Skip to main content

Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Rósa María Hjörvar

Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Rósa María Hjörvar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. mars 2026 14:00 til 15:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 6. mars 2026 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Rósa María Hjörvar doktorsritgerð sína í almennri bókmenntafræði, Mælskur af bræði: Reiði, heimsveldi og nýlenduminni í íslenskum nútímabókmenntum. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 14:00. Vörnin fer fram á íslensku.

Andmælendur við vörnina verða Haukur Ingvarsson, lektor við Háskóla Íslands, og Sólveig Ásta Sigurðardóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, prófessors í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Kristinn Helgi Magnússon Schram, dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands, og Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafæði við Háskóla Íslands.

Gauti Kristmannsson, deildarforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Í ritgerðinni er unnið með birtingarmyndir reiði í þremur íslenskum verkum, Tómasi Jónsyni metsölubók (1966) eftir Guðberg Bergsson, Innansveitarkroniku (1970) eftir Halldór Laxness og Höfundi Íslands (2001) eftir Hallgrím Helgason. Reiði í verkunum er skoðuð í ljósi eftirlendufræða með áherslu á minni heimsveldisins og nýlendunnar. Í greiningunni er unnið með hugmynd um gróteska reiði og reynt að skýra menningarleg tengsl hennar og virkni innan texta. 

Um doktorsefnið

Rósa María Hjörvar lauk B.A. – prófi í almennri bókmenntafræði með fornleifafræði sem aukagrein við Syddansk Universitet og meistaraprófi í almennri bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hún starfar sem stafrænn verkefnastjóri og sinnir stundakennslu við Háskóla Íslands. 

Rósa María Hjörvar.

Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Rósa María Hjörvar