Doktorsvörn í fötlunarfræði - Laufey Elísabet Löve
Hátíðasalur Háskóla Íslands
Föstudaginn 28. júní ver Laufey Elísabet Löve doktorsritgerð sína í fötlunarfræði sem ber heitið Sjálfræði, jafnrétti og fötlun: Reynsla fatlaðs fólks sem uppspretta þekkingar við stefnumótun og lagasetningar (e. Achieving Disability Equality: The Inclusion of the Lived Experience of Disability in Law and Policymaking).
Athöfnin er öllum opin og fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands klukkan 14:00.
Athöfnin fer fram á ensku en verður rittúlkuð á íslensku.
Andmælendur eru Anna Lawson, prófessor í lögfræði við University of Leeds í Bretlandi og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Leiðbeinandi er Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræði við Háskóla Íslands.
Einnig í doktorsnefnd eru dr. James G. Rice, lektor í mannfræði við Háskóla Íslands, og Gerard Quinn, prófessor í lögfræði við University of Leeds og Raoul Wallenberg Centre for Human Rights.
Doktorsvörn stýrir Stefán Hrafn Jónsson, deildarforseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.
Um doktorsefnið Laufey Elísabet Löve er fædd árið 1965. Hún lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og MA prófi í stjórnmálafræði frá the New School for Social Research árið 1997. Laufey er búsett í New York ásamt fjölskyldu sinni.
Efniságrip
Doktorsritgerðin fjallar um innleiðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á Íslandi með sérstakri áherslu á rétt fatlaðs fólks til ákvarðanatöku, bæði um eigin líf og hvað varðar þátttöku í mótun stefnu og setningu laga sem snerta hagsmuni þess.
Ritgerðin er þverfræðileg og dregur athygli að því að rétturinn til fullrar og virkrar þátttöku á öllum sviðum er einn af grunnþáttum Samningsins og jafnframt ein af forsendum þess að því markmiði hans að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og full mannréttindi verði náð. Sjónum er einkum beint að hagsmunasamtökum fatlaðs fólks og því lykilhlutverki sem þau gegna við að tryggja viðurkenningu á réttindum til virkar þáttöku og að reynsla fatlaðs fólks öðlist viðurkenningu sem mikilvæg uppspretta þekkingar, ekki síst þegar kemur að stefnumótun og lagasetningu.
Rannsóknin tók til aðdraganda þess að Samningur Sameinuðu þjóðanna var fullgiltur á Íslandi árið 2016 og þeirrar þróunar sem síðan hefur orðið. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í fjórum greinum í ritrýndum tímaritum á sviði félagsvísinda og laga.
Laufey Elísabet Löve ver doktorsritgerð sína í fötlunarfræði við Háskóla Íslands föstudaginn 28. júní nk. Ritgerðin ber heitið: Sjálfræði, jafnrétti og fötlun: Reynsla fatlaðs fólks sem uppspretta þekkingar við stefnumótun og lagasetningar (e. Achieving Disability Equality: The Inclusion of the Lived Experience of Disability in Law and Policymaking). Athöfnin er öllum opin og fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands klukkan 14:00. Athöfnin fer fram á ensku en verður rittúlkuð á íslensku.