Doktorsvörn í heimspeki: Nanna Hlín Halldórsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 28. september næstkomandi fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild. Þá ver Nanna Hlín Halldórsdóttir doktorsritgerð sína í heimspeki sem nefnist Vulnerable in a Job Interview: Butler's Relational Ontology of Vulnerability as a Response to (Neo)liberalism, eða Berskjölduð í atvinnuviðtali: Tengslaverufræði Judith Butler sem viðbragð við (ný)frjálshyggju. Andmælendur verða Birgit Schippers, frá Queens University í Belfast, og Erinn Gilson, frá University of North Florida.
Doktorsritgerðin er unnin undir leiðsögn Sigríðar Þorgeirsdóttur, prófessors í heimspeki og aðrir í doktorsnefnd eru Björn Þorsteinsson prófessor og Hanna Meißner.
Steinunn J Kristjánsdóttir, deildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Um rannsóknina
Síðustu ár hefur hugtakið berskjöldun (e. vulnerability) átt miklu brautargengi að fanga bæði í fræðalandslagi femínískrar heimspeki og sem þverfaglegt hugtak. Í rannsókninni eru nýleg verk heimspekingsins Judith Butler um berskjöldun skoðuð sem mannskilningur og verufræði tengsla og sem andsvar femínískrar heimspeki við einstaklingshyggju (ný)frjálshyggjunar. Þannig gæti berskjöldun haft umbyltandi áhrif á vestræna samfélagsgerð en er það að gerast? Eigum við auðvelt með að koma fram í berskjöldun okkar? Í rannsókninni er atvinnuviðtalið sett fram sem lýsandi dæmi um hindranir á vegi slíkrar verufræði, ekki er hægt að afhjúpa berskjaldanir sínar í atvinnuviðtali ef virkileg þörf er á vinnu. Verufræði berskjöldunar gæti náð hins vegar náð útbreiðslu í kjölfar femínísku byltinga síðustu ára á borð við #metoo, ef bein tengsl eru gerð við kapítalísk vinnukerfi í samtímanum.
Doktorsefnið
Nanna Hlín Halldórsdóttir lauk BA-prófi í heimspeki við Háskóla Íslands árið 2008 og MA-prófi í heimspeki og gagnrýnum fræðum frá Kingston-háskóla í London árið 2012. Á námstímanum hlaut hún doktorsnemastyrk frá rannsóknarsjóði Rannís m.a. í gegnum verkefnið Feminist Philosophy Transforming Philosophy. Nanna dvaldi einnig við Háskólann í Helsinki og við tækniháskólann í Berlín á námstíma sínum. Hún hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands og víðar meðfram námi.
Nanna Hlín Halldórsdóttir.