Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Magnús Blöndahl Sighvatsson
Aðalbygging
Hátíðasalur
Mánudaginn 22. maí 2023 ver Magnús Blöndahl Sighvatsson sálfræðingur doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Virkir þættir í ósértækri hugrænni atferlismeðferð við kvíða og þunglyndi. Mechanisms of change in transdiagnostic cognitive behaviour therapy for anxiety and depression.
Andmælendur eru dr. Robert DeRubeis, prófessor og forstöðumaður klínískrar þjálfunar við Háskólann í Pennsylvania í Bandaríkjunum, og dr. Glenn Waller, prófessor við Háskólann í Sheffield í Englandi.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands og Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. Meðleiðbeinandi var dr. Paul M. Salkovskis, prófessor við Oxford-háskóla. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Engilbert Sigurðsson, Fanney Þórisdóttir og Heiðdís B. Valdimarsdóttir.
Dr. Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.
Ágrip
Bakgrunnur: Virkir þættir í ósértækri hugrænni atferlismeðferð (ÓHAM) eru lítið rannsakaðir. Þrátt fyrir þetta er ÓHAM gagnreynd meðferð við algengum tilfinningavanda og í sumum tilfellum jafn gagnleg og sértæk HAM. Spurningar hafa því vaknað um virka þætti þessara ólíku meðferða. Salkovskis (1996) kom með þá tilgátu að virkur þáttur í ÓHAM sé að kenna skjólstæðingi aðra líklegri, sveigjanlegri og raunhæfari skýringu á tilfinningavanda viðkomandi (“kenning B”) en þá neikvæðu, óhjálplegu og ósveigjanlegu skýringu sem skjólstæðingur hefur þegar hann kemur til meðferðar (“kenning A”). Salkovskis nefndi þennan feril sem breytingu á tiltrú frá “kenningu A” til “kenningu B”. Markmið þessa doktorsverkefnis var að kanna tilgátu Salkovskis og nota þrjár ólíkar rannsóknaraðferðir til þess.
Aðferð: Í rannsókn I voru 24 þátttakendur með kvíða og/eða þunglyndi úr nýlegri árangursrannsókn. Þeim var skipt í tvo hópa eftir því hvort meðferðin var árangursrík eða ekki, til að meta hvort mismunandi skilningur tengdist árangri. Þátttakendur voru teknir í viðtal og Þema-rammagreining notuð til að greina viðtölin. Í rannsókn II var margföldu grunnlínusniði beitt til að meta árangur frumútgáfu ÓHAM (byggða á kenningu Salkovskis) hjá þrettán einstaklingum með fjölþættan tilfinningavanda. Í rannsókn III voru tvær útgáfur sjálfsmatskvarða þróaðar til að meta hversu nauðsynleg og mikilvæg meðferðaraðilar töldu mismunandi inngrip vera í árangri sálfræðilegrar meðferðar. Svörum 233 meðferðaraðila var safnað.
Niðurstöður: Í rannsókn I greindust fjögur yfirþemu og átján undirþemu sem tengdust árangri meðferðar en fjögur af átján undirþemum voru ólík milli hópanna. Í rannsókn II var ÓHAM gagnleg fyrir átta þátttakendur. Niðurstöður voru þó breytilegar eftir því hvaða áreiti var metið neikvætt eða ógnvænlegt. Stig og stefna í mati á tiltrú á “kenningu A” fylgdu stigi og stefnu einkennamælinga mun meira heldur en öfug stig og stefna í mati á tiltrú á “kenningu B”. Í rannsókn III voru próffræðilegir eiginleikar listanna tveggja góðir. Inngrip sem eru sértæk fyrir HAM voru metin mikilvægari og nauðsynlegri samanborið við önnur inngrip.
