Doktorsvörn í fornleifafræði: Sigrún Hannesdóttir

Aðalbygging
Hátíðasal
Föstudaginn 6. febrúar 2026 fer fram doktorsvörn við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Þá ver Sigrún Hannesdóttir doktorsritgerð sína í fornleifafræði The Nuns of Nidaros: Female Monasticism in the Archdiocese of Nidaros, c. 1152–1537. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Andmælendur við vörnina verða Åslaug Ommundsen, prófessor við Háskólann í Björgvin í Noregi, og Janet Burton, prófessor við University of Wales Trinity Saint David. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Alison Beach, prófessor við University of St Andrews í Skotlandi, og Øystein Ekroll, rannsakandi við Nidaros Cathedral Restoration Workshop í Þrándheimum.
Sverrir Jakobsson, deildarforseti Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Innan Niðarósserkibiskupsdæmis voru stofnuð fleiri en 40 munkaklaustur á miðöldum en einungis er vitað um tíu nunnuklaustur. Þau voru stofnuð á 12. og 13. öld og tilheyrðu flest reglu heilags Benedikts. Ritgerðin fjallar um nunnuklaustur á Íslandi og í Noregi en markmið hennar er að auka hlut kvenna í klausturrannsóknum og um leið hlut þverþjóðlegra nálgana innan þeirra. Í ritgerðinni er litið til ritaðra heimilda, niðurstaðna fornleifarannsókna og varðveittra gripa til þess að varpa ljósi á fjölbreyttar hliðar á klausturlífi kvenna á svæðinu. Rannsóknin dregur fram samfélagslegt mikilvægi klaustranna sem veittu konum á miðöldum til dæmis tækifæri til að mennta sig, iðka trú og til þess að gegna ábyrgðarstöðum sem abbadísir. Um leið sýnir hún fram á veigamikinn sess þeirra í menningarlegu og trúarlegu landslagi Niðarósserkibiskupsdæmis.
Um doktorsefnið
Sigrún Hannesdóttir lauk BA-prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands og MSt-prófi við Oxford-háskóla.
Sigrún Hannesdóttir.
