Skip to main content

Doktorsvörn í efnafræði - Sreejith Sudhakaran Jayabhavan

Doktorsvörn í efnafræði - Sreejith Sudhakaran Jayabhavan - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
28. febrúar 2025 13:00 til 15:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Stofa 023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni:
Sreejith Sudhakaran Jayabhavan

Heiti ritgerðar:
Efnasmíði snjallefna í gelum með lágan sameindamassa 

Andmælendur:
Dr. Gareth O. Lloyd, dósent við Náttúruvísindasvið, Háskólinn í Lincoln, Englandi
Dr. Stefán Jónsson, Yfirmaður ARD eðlisefnafræðilegra aðferða hjá Alvotech, Íslandi

Leiðbeinandi:
Dr. Krishna Kumar Damodaran, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Már Másson, prófessor við Lyfjavísindadeild Háskóla Íslands
Dr. Guðmundur Gunnar Haraldsson, prófessor emeritus við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Doktorsvörn stýrir:
Dr. Birgir Hrafnkelsson, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar HÍ   

Ágrip:
Náttúran sýnir í eðli sínu ótrúlega hæfileika til að raða, setja eða hvarfa sjálfkrafa saman grunneiningar til að mynda smásameindir, fjölliður svo og risasameindir. Rannsóknir og þekking á náttúrulegum ferlum í sjálfkrafa hvörfum grunneininga til fjölliðumyndunar er krefjandi og heillandi viðfangsefni, sér í lagi þar sem lífheimurinn hannar og býr til „snjallefni“ á einfaldan hátt. Í þessu rannsóknaverkefni til doktorsprófs voru rannsökuð gel efnasambönd með lága sameindamassa (LMWG). Hlutverk ýmissa ótengdra þátta og víxlverkana milli virkra efnahópa voru rannsakaðir með það markmið að ákvarða hvaða þættir stjórna sjálfkrafa byggingu sameindanna í gelunum. Valin voru fjölþátta kerfi með tveimur virkum hópum og aðallega litið til virkni eftirfarandi hópa: amíð, þvagefni, thíoþvagefni og karbamat vegna eiginleika virku hópanna og hæfileika til að mynda vetnistengi í trefjakenndum gelum. Áhrif efna eins og salta/jóna, bakteríudrepandi efna og lífrænna lyfjaefna voru einnig rannsökuð með tilliti til bakteríudrepandi virkni, gelmyndunar, og breytinga á kristöllun trefjanna í gelforminu. Mismunandi LMWG gel voru hönnuð og smíðuð og uppbygging eða byggingaeiginleikar þessara gela rannsökuð og greind með togþolsmælingum, seigju, og styrkleika gelsins, rafeindasmásjá, ljósbrotseiginleikum, FT-IR, litrófsmælingum á útfjólubláa og sýnilega sviðinu og röntgen kristal greiningu. Áhrif málmsalta á gelin voru rannsökuð, bæði við myndun þeirra og niðurbrot. Víxlverkun lífvirkra efna og efna er líkja eftir lyfjavirkum sameindum var rannsökuð til að öðlast skilning á hlutverki virku hópanna við kristöllun lyfvirkra efna (API). Hlutverk og áhrif handhverfuhreinna efna við sjálfvirka byggingu fjölþátta kerfa við gelmyndun var rannsökuð og greind. Sértæk samsetning í blöndum af handhverfu gelunum var staðfest með ýmsum greiningaraðferðum svo og afgerandi hlutverk tiltekinna virkra hópa til að stýra byggingareiginleikum þessara gela. Rannsóknaverkefnið svaraði ýmsum spurningum varðandi gelmyndun og getur leitt til betri og skilvirkari aðferðafræði við hönnun og myndun LMWG með fyrirsjáanlega eiginleika.

Um doktorsefnið:
Sreejith er fæddur á Indlandi 1996. Áhuga sinn á efnafræði þakkar hann móður sinni sem er menntaskólakennari í efnafræði á Indlandi og sem hvatti hann til náms í efnafræði. Hann lauk meistaranámi í efnafræði 2019 frá Central University of Tamil Nadu á Suður-Indlandi og hóf doktorsnám í efnafræði hjá prófessor Krishna K. Damodaran í nóvember sama ár. Rannsóknaverkefni hans er á sviði notkunar á gelum með lágan sameindamassa til efnamíða á fjölliðum sem raða sér sjálfkrafa upp og geta t.d. myndað snjallefni.

 

Doktorsefnið Sreejith Sudhakaran Jayabhavan

Doktorsvörn í efnafræði - Sreejith Sudhakaran Jayabhavan