Skip to main content

Blindir fá hljóðsýn – Nýsköpun í fremstu röð

Blindir fá hljóðsýn – Nýsköpun í fremstu röð - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
23. janúar 2019 12:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Opið hús og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Streymt verður beint frá viðburðinum.

Rúnar Unnþórsson, frumkvöðull, prófessor í iðnaðarverkfræði og deildarforseti við Háskóla Íslands, og Árni Kristjánsson, prófessor í sálfræði, flytja fyrirlestur í röðinni um Nýsköpun – Hagnýtum hugvitið í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 23. janúar 2019. Erindið hefst kl. 12 og fer fram í Hátíðasal.

Beint streymi frá fyrirlestrinum

Rúnar og Árni hafa vakið gríðarlega athygli víða í Evrópu fyrir að leiða rannsóknarverkefnið Sound of Vision, ásamt vísindamönnum við Háskóla Íslands. Verkefnið hlaut fyrstu verðlaun í flokknum „Tækni fyrir samfélag“ í úrslitum Nýsköpunarverðlauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Innovation Radar Prize 2018, sem afhent voru í Vín núna á dögunum.

Markmið Sound of Vision er að þróa hátæknibúnað til þess að hjálpa blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt. Meðal búnaðarins sem þróaður hefur verið innan Sound of Vision verkefnisins er skynbelti sem sett er utan um mitti notandans þar sem það nemur upplýsingar úr umhverfinu og miðlar þeim til notanda fyrir tilstilli lítilla mótora sem titra, hver með sínu lagi ef svo má segja. Beltið nýtist einnig þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki notað hefðbundin skynfæri tímabundið. Það getur átt við starfsfólk í ýmsum aðstæðum, eins og við reykköfun eða öryggisgæslu í hávaða. Þróun búnaðarins hefur verið unnin í góðu samstarfi við blint og sjónskert fólk hér á landi.

Sound of Vision verkefnið hefur staðið yfir undanfarin þrjú ár en það hlaut alls fjögurra milljóna evra styrk úr rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020, árið 2015.

Rúnar hefur margsinnis sýnt fram á mikilvægan þátt verkfræðinnar í mótun nútíma samfélags, hlutverk verkfræðinnar í samfélagslegri nýsköpun og hvernig áherslur á samfélagsábyrgð hafa þróast innan verkfræðinnar. Rúnar hefur tekið þátt í fjölmörgum samfélagslegum nýsköpunarverkefnum, til að mynda á sviði umhverfisverndar og heilbrigðisvísinda. Í erindi sínu í nýsköpunarröðinni mun Rúnar fjalla vítt og breitt um mikilvægi nýsköpunar og fara yfir verkefnið Sound of Vision sem lýtur hans forystu eins og áður sagði. Auk hans koma Árni Kristjánsson, prófessor við Sálfræðideild, og hópur nýdoktora, doktorsnema og rannsóknarmanna innan Háskólans að verkefninu ásamt Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og verkfræðingum frá háskólum og stofnunum í fjórum öðrum Evrópulöndum, Rúmeníu (University Politehnica of Bucharest), Ítalíu, Póllandi og Ungverjalandi.

Auk þessa hefur Rúnar unnið að því að innleiða og þróa verkfræðilega lausn sem snýst um að lágmarka lífrænan úrgang sem fer í urðun eða landfyllingar hér á landi. Tæknin sem stuðst er við nefnist gösun. Allt lífrænt hráefni er hægt að gasa og er það gert með því að hita hráefnið í yfir 700 gráður á celcíus. Hráefnið er ekki brennt, einungis hitað. Við gösunina umbreytist hráefnið að mestu yfir í lofttegundir og gufar upp. Loftblandan sem myndast er þekkt undir nafninu syngas en hana má nýta á ýmsan veg.
Árni Kristjánsson er prófessor við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur Árni aðallega fengist við að skilja sjónkerfi mannsins og hvernig athygli og sjónskynjun vinna saman. Til þess hefur hann notað svartíma- og nákvæmnimælingar, rannsóknir á augnhreyfingum með háhraðaaugnhreyfingamælingum, taugasálfræðilegar rannsóknir auk rannsókna með segulómmyndun. Árni hefur einnig rannsakað verkan sjónskynjunar og athygli hjá fólki með kvíðasjúkdóma og hjá fólki með lesblindu.

Árni er einn þriggja forsvarsmanna Rannsóknastofu í skynjunarsálfræði þar sem 15 vísindamenn starfa í dag. Rannsóknir Árna hafa verið styrktar af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Rannsóknasjóði Íslands, Human Frontiers Science Program og European Research Council. Hann hefur birt um 100 vísindagreinar í ritrýndum erlendum vísindatímaritum.

Hagnýtum hugvitið

Nýsköpun er undirstaða framfara og treystir samkeppnisstöðu landsins til langframa. Í nýrri fundaröð Háskóla Íslands, sem ber heitið „Nýsköpun - hagnýtum hugvitið“, er ætlunin að undirstrika mikilvægi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag. Fjallað verður um ferðalag hugmynda yfir í fullmótuð fyrirtæki eða afurð, hvernig íslenskt samfélag og stjórnvöld geta betur stutt við nýsköpunarstarf, fjármögnun frumkvöðlastarfs, tengsl og samstarf atvinnulífs og háskóla. Þá verður sjónum beint að þekkingarsamfélaginu sem er að rísa í Vatnsmýrinni, sérstaklega hugmyndafræði Vísindagarða sem ætlað er að tengja saman frumkvöðla, fyrirtæki, háskóla og stofnanir til að efla hagnýtingu rannsókna fyrir íslenskt samfélag.

Markmiðið með fundaröðinni er að eiga samtal um lausnir á mikilvægum samfélagslegum þáttum og áskorunum sem við glímum við á hverjum tíma. Í nýju röðinni er stefnt saman virtum rannsakendum úr Háskóla Íslands og fagfólki og frumkvöðlum víðar úr samfélaginu sem eiga það sameiginlegt að vinna að nýsköpun í íslensku og alþjóðlegu samfélagi.

Sound of Vision hlaut fyrstu verðlaun í flokknum „Tækni fyrir samfélag“ í úrslitum Nýsköpunarverðlauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Innovation Radar Prize 2018.

Blindir fá hljóðsýn – Nýsköpun í fremstu röð