Ályktanir: Það þema sem helst greindi á milli hópanna í rannsókn I var hugrænn sveigjanleiki og sérstaklega þar sem meðferðin var árangursrík. Niðurstöður rannsóknar II benda til að ÓHAM sem byggð er á virkum þætti þar sem einstaklingum er kennt sérstaklega að breyta um tiltrú frá “kenningu A” að “kenningu B” sé árangursrík. Í rannsókn III voru inngrip sem metin voru HAM sértæk einkennandi fyrir árangursríka meðferð. Niðurstöður þessa doktorsverkefnis benda til að virkur þáttur í ÓHAM sé fólginn í því að kenna skjólstæðingi aðra líklegri, sveigjanlegri og raunhæfari skýringu á tilfinningavanda viðkomandi en þá neikvæðu, óhjálplegu og ósveigjanlegu skýringu sem skjólstæðingur hefur þegar hann kemur til meðferðar. Mikilvægt er að “kenning B” sé byggð á vinnugreiningu um tilfinningavandamál skjólstæðings sem og sameiginlegum skilningi skjólstæðings og meðferðaraðila.
English abstract
Background: Transdiagnostic mechanisms of change (txMOC) in cognitive behaviour therapy (CBT) are seldom studied. Despite this omission, transdiagnostic CBT (txCBT) is established as effective for prevalent mental health problems and equally effective as disorder specific CBT. Therefore, questions have been raised as to what mechanisms might be responsible for the treatment change. Salkovskis (1996) proposed a txMOC which involves the shift from inflexibly held negative or threat-based beliefs towards alternative, less negative and flexible understanding of their problems, referred to as the belief shifting from “theory A” to “theory B”. Aims of this thesis was to evaluate Salkovskis’ proposed mechanism with three different research strategies.
Method: In study I, a sample of 24 participants suffering from anxiety and/or depression was divided into two groups according to treatment efficacy, to evaluate whether different understandings were associated with the efficacy of treatment. Participants were interviewed and Thematic Framework Analysis used to analyse the data. In study II a non-concurrent multiple baseline design was used to evaluate the effectiveness of an adapted txCBT based on Salkovskis hypothesis, with thirteen participants suffering from diverse mental health problems. In study III two versions of a self-report questionnaire were developed to assess how necessary and how important therapists evaluated different interventions were in bringing about treatment change. In total, 233 therapists were recruited.
Results: In study I, four overarching themes and eighteen subthemes associated with treatments’ efficacy were identified but four of the eighteen subthemes were different between the groups. In study II the txCBT was clearly effective for eight participants. The results varied dependent on the stimuli evaluated as negative or threatening. Level and trend of the ratings of belief in “theory A” followed the level and trend of symptom measures to a greater extent than the (inverse) level and trend of belief in “theory B”. In study III psychometric properties of the instruments were evaluated as sufficient. Interventions summarized on sub-scales as CBT specific were evaluated more highly relative to other interventions on both versions of the measure.
Conclusions: In study I, the most important between group difference, was cognitive flexibility. In study II the data indicate that effective treatment involves the txMOC where individuals with common mental health are taught to shift beliefs from a prior fixed negative view of their environment and experiences to a less negative psychologically focused alternative. Study III interventions characterized as CBT-specific were more strongly endorsed relative to other interventions. The results of this thesis indicate that treatment change may be facilitated by txMOC involving the shift from fixed negative or threatening views of situations to alternative, more flexible and less negative view. Such an alternative can be based on formulation and shared understanding of the person’s mental health problems (“theory B”).
Um doktorsefnið
Magnús Blöndahl Sighvatsson er fæddur árið 1977 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík árið 1997. Hann lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og MA-prófi í sálfræði frá sama skóla árið 2006. Árin 2006-2016 starfaði Magnús sem sálfræðingur á Landspítala, bæði á innlagnadeild og á göngudeild. Frá árinu 2007 hefur Magnús starfað sem sjálfstætt starfandi sálfræðingur og rekið eigin sálfræðistofu. Frá árinu 2007 hefur Magnús verið stundakennari við Háskóla Íslands og frá árinu 2013 við Háskólann í Reykjavík. Magnús var skipaður klínískur lektor við Sálfræðideild Háskóla Íslands árið 2017. Foreldrar Magnúsar eru Sighvatur Blöndahl og Sólveig Aðalsteinsdóttir. Magnús er giftur Auði Eiríksdóttur sálfræðingi og doktorsnema og eiga þau tvær dætur, Báru og Sólveigu.
Magnús Blöndahl Sighvatsson ver doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands mánudaginn 22. maí