsalaháskóla. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Haralds Bernharðssonar, dósents í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Ivar Berg, prófessor við NTNU í Noregi.

Gauti Kristmannsson, deildarforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Í doktorsritgerð sinni fjallar Katrín Lísa um þróun og áhrif norskra málaeinkenna, svokallaðra „norvagisma“, í 75 íslenskum handritum og 187 frumbréfum frá fjórtándu öld og fram að siðaskiptum. Í rannsókninni eru beittar aðferðir ályktunartölfræði sem og félagslegra málvísinda. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þessi norsku einkenni hafi einkum verið algeng í trúarlegum, lagalegum og stjórnsýslulegum skrifum og að þau hafi gegnt hlutverki sem stílmerki í formlegum skrifum. Einnig er rýnt í áhrif plágunnar miklu 1402–1404, sem hafði í för með sér ört dvínandi norsk máláhrif, líkast til vegna mikils mannfalls meðal lærðra klerka, sem jók hlutdeild veraldlegrar yfirstéttar í handritagerð. Því er haldið fram að eftir málsambýli í upphafi tímabilsins hafi innra gildismat fengið aukið vægi og stuðlað að sérhæfðari notkun norskra máleinkenna í íslenskum stjórnsýsluskrifum. Þessar niðurstöður veita nýja innsýn í virkni málbreytinga í málsambýli og munu gagnast frekari rannsóknum í sögulegum félagsmálvísindum og handritafræðum.

Um doktorsefnið

Katrín Lísa van der Linde Mikaelsdóttir lauk BA-prófi í þýskum og skandinavískum fræðum frá háskólanum í Göttingen í Þýskalandi og MA-prófi í íslenskum miðaldafræðum frá Háskóla Íslands. Hún starfar nú sem verkefnastjóri Miðstöðvar stafrænna hugvísinda og lista. 

Katrín Lísa van der Linde Mikaelsdóttir.

Doktorsvörn í íslenskri málfræði: Katrín Lísa van der Linde Mikaelsdóttir