Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Kári Árnason

Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 21. nóvember 2025 ver Kári Árnason doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Meira en bara öxlin? Hreyfigreining á uppstökkskasti og áhrifaþættir axlarmeiðsla í handbolta. More than the shoulder? Kinematics of the jump throw and factors influencing shoulder problems in handball.
Andmælendur eru dr. Roland Johannes Wilhelmus van den Tillaar, prófessor við Nord University í Levanger í Noregi, og dr. Behnam Liaghat, dósent við Syddansk Universitet í Danmörku.
Umsjónarkennari var Kristín Briem, prófessor og leiðbeinandi Atli Ágústsson, lektor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Elís Þór Rafnsson, sjúkraþjálfari og Hilde Fredriksen, sjúkraþjálfari.
Sólveig Ása Árnadóttir, prófessor og formaður námsbrautar í sjúkraþjálfun, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9.00.
Ágrip
Axlarvandamál eru algeng á meðal handboltaiðkenda. Þekktir áhættuþáttir eru skortur á styrk og hreyfigetu í öxl og skyndileg aukning í æfinga- og keppnisálagi en lítið er vitað um áhrif grunnstyrks og afls í neðri útlimum og bol á þróun álagsmeiðsla í öxl. Þrátt fyrir að uppstökk sé ein algengasta kasttæknin í handbolta hafa fáar rannsóknir greint hana með þrívíddartækni með tilliti til álags á axlarliðinn. Hreyfingar í neðri útlimum og bol við framkvæmd þeirrar kasttækni og áhrif þeirra á kastöxlina eru því lítið þekkt, sem og áhrif leikstöðu. Framkvæmd rannsóknanna sem þessi ritgerð byggir á var þrískipt. Í fyrsta hluta voru tengsl styrktar- og aflmælinga í neðri útlimum og bol á undirbúningstímabili og axlarmeiðsla yfir keppnistímabil könnuð á meðal karlkyns handboltaiðkenda. Í öðrum hluta voru sömu tengsl könnuð á meðal kvenkyns handboltaiðkenda, sem og áhrif innra og ytra axlarálags. Í þriðja hluta var þrívíddar-hreyfigreining framkvæmd á uppstökkskasti til að meta hornhraða og hreyfiútslag í gegnum hreyfikeðjuna. Tengsl á milli hreyfinga í neðri útlimum og bol og hreyfinga í kastöxl voru metin, sérstaklega með tilliti til framlags hreyfinga í neðri útlimum og bol til innsnúnings hornhraða í kastöxl. Saman sýna rannsóknirnar fram á mikilvægi kraftmyndunar í neðri útlimum og bol hjá karlkyns handboltaiðkendum og hvernig hreyfingar í neðri útlimum og bol hafa áhrif á hornhraða og hreyfiútslag í kastöxl. Samtímis varpa niðurstöðurnar ljósi á flókið samspil mismunandi áhættuþátta varðandi axlarmeiðsli á meðal kvenkyns handboltaiðkenda.
Abstract
Shoulder problems are common among handball players. However, the influence of lower body strength and trunk rotation power on shoulder problems in handball have not been investigated before. Despite the jump throw being the most common throwing technique in handball, few motion analyses stuides have been conducted. This thesis is based on results from three research papers. In the first part, the association between pre-season lower body strength and trunk rotation power and shoulder problems during the ensuing season was examined among male handball players. In the second part, the same relationships were studied among female players, with the additional analysis of the effects of internal versus external shoulder load. In the third part, a 3D motion analysis of the jump throw was performed. Together, the studies demonstrate the importance of proximal segments´ force generation among male players and how proximal kinematics influence the throwing shoulder during a jump throw. Simultaneously they highlight the complex interaction of multiple risk factors for shoulder problems among female players.
Um doktorsefnið
Kári Árnason er fæddur árið 1988 á Akranesi og uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lauk B.Sc. prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands árið 2013 og M.Sc. prófi frá University College London 2016. Kári hefur starfað sem sjúkraþjálfari frá 2013 og frá janúar 2025 sem lektor við Námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Árið 2022 hóf hann doktorsnám undir handleiðslu dr. Kristínar Briem og dr. Atla Ágústssonar. Foreldrar Kára eru Árni Þór Vésteinsson og Ingibjörg Rögnvaldsdóttir. Eiginkona Kára er Kara Elvarsdóttir og saman eiga þau Kríu (8 ára) og Úlf (4 ára).
Kári Árnason ver doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 21. nóvember 2025.
