Doktorsvörn í almennri bókmenntafræði: Hjalti Snær Ægisson
Aðalbygging
Hátíðasal
Mánudaginn 23. september 2019 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Hjalti Snær Ægisson doktorsritgerð sína í almennri bókmenntafræði sem nefnist Þýdd ævintýri í íslenskum handritum 1350-1500. Uppruni, þróun og kirkjulegt hlutverk. Andmælendur eru Margaret Cormack, prófessor emerita við Charleston háskóla í Suður Karólínu og gestafræðimaður við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Jonas Wellendorf, dósent við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Torfi Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stýrir athöfninni.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Gottskálks Jenssonar, dósents á Árnasafni í Kaupmannahöfn. Aðrir í doktorsnefnd voru Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, og Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Um rannsóknina
Í ritgerðinni er fjallað um ævintýri í íslenskum handritum frá 14. og 15. öld og vensl þeirra við latneskar dæmisögur (exempla). Ævintýrin eru túlkuð sem samsett textategund eða farvegur ólíkra hefða sem spanna heilagra manna sögur, króníkur, prédikanir, spakmæli og fleiri greinar. Litið er til þess hvernig norræn ævintýri gagnast sem heimildir um viðhorf til kirkjulegra embætta og sakramenta, m.a. með samanburði við söguleg skjöl á borð við kirkjutilskipanir og biskupasögur.
Doktorsefnið
Hjalti Snær Ægisson (f. 1981) lauk M.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og diplómanámi í evrópskum miðaldafræðum (DEEM) við FIDEM í Róm árið 2012. Hann hefur starfað sem stundakennari í bókmenntasögu við Íslensku- og menningardeild frá 2013.
Hjalti Snær Ægisson.