Doktorsvörn: Guðrún Svavarsdóttir

Askja
Fyrirlestrarsalur
Föstudaginn 2. maí ver Guðrún Svavarsdóttir doktorsritgerð sína Tekjur og velferð: Samhengi, samanburður og aðferðir (e. Income and Well-being: Context, Comparison and Methods).
Vörnin fer fram í fyrirlestrarsal Öskju kl. 13:00 og er öllum opin. Andmælendur eru Erik Plug, prófessor við Amsterdamháskóla og Denisa Sologon, yfirrannsakandi við LISER.
Um ritgerðina:
Leiðbeinandi Guðrúnar er dr. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands og í doktorsnefnd sitja dr. Andrew E. Clark, prófessor við Paris School of Economics og dr. Gunnar Stefánsson, prófessor við Stærðfræðideild Háskóla Íslands.
Í rannsókninni eru flókin tengsl tekna og velferðar skoðuð og þá sérstaklega áhrif ytra samhengis og aðferðafræði á skilning okkar á þessum tengslum. Ég skoða huglægar tekjuþarfir í ólíku samfélagslegu samhengi og nýti niðurstöðurnar til að bera saman efnahagslega velferð einstaklinga bæði innan og milli landa.
Í fyrstu grein ritgerðarinnar nota ég gögn frá Rússlandi, landi þar sem mikill efnahagslegur og félagslegur breytileiki er milli svæða. Niðurstöðurnar sýna að Rússar hafa, að meðaltali, lægri tekjur en þeir telja sig þurfa. Þá sjáum við að kyn, menntun og aldur skýra að miklu leyti hve miklar tekjur einstaklingur telur sig þurfa. Niðurstöðurnar sýna hins vegar að tekjuaukning skilar minni velferðaraukningu í Rússlandi samanborið við önnur lönd. Þetta skýrist að miklu leyti af ytri samfélagslegum aðstæðum. Á svæðum og í löndum með meiri tekjuójöfnuð hefur tekjuhækkun minni áhrif á velferð einstaklinga en á jafnari svæðum.
Í annarri grein ritgerðarinnar skoða ég jafngildiskvarða sem notaðir eru til að leiðrétta heimilistekjur fyrir stærð og aldurssamsetningu heimila. Ég set fram gagnareynda jafngildiskvarða sem byggja á svörum fólks við spurningu um hve háar tekjur það telur sig þurfa til að ná endum saman. Þessir nýju kvarðar endurspegla töluvert meiri stærðarhagkvæmni heimila en almennt er gert ráð fyrir þegar heimilistekjur eru leiðréttar. Þetta þýðir að stærri heimili standa betur að vígi en hefðbundnir kvarðar gefa til kynna. Ennfremur sýni ég að val á jafngildiskvarða getur haft mikil áhrif á tölfræði um tekjudreifingu, t.d. eykst mældur ójöfnuður ef þessi nýi jafngildiskvarði er notaður.
Í þriðju greininni kanna ég áhrif heimilisskilgreininga á tekjutölfræði með íslenskum gögnum. Verulegur munur kemur fram á mælingum á meðaltekjum, ójöfnuði og fátækt eftir því hvort notast er við sjálfskilgreindar heimilissamsetningar úr könnunum eða heimili eins og þau eru skráð í opinberum gögnum.
Í heild sinni undirstrika niðurstöður ritgerðarinnar mikilvægi þess að huga vandlega að samfélagslegu samhengi og aðferðafræði við rannsóknir á efnahagslegri velferð. Niðurstöðurnar geta stuðlað að nákvæmari og sanngjarnari stefnumótun og bættum aðferðum við gagnaöflun og -framsetningu.
Um doktorsefnið:
Guðrún er fædd í Reykjavík 1991. Hún lauk BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands 2015, MA-prófi í lífsiðfræði frá New York University 2018 og MSc-prófi í hagfræði frá Lund Universitet árið 2020. Hún hóf doktorsnám 2020. Hún hefur sinnt kennslu samhliða náminu og vann á Hagstofu Íslands vorið 2024 til að vinna hluta verkefnisins.
Föstudaginn 2. maí ver Guðrún Svavarsdóttir doktorsritgerð sína Tekjur og velferð: Samhengi, samanburður og aðferðir
